Elínbjörg Hulda Eggertsdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist á Ásvallagötu 18 í Reykjavík 9. mars 1930. Hún lést á Landakoti 28. desember 2014.

Hún var dóttir hjónanna Ragnhildar Ólafar Gottskálksdóttur læknamiðils, f. 11. mars 1903, d. 27. desember 1979, og Eggerts Ólafssonar lýsismatsmanns, f. 5. febrúar 1896, d. 26. júní 1968. Systkini Elínbjargar voru og eru Sesselja Svana, f. 24.10. 1922, d. 18.9. 2012, Ólafur, f. 6.5. 1925, d. 23.11. 2005, Kjartan Þórir, f. 9.4. 1932, d. 10.2. 1990, Gottskálk Þorsteinn, f. 8.5. 1934, og Ragnhildur Sigríður, f. 9.3. 1939.

Elínbjörg giftist árið 1954 Jens Christian Sörensen, fyrrverandi forstöðumanni Veðdeildar Landsbanka Íslands, f. 21.11. 1932. Þau slitu samvistir árið 1972. Synir þeirra eru: 1) Heimir Örn, rekstrarstjóri í Reykjavík, f. 15.6. 1955. Hans synir með Margréti Hafsteinsdóttur eru Ívar Örn, f. 8.10. 1985, og Elías Rafn, f. 8.11. 1989. 2) Gottskálk Þór, háskólakennari í Kaupmannahöfn, f. 4. apríl 1958. Hans dætur með Annette Lassen eru Ragnhildur, f. 8.12. 2001, og Ellen, f. 16.10. 2003. 3) Árni Már verslunarmaður, f. 23.4. 1959. Hans börn með Halldóru Halldórsdóttur eru Jens Arnar, f. 2.9. 1979, og Heiða Björg, f. 3.6. 1982. Hans dóttir með Iðunni Andrésdóttur er Angela, f. 8.7. 1988. Heiða Björg á dótturina Elmu Rún, f. 30.12. 2009, með Arnari Þorleifssyni, og Angela á soninn Árna Matias, f. 31.5. 2009, með Axel Clausen Matias.

Þegar Elínbjörg var þriggja ára fluttu foreldrar hennar í Tjarnargötu 30 þar sem hún ólst upp. Hún varð gagnfræðingur frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1946, lærði píanóleik hjá Róbert Abraham Ottóssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík á árunum 1948-1949, stundaði enskunám við Alpena Highschool í Michigan árið 1950 og lauk námi við Hjúkrunarkvennaskóla Íslands árið 1954.

Á löngum starfsferli sínum sem hjúkrunarfræðingur vann Elínbjörg víða á sjúkrahúsum höfuðborgarsvæðisins, síðast á meðferðarhæli og móttökudeild fyrir áfengissjúklinga. Hún bjó lengst af í miðbæ Reykjavíkur og síðustu sextán árin á Skólavörðustíg 18.

Útför Elínbjargar verður gerð frá Fossvogskapellu í dag, 14. janúar 2014, og hefst kl. 13.

Dostojevskí sagði eitt sinn: „Ég óttast aðeins eitt: Að vera ekki þjáninga minna verður.“

Gegnum jarðvistarkafla lífsgöngunnar gafst Elínbjörgu tækifæri til að gæða líf sitt æðri tilgangi og mannlegri reisn með því að mæta örlögum sínum með hugdirfð og fórnfýsi í þágu sjúkra og þurfandi. Hún bar lífskross sinn með reisn og var þjáninganna verðug.

Kærleikur og mannhelgi er það sem lifir hvað skýrast í minningunni um móður mína, Elínbjörgu Huldu Eggertsdóttur. Hún var hjúkrunarfræðingur og helgaði líf sitt sjúkum og þurfandi. Starf hennar var eins og dyr til annars heims þar sem hún gat látið allar varnir lönd og leið og gefið sjúkum af nægtabrunni kærleikans. Sjálfsmynd hennar byggðist þannig á æðri andlegum verðmætum lífsins sem mótbyr jarðvistarinnar fékk ekki skyggt á til síðasta dags. Þessi verðmæti eru best greind í viðmælum við sjúklinga hennar og samferðamenn sem hún læknaði, studdi og hjálpaði; ótalinn fjölda fólks sem elskaði kærleiksríkt viðmót hennar og innsæi til lausnar mannlegra þjáninga. Hún var gjafmild kona, listunnandi bóhem og lék á píanó af fingrum fram.

