Gunnlaugur Fr. Jóhannsson fæddist á Akureyri 22. nóv. 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð Akureyri 27. des. 2014.

Foreldrar voru Jóhann Þorsteinn Friðfinnsson, skipstjóri á Akureyri, og k.h. Haflína Helgadóttir húsfreyja frá Gili í Fljótum. Systkini voru Anna Jóhannsdóttir, f. 1919, d. 2008, húsmóðir í Kópavogi, og Bjarni Jóhannsson, f. 1921, d. 1983, vélstjóri á Akureyri. Gunnlaugur kvæntist 20.3. 1951 Huldu Vilhjálmsdóttur frá Hjalteyri, f. 1932, d. 1993. Hún var dóttir Vilhjálms Árnasonar, skipstjóra á Hjalteyri, og k.h., Svanhildar Sigmundsdóttur húsfreyju. Börn Gunnlaugs og Huldu eru Helena G. Gunnlaugsdóttir, meinatæknir í Svíþjóð, gift Guðmundi Gunnarssyni lækni; Gunnhildur H. Gunnlaugsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Akureyri, gift Þorláki Axel Jónssyni háskólakennara; Þorsteinn E. Gunnlaugsson, matreiðslumaður í Reykjavík, kvæntur Guðlaugu H. Ingvarsdóttur sjúkraliða; auk þess á Gunnlaugur soninn Sigurð Gunnlaugsson tölvunarfræðing á Sauðárkróki, sambýliskona hans er Jenný Inga Eiðsdóttir ljósmóðir.

Gunnlaugur fæddist á Akureyri, ólst þar upp á Eyrinni og átti alla tíð heima á Akureyri. Hann stundaði nám við Iðnskólann á Akureyri, lærði rafvélavirkjun, lauk sveinsprófi í þeirri grein 1953 og tók meistarabréf 1957. Gunnlaugur réðst til starfa á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1961 sem yfirmaður tæknideildar og vann sem slíkur í þrjátíu og átta ár.

Útförin fer fram frá Glerárkirkju í dag, 6. janúar 2015, kl. 13.30.

Við Gunnlaugur áttum samfylgd í yfir þrjá áratugi hér á Akureyri. Margs er að minnast nú þegar hann kveður okkur. Gunnlaugur var sögumaður góður og gaf okkur innsýn í hvernig það var að alast upp á Eyrinni í iðnaðarbænum Akureyri á öðrum fjórðungi 20. aldar. Hann naut frjálsræðis á nú horfnu leiksvæði barna og unglinga sem náði frá sleðabrekkum ofan íþróttavallarins um garða fólks, búðir, bruggverksmiðju, verkstæði og niður í kolatogara við höfnina. Fjögurra ára gamall varð hann fyrir slysi er setti mark sitt á líf hans allt, en stýrði því þó ekki, er hann féll af skúrþaki og braut illa handlegg. Ekki tókst læknum Akureyrar vel til með að setja handlegginn rétt saman og þrátt fyrir margra mánaða dvöl hjá nunnunum á Landakoti í þeim tilgangi að bæta úr þeirri vanrækslusynd voru mistökin notuð af læknum sjálfum sem skólabókardæmi. Á fermingaraldri missti hann föður sinn, Jóhann Friðfinnsson skipstjóra sem hann lýsti sem traustum manni. Gunnlaugur ólst upp einn með móður sinni Haflínu er eldri systkinin voru farin að heiman. Þau mæðginin fluttu oft milli húsa á Eyrinni og var gaman að aka um með Gulla og heyra lýsingar á því hvernig öllu var fyrir komið þar áður fyrr. Sem barn og unglingur drýgði hann heimilistekjurnar með ólíkum störfum, var sendill, vann í pylsugerð KEA og var vikapiltur í söluturni á Ráðhústorgi við að steikja fisk og franskar handa breskum hermönnum. Gunnlaugur nam rafvirkjun og tók sveinspróf í rafvélavirkjun. Sveinsstykkið var að vefja rafal í nýsköpunartogarann Jörund EA. Hann réði sig til starfa hjá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, starfaði þar í 38 ár og var yfirmaður tæknideildar. Hann stýrði innkaupum á sjúkrahústækjum á tímum stórstígra tækniframfara og ferðaðist víða um heim af því tilefni. Gunnlaugur nam röntgentækjafræði hjá Philips í Hollandi árið 1959 og sá um slík tæki á sjúkrahúsum á Norður- og Austurlandi. Gunnlaugur vann því með læknum í áratugi. Einn þeirra var Ólafur heitinn Sigurðsson á Akureyri en Gunnlaugur gerði við heimilistækin hjá þeim hjónum. Eitt sinn spurði Ólafur Gunnlaug, sem var að glíma við þvottavél heimilisins, hvort hann væri þolinmóður maður. Gunnlaugur bað Ólaf frekar svara því. Ólafur sagði að Gunnlaugur væri stundum þolinmóður og stundum ekki. Gunnlaugur var formaður stjórnar Rafveitu Akureyrar um árabil og var forystumaður í barátunni gegn hjarta- og æðasjúkdómum sem formaður Hjartaverndar Norðurlands. Hann var virkur í stjórnmálastarfi og hneigðist æ meira að félagslegu réttlæti eftir því sem árin liðu. Gunnlaugur var athafnasamur alla tíð, byggði þeim hjónum hús og heimili. Hann reyndist mér og mínu fólki vel. Gunnlaugur var skemmtilegur í umgengni og tók eftir ánægjulegum hliðum þess sem fram fór. Við lögðum rafmagn, fórum í veiði, snæddum málsverði sem ekki vöktu áhuga annarra fjölskyldumeðlima og ræddum menn og málefni líðandi stundar. Það voru góðar stundir. Það ber að þakka að hafa kynnst svo ágætum manni sem Gunnlaugi Fr. Jóhannssyni.

