Björn Ingólfsson birti fyrir nokkrum dögum skemmtilegt ljóð á Leirnum, sem hann nefnir Skugginn: Hann kemur með mér á morgungöngu þegar máninn er fullur og bjartur ýmist svartur eða svolítið grár og gugginn stundum á undan stundum á eftir stundum á hlið...

Björn Ingólfsson birti fyrir nokkrum dögum skemmtilegt ljóð á Leirnum, sem hann nefnir Skugginn:

Hann kemur með mér

á morgungöngu

þegar máninn er fullur

og bjartur

ýmist svartur

eða svolítið grár

og gugginn

stundum á undan

stundum á eftir

stundum á hlið

hvort sem landslagið

er lárétt og flatt

eða á fótinn og bratt

fylgir hann mér

eins og skugginn.

Svo vel kveðið ljóð kallar það auðvitað fram að aðra langar að taka til máls. Jón Arnljótsson kvað:

Ljóma slær á leiðir farnar

í laut þá amann þvingum,

er máninn skín og skuggi Bjarnar

skottast oss í kringum.

Sturla Friðriksson skrifaði mér og sagðist kunna drusluna sem hér birtist á mánudag svolítið öðru vísi, en hún væri eftir Árna Böðvarsson á Ökrum á Mýrum (f. 1713).

Ég vildi að sjórinn yrði að mjólk,

undirdjúpin að skyri (skeri),

fjöll og hálsar að floti og tólk,

Frónið að kúasméri.

Uppfyllist óskin mín,

öll vötn í brennivín,

Holland að heitum graut,

horngrýti gamalt naut,

Grikkland að grárri meri.

Síðan sendi hann mér þessar til viðbótar og kynni fleiri:

Aldrei skal ég eiga flösku.

Aldrei drekka brennivín.

Aldrei reiða ull í tösku.

Aldrei bera tóbaksskrín.

Aldrei róa, aldrei slá.

Aldrei neinni sofa hjá.

Aldrei éta, aldrei sofa.

Aldrei neinu góðu lofa.

Raun er að vera rassvotur,

Raun er að vera syfjaður.

Raun er að bera rýrt í vömb.

Raun er að skera stekkjarlömb.

Raun er að vera ei ríkur þar.

Raun er að vera sumstaðar.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is