Þegar ég sem ungur maður byrjaði að rata í raunir mínar kenndi hún mér að leita svara í náttúrunni. Hún miðlaði þannig af ríkulegum nægtabrunni sköpunarverks Guðs til ungs sonar sem gekk erfiðlega að finna köllun sína.

Skilningur minn á orðum hennar dýpkaði er árin færðust yfir og líður vart sá dagur að ekki ljósti í huga minn ráðum hennar og visku.

Vinkona hennar til margra ára, rithöfundurinn Elísabet Jökulsdóttir, lýsir henni sem töfradrottningu, titill sem á vel við minningu móður minnar því sannarlega tókst henni að töfra fram ráð og lausnir sem fáum öðrum hugkvæmdist.

Elínbjörg var glæsileg og fluggreind kona og mátti vart mæla án þess að snerta við léttleika mannlegra tilfinninga. Kímni og frásagnargáfa hennar var einstök og verður hennar sárt saknað af öllum þeim sem þekktu hana. Svo margar víddir veruleikans gat hún snert í einni setningu að áheyrandi þurfti stundum að staldra við til að greina og skilja mál hennar. Ljóð, tónlist, stjórnmál, fjármál, náttúra og andans víddir gátu allar komið í einni bendu sem svar við einfaldri spurningu.

Ella, eins og hún var kölluð, var tilkomumikil kona sem snart samferðamenn lausnum og líkn án þess nokkurn tíma að skara eld að sinni köku. Hún var dóttir heiðurshjónanna Ragnhildar Ólafar Gottskálksdóttur og Eggerts Ólafssonar í Tjarnagötu 30, Rvk.

Ó móðir mín svo góð þú varst,

þó gríma skugga brá;

sem eigi er og aldrei var,

hluti af þinni sál.

Kærleikur í minningu,

allt annað yfir ber,

vertu stolt, móðir góð;

ég óx við hjartans þel.

Bergmál alda barlóm ýkir,

leggðu ei við hlust,

fjöllin blá í fjarlægð líkir,

álfkonu við þurs.

Þraut og þunga þraukaðir,

vart á sér viðlíka,

svo vaxa mættu blómin blíð,

og litróf lífs, líta.

Sárfætt lífsins göngu nú,

langa jarðarvist,

lokið hefur með sóma sú;

móðir, kona, mist.

Ljós nú sér við sjónarrönd,

faðmur Guðs við ber,

kvíddu ei því dyggðarlönd,

kærleiks, ræktaðir hér.

(ÁJÁ)

Takk fyrir lífgjöf þína, stórbrotið móðurhlutverk, og lærdómsríkt ferðalag. Guð veri með þér, elsku mamma mín. Þinn sonur,

Árni Már Jensson.

Elínbjörg Hulda Eggertsdóttir lést í Reykjavík 28. desember síðastliðinn á 85. aldursári.

Ella, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist í Reykjavík 9. mars 1930 og átti sín bernsku- og unglingsár í hjarta Reykjavíkur. Þar átti hún líka sitt heimili síðustu 16 ár ævinnar og undi því vel. Í millitíðinni dreif ýmislegt á dagana eins og gengur; hún menntaði sig sem hjúkrunarfræðingur, gekk í hjónaband og eignaðist þrjá myndarlega syni. Hún starfaði lengst af á geðsviðinu og í áfengismeðferðinni. Hún spilaði á píanó og tónlistin var henni mikils virði; djassinn og klassíkin. Andleg gæði skiptu hana meira máli en þau efnislegu.

