Flug Icelandair stefnir að því að fljúga með 2,9 milljónir farþega í ár.
Flug Icelandair stefnir að því að fljúga með 2,9 milljónir farþega í ár. — Morgunblaðið/Eggert
Farþegum fjölgaði hjá bæði Iceandair og WOW air á síðasta ári og stefna bæði félög á að flytja enn fleiri farþega á árinu 2015.

Farþegum fjölgaði hjá bæði Iceandair og WOW air á síðasta ári og stefna bæði félög á að flytja enn fleiri farþega á árinu 2015. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir að tæp hálf milljón farþega hafi flogið með félaginu á síðasta ári og stefnt sé enn hærra í ár. „Farþegafjöldi WOW air hefur vaxið jafnt og þétt frá fyrsta flugi félagsins í maí 2012. Fyrsta árið flugu um 110 þúsund farþegar með flugfélaginu og árið 2013 flaug WOW air með um 415 þúsund farþega. Við gerum ráð fyrir 60% fjölgun á farþegum milli ára frá 497.595 farþegum árið 2014 í um 800.000 farþega núna í ár, 2015.“

Icelandair nálgast 3 milljónir

Áætlanir Icelandair virðast ætla að standast en félagið stefndi á að flytja 2,6 milljónir farþega á árinu 2014. Fyrstu ellefu mánuði ársins höfðu 2.446.302 farþegar flogið með félaginu, en það er 16% aukning frá árinu á undan. Ekki er búið að birta tölur yfir fjölda farþega í desember en engar verulegar tafir eða afbókanir voru hjá félaginu og því má fastlega gera ráð fyrir að farþegafjöldi á öllu síðasta ári verði um 2,6 milljónir. Þá stefnir félagið á að fljúga með 2,9 milljónir farþega á þessu ári.

Frá árinu 2009 hefur farþegum Icelandair fjölgað jafnt og þétt en þá flaug félagið með rúmar 1,3 milljónir farþega. Á árinu 2013 flugu 2,3 milljónir með félaginu.

vilhjalmur@mbl.is