Þorlákur Axel Jónsson.

Nú er elsku afi minn fallinn frá og það er ekki raunverulegt. Það er ekki raunverulegt að geta ekki hringt í afa þegar mér dettur í hug, geta ekki hringt í hann þegar ég þarf ráð eða einfaldlega þegar ég þarf að heyra í honum. Afi var sanngjarn, þrjóskur, skemmtilegur, heiðarlegur og fastur á sínu. Mér hefur verið sagt að ég sé með skapið frá afa og það held ég að sé hrós, þó hann sjálfur myndi sennilega segja mér að svo væri ekki. Ég var svo heppin að búa í sama bæjarfélagi og afi minn síðan ég man eftir mér. Þegar ég var yngri kom hann alltaf á laugardögum með nammi handa mér og systur minni og var sambandið við hann mjög gott, hann var virkilega góður afi. Þegar ég varð svo eldri urðum við eiginlega meiri vinir heldur en afi og dótturdóttir og við brösuðum margt saman, fórum oft í bíltúr sem endaði auðvitað með því að hann fyllti bílinn minn fyrir mig. Síðan hann flutti á elliheimilið fór ég oft til hans og sat hjá honum lengi þar sem við spjölluðum um málefni líðandi stundar. Það var alltaf hægt að treysta á að afi myndi gefa mér hreinskilið svar þegar kom að ákvörðunum í mínu lífi og jafnframt að styðja mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Afa er virkilega sárt saknað og stórt skarð skilið eftir í okkar fjölskyldu sem verður ekki fyllt, en ég efast samt ekki um að hann sé akkúrat þar sem hann vill vera og loksins að hitta ömmu aftur eftir 21 árs aðskilnað. Afi, ég hlakka til að hitta þig aftur, hvenær sem það verður og þangað til mun ég rifja upp allar góðu minningarnar sem ég á um þig, af nógu er að taka.

Berglind Jóna.

Þegar ég stóð við rúmgaflinn í herberginu sem afi Gulli hafði búið í síðustu tvö ár varð mér ljóst að minningar um hann myndu fylgja mér alla tíð. Ég hélt að afi minn væri ódauðlegur. Þessi fasti punktur í tilveru minni frá því ég man eftir mér. Allt þetta góða öryggi, þessi góði andi sem var alltaf í bakgrunninum og gaf mér skjól. Sá partur fjölskyldu okkar sem bjó á Akureyri var lítill og hann var miðpunktur hennar.

Hann var mikill herramaður, hann afi, hafði mikinn áhuga á menningu, bókmenntum og öðrum listum hugans. Sérstaklega hin síðari ár þegar líkaminn fór að hrörna en hugurinn var eins skarpur og áður. Eftirminnilegir er allir munirnir sem hann skar út með listrænni en praktískri alúð, þeir voru margir svo fallegir að ég horfði á þá og óskaði að ég gæti búið til eitthvað fallegt einn daginn líka. Ég man eftir að hafa komið til hans og hlustað á sögurnar hans. Ég dáðist að því hvað hann hafði farið víða og upplifað margt.

Þó að afi hafi kvatt þennan heim munu minningarnar um hann fylgja mér. Nammipokarnir á laugardögum þegar ég var lítil, bókalánin seinna, vilji hans til að hjálpa mér þegar ég sneri öllu á haus, sem kom ansi oft fyrir. Ég varð oft reið út í heiminn og annað fólk, ég eltist við það sem endaði á því að skipta engu máli. Það er merki um karakterinn hans að ég hafði aldrei slæmar taugar til afa.

Úr minningum bernsku minnar man ég eftir annarri góðri sál: Afi ég veit að þú ert að njóta stundanna með ömmu Huldu í einhverri fornri borg, amk. Er það þetta sem myndaalbúmin og sögurnar þínar segja mér. Þín dótturdóttir,

Svanhildur.