Ella var móðursystir mín og skipaði þess vegna mikilvægan sess hjá mér. Hún fékk móður mína í afmælisgjöf þegar hún var níu ára gömul og vegna þess að mamma átti sín börn ung voru þær mikið saman systurnar með barnahópinn sinn og minningar frá þessum tíma eru stór hluti af lífi okkar allra. Þess vegna lifir Ella áfram. Hún lifir áfram í öllum minningunum sem hún bjó til fyrir okkur og öllum sögunum sem hún sagði okkur. Hún var hugrökk og fetaði ekki alltaf í fótspor fjöldans heldur synti á móti straumnum ef því var að skipta og hafði áhrif á þá sem í kringum hana voru. Ekki alltaf auðvelt að elska hana en við elskuðum hana samt og virtum. Hún var sterk og sjálfstæð, femínisti, bóhem og húmoristi og bar það með sér allt til dauðadags, því þótt líkaminn væri þrotinn kröftum var andinn óbugaður.

Þegar manneskja deyr eftir langa ævi deyr með henni óendanlegur viskubrunnur um lífið og tilveruna, fortíðina og upprunann og manni finnst mikilvægir og dýrmætir þræðir slitna en sumt af þessu lifir áfram með eftirlifendum sem ber að miðla því til komandi kynslóða svo eitthvað af viskunni og þráðunum varðveitist. Það er öllum hollt að þekkja uppruna sinn og án minninga er maðurinn ekkert. Ella gaf mér minningar og tilfinningu fyrir rótunum.

Þótt Ella væri skorinorð og svöl í tali og skoðunum og manni fyndist stundum eins og hún sæi haukfránum augum í gegnum holt og hæðir gat hún líka verið mjög blíð og þegar hún kvaddi mig með orðunum „bless, engillinn minn“ varð ég alltaf litla systurdóttir hennar aftur, hvort sem við höfðum hist á förnum vegi eða verið að slíta samtölum um stjórnmál eða heimspekilegar vangaveltur. Nú þegar ég kveð hana hinstu kveðju nota ég fallegu kveðjuna hennar á móti.

Við Georg vottum fjölskyldu Ellu okkar dýpstu samúð. Minningin um fallega konu lifir.

Hilda Gerd Birgisdóttir.

Elínbjörg Hulda Eggertsdóttir fæddist í Reykjavík 9. mars 1930, þriðja af sex systkinum, og lést á Landakotsspítala 28. des. 2014.

Er við settumst á skólabekk í Kvennaskólanum í Reykjavík haustið 1948 var Ella ein af hópnum sem og Sigurveig Georgsdóttir. Þær voru vinkonur, báðar úr Vesturbænum, voru alltaf saman og fóru seinna saman í hjúkrunarnám, hjúkrun varð þeirra ævistarf.

Ella talaði oft um fólk og bæi í Kolbeinsstaðahreppi í Hnappadalssýslu, enda móðurfólk hennar ættað þaðan. Móðir hennar, Ragnhildur Gottskálksdóttir, var fædd á Syðstu-Görðum og Ella þekkti vel til fólksins í Haukatungu.

Ella giftist Jens Sörensen bankastarfsmanni og eignuðust þau þrjá syni.

Hún ólst upp í Tjarnargötunni og þaðan var stutt að bregða sér á skauta á tjörninni, þegar færi gafst. Enda var það aðalleikvangur Reykvíkinga um langan tíma.

Ella var mjög dugleg að fara í bíltúr á hverjum degi í mörg ár. Þá voru fæturnir orðnir þreyttir og gott að hafa bílinn til taks, sem þarfasta þjóninn.

Hvert sem hún fór lét hún ekki hjá líða að keyra Tjarnargötuna og oft talaði hún um lífið í Tjarnargötu og hvað húmorinn hefði verið góður og skemmtilegur. Nú eru bara tvö yngstu systkinin eftir af þessum hópi og oft talaði hún um að hún hefði verið að tala við Gotta bróður og það var svo skemmtilegt.

Hún var mjög náin elstu systur sinni, Sesselju Svönu, en hún og hennar maður fluttu til Bandaríkjanna og bjuggu mestmegnis þar. En það var alltaf mikil gleði þegar hún var á ferðinni hér á landi.

Bekkjarsysturnar úr Kvennó '48 hafa verið duglegar að halda hópinn og hittast og gera enn. En það fækkar jafnt og þétt í hópnum. Veikindi og ýmsar ástæður koma í veg fyrir að allar geti mætt sem enn eru eftir. Ella dvaldi nokkur ár í Bandaríkjunum og Systa var prestsfrú og hjúkrunarkona í Holti í Önundarfirði og síðar í Kaupmannahöfn. Þetta varð til þess að þær voru ekki í jafnnánu sambandi við hópinn.

