Anna Chr. Hansen fæddist 5. mars 1927. Hún lést 29. desember 2014.

Foreldrar hennar voru Margrét Finnbjörnsdóttir Hansen og Rudolf Theil Hansen. Auk Önnu áttu þau Halldóru Rögnu, Steinunni Þuríði, Ölmu Elísabetu og Gunnlaug Hrein. Anna giftist Ólafi Markúsi Ólafssyni 6. janúar 1951. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Birna Ólafsdóttir, gift Kristni Herði Grétarssyni og eru þeirra börn Anja Björg og Grétar Geir; og 2) Ólafur Magnús Ólafsson, kvæntur Chona H. Ólafsson og eru þeirra dætur Bryndís og Anna Kristín.

Útför Önnu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 6. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til ömmu Önnu. Ég eyddi ófáum stundunum hjá henni og á þaðan margar góðar minningar. Ég sé hana fyrir mér með gítarinn sinn að spila, ég sé hana fyrir mér við eldhúsborðið með kaffið sitt að gefa schaefer-hundunum Funa eða Huga brauðbita með hunangi á morgnana, en við vorum báðar miklar hundakonur. Ég man líka svo vel sögurnar sem ég bað hana um að segja mér á kvöldin fyrir svefninn þegar ég fékk að gista hjá henni, hún sagði svo skemmtilega frá. Amma var dugleg kona og það var kraftur í henni. Stundum datt henni í hug á góðum, sólríkum degi að skjótast í ferðalag, t.d. að keyra á Þingvelli eða að Skógafossi og fá okkur svo hressingu þar. Alltaf leyfði hún mér að taka góða vinkonu með ef ég vildi. Hún elskaði líka að fara upp í sumarbústað, enda fannst henni æðislegt að vera í nálægð við náttúruna. Amma tók alltaf vel á móti fólki og var brosmild og rausnarleg og var maður alltaf velkominn til hennar. Hún var alltaf svo hugguleg eins og ég og Auður Sif lýstum henni gjarnan. Með litríka slæðu í fallegum drögtum. Henni var margt til lista lagt enda hafði hún miklar mætur á tónlist og listum.

Hún amma Anna hafði einstakt lag á að stappa í mann stálinu og var dugleg að minna mig á að gera það sem gladdi mann og veitti manni hamingju í lífinu, því það væri ekki svo langt eftir allt saman. Með söknuði kveð ég þessa duglegu og kraftmiklu konu, þar til við sjáumst á ný.

Geislarnir út breiða,

ljósi sínu skæra.

Þá frjáls ertu fuglinn

og flýgur þú hærra.

Yfir vötn og yfir fjöll,

yfir jökulinn fagra.

Þú flýgur þangað fugl,

þangað sem þig langar að fara.

(Anja Björg)

Anja Björg Kristinsdóttir.

Anna Chr. Hansen, móðursystir mín, er látin, 87 að aldri. Hún Anna frænka mín var ákaflega góð kona, hún var alltaf svo jákvæð, alltaf glöð og vildi öllum vel. Hún átti það til að ýkja svolítið, það var hins vegar alltaf gert með það í huga að auka veg viðkomandi, aldrei öðruvísi. Ég kynntist frænku minni vel því ég dvaldi oft á heimili þeirra hjóna, Ólafur sonur hennar og ég erum á svipuðum aldri – við lékum okkur mikið saman á yngri árum. Það var gott að vera hjá þeim, nú þegar ég lít til baka minnist ég þess hversu gott það var að fá að vera hjá þeim.