Nú er komið að kveðjustund. Góður vinur og Reglubróðir, Gunnlaugur Fr. Jóhannsson, er horfinn yfir móðuna miklu og enginn efi er að hann hefur fengið góða heimkomu þar.

Til margra ára var hann virkur í starfi sjálfstæðismanna á Akureyri, gekk ungur í reglu Frímúrara þar sem hann starfaði mikið. Hann var menntaður rafvikjameistari, einn fyrstur manna hér á landi til að fara utan og læra uppsetningu og viðgerðir röntgentækja. Árið 1961 hóf hann störf á F.S.A. sem rafvirkjameistari og síðar sem yfirmaður tæknideildar á Sjúkrahúsinu, en þar starfaði hann þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Gunnlaugur missti eiginkonu sína, Huldu, fyrir 21 ári síðan eftir erfiða baráttu við krabbamein, en þá sýndi hann einstakan dugnað við umönnun hennar.

Allt til loka fylgdist hann af áhuga með þjóðmálum og hafði gaman af að ræða þau mál sem voru efst á baugi. Hans helsta tómstundagaman var útskurður og er til mikið af afar fallegum verkum eftir hann, hann las mikið, var fróður um marga hluti, og á ferðum síðan erlendis safnaði hann biblíum á ýmsum tungumálum.

Nú minnumst við góðra, glaðra stunda með góðum vini og eigum eftir að sakna samverunnar. Við sendum börnum hans og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Vilhelm (Villi), Birgir, Skúli Ágústssynir og fjölskyldur.

„Mínir vinir fara fjöld.“ erindi eftir Bólu Hjálmar sem hefst á þessari ljóðlínu kom mér í hug þegar Gunnlaugur Jóhannsson lést hinn 27. desember sl., það er hlutskipti okkar sem komin erum á efri ár að horfa á eftir fleiri og fleiri samferðamönnum yfir móðuna miklu. Góður maður og eftirminnilegur persónuleiki er genginn. Við kynntumst þeim hjónum Huldu og Gunnlaugi fyrir meira en þrjátíu árum þegar börnin okkar, þau Gunnhildur og Þorlákur, rugluðu saman reytum. Oft nutum við gestrisni á fallegu heimili þeirra í Þverholti 1 þar sem hver hlutur átti sinn stað og þannig var það jafnan í kringum Gunnlaug. Saman ræktum við fjögur afa og ömmuhlutverkið meðan Huldu naut við en hún lést langt um aldur fram aðeins sextug. Gunnlaugur bar hag litlu dótturdætranna mjög fyrir brjósti. Við nutum þeirrar ánægju í sameiningu að sjá þær vaxa úr grasi, glöddumst yfir sigrum þeirra og deildum áhyggjum ef einhverjar voru. Glaður og reifur kom hann í morgunkaffið til dóttur sinnar og tengdasonar í Skarðshlíðinni og hafði meðferðis „laugardagsnammið“ handa litlu systrunum. Gunnlaugur var maður kvikur í hreyfingum og vildi láta hlutina ganga, gerði strax við það sem aflaga fór, geymdi ekki til morguns það sem hægt var að gera í dag. Hann var greiðvikinn og hjálpsamur, nutum við þess t.d. ef laga þurfti rafmagn eða leggja nýtt. Gunnlaugur var góður teiknari, í frístundum skar hann út í tré af miklu listfengi og vann talsvert að því þegar hann komst á eftirlaun. Gunnlaugur hafði víða farið og sagði skemmtilega frá, einnig frá uppvaxtarárunum á gömlu Akureyri en fyrst og fremst var hann maður nútímans sem horfði ódeigur fram á veginn, fylgdist vel með og tileinkaði sér nýjustu tækni í leik og starfi.

Seinustu árin hallaði undan fæti en Gunnlaugur gerði það besta úr því og naut umhyggju Gunnhildar dóttur sinnar og fjölskyldunnar allrar. Minnisstæð er heimsókn til hans fyrir tveimur árum í Lindasíðuna. Hann tók fagnandi á móti okkur sem fyrr þegar við komum inn úr slyddunni og febrúarmyrkrinu, hafði tilbúið kaffi og meðlæti þrátt fyrir að vera að mestu bundinn við hjólastól. Þar áttum við góðar og gefandi samræður, honum var gleðin og gamansemin eðlislæg, maður fór ávallt ríkari af hans fundi. Andlátið bar að um jólin, við minnumst jóla en þó fleiri áramóta með Gunnlaugi á heimili Þorláks og Gunnhildar. Við þökkum Gunnlaugi allar samverustundir og áratuga vináttu, minnumst hans með virðingu og biðjum honum blessunar á nýrri vegferð. Gott var að börnin hans öll gátu verið hjá honum seinustu dagana. Þeim og fjölskyldum þeirra vottum við samúð.

Björk Axelsdóttir

og Jón Pálsson.