Við bekkjarsystur Ellu vottum fjölskyldu hennar innilega samúð.

Dóra G. Jónsdóttir.

Mundu hver þú ert, sagði Töfradrottningin stundum við mig. Það var þegar ég hafði gleymt sjálfri mér og komið mér í ógöngur. Þá þurfti ég ekki annað en að rifja upp hver ég var og allt small saman. En hvað þurfti ég að muna? Að ég var ákveðin, vissi hvað ég vildi, lét ekki aðra stjórna mér. Þetta er eins og að leita að gleraugunum, getur tekið smátíma. Gleymskan spilar stærra hlutverk en við viljum viðurkenna. Í gamla daga var talað um áfengi sem gleymskumeðal. Það mætti minna á það þegar allt er kallað fíkn eða víma. Við gleymum. Manneskjan gleymir því að hún er góð.

Hún var geðhjúkrunarkona á Vífilsstöðum 1992 þegar ég kom í meðferð. Hún passaði upp á töfrana, passaði að ég kæmi til baka en ég gekk í kringum vatnið á hverjum degi. Það var stæll yfir Töfradrottningunni, hún reykti með stæl og drap í með stæl. Renndi í hlaðið á gljáfægðum Benz, hún og Beethoven, stundum fór hún ein út í Gróttu og hélt tónleika í bílnum. Hún var alltaf fallega klædd, elegant, bóhem, hafði eitthvað við sig sem minnti á milljónamæring þótt hún berðist í bökkum og hafði fyrir því að eignast íbúðina sína í miðbænum. Þá sýndi hún á gamals aldri að hún gat byrjað upp á nýtt, myndað ný vinasambönd og Benzinn fékk einkastæði á Skólavörðustígnum. Og hún fékk sínar bókabúðir, djassbúllur, kaffihús, hún elskaði miðbæinn og Tjarnargatan í blóðinu.

Við fórum í bíó, gerðum bíómynd, tónleika, leikhús, sátum við eldhúsborðið og hún sagði alltaf Gotti minn, Heimir minn, Árni minn. Spurði um strákana mína. Ræddi heimspólitík, skáldskap, ástina, edrúlífið. Já Töfradrottning.

Svo fækkaði heimsóknum en símtölin lengdust. Einn daginn fyrir tveimur árum hringdi hún, talaði við manninn í ljóðabókinni, skildi eftir skilaboð. Ég hringdi til baka og þá byrjaði hún á að fnæsa: Elísabet, hvaða sjálfshatur er þetta!! Ha? spurði ég. Já, sagði hún, ég heyrði langar leiðir að þessi maður er að drepast úr frekju. Ég velti fyrir mér þessu orði, sjálfshatur. Ég skildi að hún var ekki töfradrottning heldur hjúkrunarkona sem unni sjúklingunum sínum. Leyfði þeim stundum að búa hjá sér lengri eða skemmri tíma. Syrgði þá og gladdist með þeim. Vissi að hatrið brýtur okkur niður og veikir. Lækningin felst í kærleikanum, vináttunni, gleðinni. Hún hefði þó frekar notað orðin að lina, líkna eða svala. En lækningin fólst líka í listinni, skáldskapnum.

Hún læknaði með sögum, tónlist. Það var tregi eða sársauki sem þurfti að lækna, þessi sársauki yfir að vera til, sársauki yfir fegurðinni, þessi mótsögn. Brostu gegnum tárin.

Svo horfði hún sínum dáleiðandi augum, smellti fingrum: Mundu hver þú ert. Hélt áfram: Þú hefur í þér mikla ró. Það hafði ekki hvarflað að mér en nú fann ég það, rósemdin breiddist út. Og þar bjó gleðin. Hún hefði þó tekið undir orð skáldsins: Lífið er ólæknandi. Já Töfradrottning, ef það var nógu dramatískt, nógu létt, nógu mikið tunglskin.

Elísabet Jökulsdóttir.