Anna frænka var einstaklega dugleg kona og atorkusöm, oft var gestkvæmt hjá þeim hjónum en fyrir Önnu frænku var lítið mál að halda veislu og bjóða heim vinum og ættingjum. Það var ekki laust við að borgaralegur bragur væri á heimilinu, allt það fínasta dregið fram og ekkert til sparað. Það var Önnu frænku mikið áfall þegar eiginmaður hennar, Ólafur M. Ólafsson, féll frá árið 1989, mér fannst oft eins og hún væri dálítið í lausu lofti eftir það. En hún bar harm sinn í hljóði eins og hennar kynslóð var vön að gera og hélt áfram að starfa sem tónlistarkennari allt þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Eftir það hrakaði heilsu hennar og síðustu árin dvaldi hún á Droplaugarstöðum þar sem hún lést. Eftir lifir minningin um yndislega og góða frænku, blessuð sé minning hennar.

Svavar Bragi Jónsson.

Í dag kveðjum við Önnu Hansen og þökkum henni fyrir allt það sem hún var í þessu lífi. Anna var að mörgu leyti einstök kona. Hún var menntuð, átti sér starfsframa, vann úti til jafns við eiginmann sinn, sá alltaf það jákvæða í fólki, gerði ekki mannamun og kom vel fram við alla. Hún var okkur yngra fólkinu sannarlega góð fyrirmynd. Anna var gift Ólafi föðurbróður okkar og hlýnar okkur um hjartarætur að minnast þeirrar traustu vináttu og einstaks kærleika sem alla tíð einkenndi samskipti og samneyti Önnu og Óla við foreldra okkar. Aldrei bar skugga á þá frændsemi. Þar átti Anna mikilvægt innlegg með sinni léttu lund, fallega fasi, altumlykjandi væntumþykju og jákvæðni. Anna hafði einstakt lag á að sjá það fallega og jákvæða í lífinu og kosti hvers einstaklings og því leið fólki vel í návist hennar. Hún var þar langt á undan sinni samtíð með það sem í dag kallast lausnamiðuð nálgun, það voru ekki til vandamál hjá Önnu, aðeins viðfangsefni sem ráðist var í að leysa. Anna var einstaklega barngóð og indæl manneskja og hafði einlægan áhuga á því sem við yngra fólkið tókum okkur fyrir hendur og hlustaði alltaf af athygli á það sem við höfðum fram að færa. Þannig tókst henni að efla með okkur sjálfstraust og sterka sjálfsmynd sem er ekki svo lítilvægt að taka með sér út í lífið.

Anna var fagurkeri og listakona og átti hún langa og farsæla starfsævi á sviði tónlistarkennslu, auk þess sem hún var liðtækur listmálari. Hún bjó fjölskyldu sinni fagurt heimili þar sem við systkinin vorum ætíð velkomin hvort sem var í gleði eða raunum. Heimili þeirra Óla var sannkallað menningarheimili þar sem bókmenntir og listir voru í hávegum hafðar. Við minnumst með hlýhug allra höfðinglegu boðanna sem haldin voru á heimili Önnu og Óla þar sem Anna sá um að tónlist og söngur dunaði fram á nótt. Þar var alltaf glatt á hjalla, hlegið og sprellað og allt með fáguðu sniði og menningarlegu ívafi. Í árlegum jólaboðum var farið í leiki þar sem skipt var í lið og keppst um að geta upp á titlum jólabóka ársins út frá leikrænni tjáningu einni saman. Allir tóku þátt, sama á hvaða aldri þeir voru.

Anna missti eiginmann sinn sumarið 1989, þegar hann varð bráðkvaddur á ferðalagi þeirra hjóna í Þýskalandi. Var það Önnu mikill missir, enda voru þau hjón afar samrýnd. Hin síðari ár leiddu veikindi Önnu til þess, að samskipti við þessa ástríku og glaðværu konu urðu örðug og stopul. Anna er síðasti einstaklingurinn úr níu manna systkinahópi föður okkar og maka þeirra sem fellur frá, og hefur sú kynslóð því nú öll safnast til feðra sinna.

Við kveðjum Önnu Hansen með söknuði og þakklæti, um leið og við vottum börnum hennar, tengdabörnum og barnabörnum innilegustu hluttekningu okkar. Guð blessi minningu Önnu Hansen.

Páll, Ólafur og

Helga Bragabörn.