Kamp Knox Bók Arnaldar seldist í rúmlega 20 þúsund eintökum.
Kamp Knox Bók Arnaldar seldist í rúmlega 20 þúsund eintökum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is „Þau eru að skrifa mjög ólíkar sögur og þau ná að höfða til mjög ólíkra hópa.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Þau eru að skrifa mjög ólíkar sögur og þau ná að höfða til mjög ólíkra hópa. Arnaldur skrifar meira í ætt norrænnar raunsæishefðar en Yrsa skrifar í anda bandarískrar harðsoðinnar hefðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, krimmasérfræðingur, um bækur þeirra Yrsu Sigurðardóttur og Arnaldar Indriðasonar en bækur þeirra seldust mest fyrir jólin enn eitt árið.

Líkt og oft áður seldist bók Arnaldar, Kamp Knox, mest fyrir jólin eða í rúmlega 20 þúsund eintökum en DNA, bók Yrsu, í um 18 þúsund eintökum. Hafa þau verið í sérflokki þegar kemur að bóksölu íslenskra skáldverka undanfarin ár.

Mýrin og Ég man þig

Sala á bókum hennar hafði gengið vel þar til hún sló endanlega í gegn með sjöttu bók sinni, Ég man þig, árið 2010 og seldist hún þá í 16 þúsund eintökum fyrir jólin. Arnaldur sló í gegn með fimmtu bók sinni, Mýrinni, árið 2000 og hefur verið á toppi metsölulista yfir íslensk skáldverk síðan ef undan er skilið árið 2011 þegar bók Yrsu, Brakið, seldist mest eða í um 22 þúsund eintökum.

Samkvæmt upplýsingum frá Forlaginu, sem gefur út bækur Arnaldar, hafa bækur hans selst í vel á þriðja tug þúsunda eintaka fyrir jólin undanfarin fimm ár. Þá hafa bækur Yrsu selst í 16-22 þúsund eintökum síðustu fimm ár samkvæmt upplýsingum útgefandans, Bjarts og Veraldar. Þar af hafa bækur hennar einu sinni farið yfir 20 þúsund seld eintök í jólatörninni þegar Brakið var gefin út. Hér ber að taka fram að sala á kiljubókum er ekki tekin með í ofangreindum sölutölum.

Til samanburðar hafa þriðju mest seldu íslensku skáldverk undanfarin fimm ár selst í 8-10 þúsund eintökum. Það eru Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson árið 2010, Málverkið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson árið 2011, Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur árið 2012, Fiskarnir hafa enga fætur eftir Jón Kalman Stefánsson árið 2013 og Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson árið 2014.

Tvenns konar metsölulistar mæla bóksölu fyrir jólin. Annars vegar metsölulisti Félags íslenskra bóksala og hins vegar metsölulisti Eymundsson. Á bakvið fyrrnefnda listann standa sjö verslanir. Á honum eru engar af stóru bókabúðunum. Aðallega eru á bakvið hann sölutölur úr matvöruverslunum en taka ber fram að langmestur hluti bóksölunnar fer fram í þeim fyrir jólin. Þær verslanir sem taka þátt eru: A4, Bónus, Bókabúð Forlagsins, Bóksala stúdenta, verslanir Haga, verslanir Kaupáss og verslanir Samkaupa.

Öræfi vinsælust í Eymundsson

Fram kemur á nýjasta listanum sem birtist á vefsíðu félagsins og tekur til 15.-21. desember að Kamp Knox Arnaldar trónir þar á toppnum, DNA Yrsu er í öðru sæti en Öræfi Ófeigs er í þriðja sæti.

Öðru gegnir um metsölulista Eymundsson. Samkvæmt upplýsingum frá versluninni seldist Öræfi mest í flokki íslenskra skáldverka í desember, næst þar á eftir seldist DNA en Kamp Knox var þriðja.

Kóngurinn og drottningin

• Úthaldsgóðir höfundar • Stíllinn hans aðalsmerki en flétturnar hennar Spurður um ástæður þess að Arnaldur og Yrsa njóta slíkra vinsælda hér á landi segir Páll Valsson, rithöfundur og bókmenntafræðingur, að Arnaldur njóti góðs af skýrum fléttum og stíl en hún komi lesendum sínum á óvart. „Hann er raunsær [...] ekkert er of mikið sagt heldur eru tilfinningarnar látnar krauma undir. Í sögulegu ljósi þá hafa Íslendingar alltaf kunnað að meta slíkar bókmenntir. Sumir sögðu að nýjasta bók hans væri ekki nógu spennandi en mér finnst það skrítin umræða í ljósi þess að hann skrifar ekki þrillera, heldur er þetta glæpafrásagnir sem eru umvafðar drunga og stemmingu,“ segir Páll.

Hann segir Yrsu leggja meira upp úr óhugnaði. „Hún er snjöll í að búa til plott en leggur að mínu viti minna upp úr stíl. Við getum skýrt vinsældir hennar að einhverju leyti með því að hún er eina konan sem spreytt sig við þetta af alvöru. Það gefur henni kvenlega sérstöðu en svo má ekki gleyma því að hún er lagin við að koma lesendum sínum á óvart,“ segir Páll. Hann segir það ljóst að Arnaldur sé kóngur en Yrsa sé drottning íslenskra glæpasagna. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG hefur jafnframt kennt á glæpasagnanámskeiði við Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún segir Arnald búa að því að vera frumkvöðull sem hafi byggt upp dyggan lesendahóp.

„Hún nýtur þess að hafa konu sem aðalsöguhetju þegar hún kemur fyrst fram og við vitum að lesendur þessara sagna eru að mestu leyti konur,“ segir Katrín. Hún segir það umhugsunarvert hve Arnaldur hafi verið lengi á toppnum í ljósi þess að erlendis njóti höfundar gjarnan ekki slíkra vinsælda í svo langan tíma. „Þau virðast bæði mjög úthaldsgóð,“ segir Katrín.