[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Massimiliano Allegri, þjálfari Ítalíumeistara Juventus í knattspyrnu, staðfesti í gær að félagið hefði áhuga á að semja við hollenska landsliðsmanninn Wesley Sneijder sem leikur með tyrkneska liðinu Galatasaray.

Massimiliano Allegri, þjálfari Ítalíumeistara Juventus í knattspyrnu, staðfesti í gær að félagið hefði áhuga á að semja við hollenska landsliðsmanninn Wesley Sneijder sem leikur með tyrkneska liðinu Galatasaray. „ Sneijder er gríðarlega hæfileikaríkur og er gæðaleikmaður í alla staði ,“ sagði Allegri við fréttamenn. Sneijder er 30 ára gamall og hefur lengi verið orðaður við Manchester United en hann kom til Galatasaray frá Inter árið 2013.

Þýski landsliðsmaðurinn Lukas Podolski er orðinn leikmaður Inter á Ítalíu en Inter og Arsenal komust í gær að samkomulagi um lánssamning sem gildir út leiktíðina. Podolski, sem er 29 ára gamall, kom til Arsenal frá Köln árið 2012. Hann var orðinn þreyttur á bekkjarsetunni hjá Lundúnaliðinu og vildi komast í burtu frá félaginu. „ Hann er reynslumikill og á glæsilegan feril að baki. Hann mun hjálpa okkur og þetta er ekki endalokin á hans ferli ,“ sagði Roberto Mancini , þjálfari Inter, á fréttamannafundi í gær.

Katalónska knattspyrnufélagið Barcelona hefur sagt upp yfirmanni knattspyrnumála, And oni Zubizarreta , fyrrverandi landsliðsmarkverði Spánar. Zubizarreta, sem er 53 ára gamall, hefur gegnt starfinu frá árinu 2010 en hann varði mark liðsins í ríflega 300 deildaleikjum á árunum 1986 til 1994 og spilaði 126 landsleiki fyrir Spán.

A dam Lallana , enski landsliðsmaðurinn sem hefur komið sterkur upp í liði Liverpool í síðustu leikjum, spilar ekki næstu vikurnar. Miðjumaðurinn knái, sem kom til Liverpool frá Southampton í sumar, glímir við meiðsli sem hann hlaut í sigurleiknum gegn Swansea í síðustu viku en í þeim leik skoraði hann tvö mörk í 4:1 sigri liðsins.

Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson eru komnir til Doha í Katar. Þar munu þeir á næstu dögum dæma leiki í æfingamóti þar sem landslið Katar, Portúgals og Bosníu spreyta sig og hita upp fyrir heimsmeistaramótið í handknattleik karla sem hefst í Doha 15. janúar. Landslið Katar og Bosníu taka þátt í heimsmeistaramótinu en landslið Portúgals ekki. Anton og Jónas koma heim að æfingamótinu loknu. Þeir dæma ekki á heimsmeistaramótinu að þessu sinni en Anton dæmdi á HM fyrir tveimur árum ásamt þáverandi samherja sínum, Hlyni Leifssyni.