Slit Arion banki er einn eigenda eignarhaldsfélagsins Andvöku.
Slit Arion banki er einn eigenda eignarhaldsfélagsins Andvöku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is Eignarhaldsfélaginu Andvöku hefur verið slitið og allt eigið fé þess, tæpar sex hundruð milljónir, greitt eigendum félagsins.

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Eignarhaldsfélaginu Andvöku hefur verið slitið og allt eigið fé þess, tæpar sex hundruð milljónir, greitt eigendum félagsins. Skilanefnd Eignarhaldsfélagsins Andvöku var skipuð í framhaldi af því að samþykkt var að slíta félaginu. Alls eru tæplega 460 milljónir króna til skipta eftir að ríkið fékk greiddan fjármagnstekjuskatt upp á tæplega 115 milljónir.

Þar af fá fyrrverandi tryggingatakar ríflega 40% eða um 187 milljónir króna. Eigendur Andvöku eru Arion banki, tryggingatakar 1989 og 1990 og Andvökusjóðurinn.

Hæsta greiðsla 3,4 milljónir

Umræddir tryggingatakar hjá Líftryggingafélaginu Andvöku eru 8.295 talsins og eiga rétt til um 40,73% þess sem til úthlutunar er. Um er að ræða 8242 einstaklinga og dánarbú og 53 lögaðila. Þeir fá næstu daga greidda eignarhluti sína í Eignarhaldsfélaginu Andvöku í hlutfalli við iðgjaldagreiðslur sínar á árunum 1989 og 1990, alls um 187 milljónir króna. Fyrstu ávísanirnar voru póstlagðar í gær, 5. janúar 2015. Lægsta greiðsla er fáeinar krónur en sú hæsta hátt í 3,4 milljónir króna. Langflestir fá greitt á bilinu fimm þúsund til fimmtíu þúsund krónur.

Á fulltrúaráðsfundi í Eignarhaldsfélaginu Andvöku sem haldinn var hinn 10. mars 2011 var samþykkt einróma að félaginu yrði slitið. Andvaka var líftryggingafélag Samvinnutrygginga sem varð að Lífís með sameiningu við Brunabótafélag Íslands árið 1990 og varð hluti af tryggingafélaginu VÍS.