Soffía Zophoníasdóttir fæddist í Reykjavík 27. desember 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 17. desember 2014. Útför Soffíu fór fram 2. janúar 2015.

Í dag kveðjum við Soffíu Zophoníasdóttur sem var fyrri leikskólastjóri í leikskólanum Nóaborg. Hún opnaði leikskólann í lok árs 1986 og var leikskólastjóri til hausts 2001 er hún lét af störfum vegna aldurs. Mín fyrstu kynni af Soffíu voru þegar yngri dóttir mín var í hópi fyrstu barna sem hófu leikskólagöngu í Nóaborg. Þar var hún hálfan daginn sem var einungis í boði fyrir börn giftra á þeim tíma.

Örlögin réðu því svo að þegar ég sjálf hóf leikskólakennaranám haustið 1991 fékk ég sumarstarf í Nóaborg í tvö sumur og voru það góðir og lærdómsríkir tímar fyrir mig þar sem Soffía leiðbeindi mér með mjög margt sem ég bý enn að í dag enda hafði ég einungis kynnst leikskólastarfinu sem foreldri fram að þessum tíma. Ég kom síðan aftur í Nóaborg vorið 1997, varð fljótt aðstoðarleikskólastjóri og þegar Soffía lét af störfum var ég svo heppin að vera valin úr hópi umsækjenda og varð leikskólastjóri frá 1. september 2001 og er enn í því starfi. Soffía passaði vel upp á sitt fólk og leið best þegar hún sá að fólkinu hennar leið vel. Við starfsfólkið héldum t.d. alltaf jólagleði í leikskólanum og það brást ekki að við hvern disk var jólaglaðningur sem okkur þótti vænt um að fá.

Þá var henni var mjög umhugað um börnin, fylgdist vel með því sem var að gerast hverju sinni og sótti í að vera með börnunum.

Hún birtist gjarnan í samverustundum og sagði börnunum söguna af Fóu og Fóu feykirófu af mikilli snilld og mátti heyra saumnál detta á meðan hún sagði söguna svo vel fór henni þetta úr hendi. Fyrstu tvo veturna sem ég vann í Nóaborg var ég deildarstjóri á yngstu deildinni en þegar ég flutti mig yfir á elstu deildina bar ég það undir Soffíu að fá hennar samþykki fyrir því að sækja um styrk til að vinna þróunarverkefni í stærðfræði og móðurmáli og var það auðsótt mál og fékk ég dyggan stuðning frá henni í verkefninu. Þetta þróunarverkefni fól m.a. í sér að ég útbjó mikið af spilum og öðrum viðfangsefnum sem tengdust stærðfræði og móðurmáli og Soffía tók þátt í því af mikilli hógværð, lokaði gjarnan að sér og kom með fullbúin og frábær viðfangsefni til mín sem innlegg í þróunarverkefnið. Núna 15 árum seinna eru sum viðfangsefna Soffíu ennþá í notkun og jafnvinsæl og þau voru árið 1999.

Fyrstu árin eftir að Soffía hætti störfum var hún dugleg að koma í heimsókn og borðaði m.a. árum saman með okkur hangikjöt fyrir jólin og var alltaf gaman að fá hana í heimsókn. Þegar hún heimsótti okkur síðast sáum við að heilsunni var farið að hraka en þótti vænt um að fá hana í heimsókn eins og alltaf.

Við kveðjum Soffíu með söknuði en spor hennar í Nóaborg eru enn sýnileg og fyrir það þökkum við og minnumst góðrar konu. Við sendum fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Fyrir hönd fyrrverandi samstarfsfólks í Nóaborg,

Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri.

Soffía, elskulega systir mín, eða Gógó eins og hún var oftast kölluð, hefur nú kvatt þennan heim eftir erfið veikindi. Gógó stóra systir mín var á fermingarárinu sínu þegar ég leit dagsins ljós.

Margar myndir koma upp í hugann þegar horft er til baka, margs að minnast og margt að þakka. Ég var reyndar svo lánsöm að eiga tvær stórar systur sem sinntu mér í uppvextinum, eins og mæður væru, þær Sjöfn og Gógó.

Ég var langyngsta barn foreldra minna og komu systur mínar því mikið að uppeldi mínu. Gógó bjó þá enn í föðurhúsum eða allt þar til ég var níu ára.

Hún hafði því ýmislegt að segja um hvernig uppeldi mínu var háttað. Hún var foreldrum mínum til halds og trausts, hélt þeim við efnið þegar henni fannst þau of eftirgefanleg og svo passaði hún mig mikið. Þeir voru margir lystitúrarnir sem ég fékk að fara með henni. Ég man eftir heimsóknum með henni í sveitina þar sem hún hafði verið kaupakona, skemmtunum hjá Sumargjöf og svo bæjartúrunum þar sem ég stolt leiddi þessa fallegu systur mína. Gógó var í Fóstruskóla Sumargjafar á þessum tíma og naut ég góðs af því á svo margan hátt.

Bæði var að hún leyfði mér að koma með sér í vinnuna þar sem hún vann á hinum ýmsu barnaheimilum, sem mér fannst óendanlega skemmtilegt, og svo kynntist ég yndislegum hollsystrum hennar sem kom sér vel þegar ég stækkaði og þurfti á sumarvinnu að halda.

Þá voru þessar skólasystur forstöðumenn barnaheimila víðs vegar um landið og tilbúnar að taka litlu systur í sumarvinnu og Gógó þá milligöngumaður.

Í minningunni var Gógó afar glæsileg ung kona, há og grönn og bar sig vel. Mér er enn í barnsminni hvað mér fannst hún flott þegar hún bjó enn í föðurhúsum og var að hafa sig til áður en hún fór út á lífið, í heimasaumuðum kjólum sem móðir okkar og Sigga frænka höfðu hannað og saumað, stórglæsileg á að líta.

Gógó var einstaklega greiðasöm og var alltaf tilbúin að stökkva til og hjálpa litlu systur. Þau voru ófá skiptin sem ég flutti í gamla daga og alltaf var Gógó mætt til leiks, snögg og verklagin, til að hjálpa til við að þrífa og pakka og koma mér út, og síðar mér og börnunum þegar þau voru komin til sögunnar. Þegar við fengum gesti frá útlöndum, hvað eftir annað, og fórum með þá um landið fannst Gógó og Erni ekkert sjálfsagðara en að bjóða hersingunni í mat til að létta undir, og svo mætti lengi telja.

Stóru systur mínar, Sjöfn og Gógó, voru ákaflega samrýmdar og oftast nefndar í sömu andránni, allavega fannst mér það þegar ég var barn og eru æskuminningarnar mikið tengdar þeim saman.

Þær voru foreldrum okkar stoð og stytta sem var til mikillar fyrirmyndar og þegar ég fullorðnaðist voru þær límið í fjölskyldunni, héldu utan um stórfjölskylduna og sáu til þess að allir væru með og treystu fjölskylduböndin hvenær sem tækifæri gáfust. Skapanornirnar höguðu því svo þannig að þær fengu sama sjúkdóminn og gengu á fund feðra sinna með tæplega þriggja mánaða millibili.

Ég kveð systur mína með þakklæti og votta sonum hennar, Kalla, Úlla og fjölskyldum þeirra samúð mína.

Herdís

Zophoníasdóttir.