Gunnlaugur R. Jónsson fæddist á Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði 22. janúar 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu 2. janúar 2015.

Hann var sonur hjónanna Hólmfríðar Bjarnadóttur frá Túni í Flóa, f. 13. október 1891, d. 22. apríl 1981, og Jóns Eiríkssonar frá Efri-Þverá í Vesturhópi, f. 22. júní 1885, d. 10. febrúar 1975. Systkini Gunnlaugs eru: Guðfinna, f. 1917, d. 2010, Ingunn, f. 1919, d. 1979, Þorgerður, f. 1920, d. 2010, Eiríkur Óli, f. 1922, d. 2008, Bjarni, f. 1924, d. 2012, Ingibjörg Guðlaug, f. 1926, Snorri, f. 1928, Stefán, f. 1930, d. 2013, Eggert Ólafur, f. 1931, og Ragnheiður, f. 1935.

Hinn 20.9. 1964 kvæntist Gunnlaugur eftirlifandi eiginkonu sinni Kristrúnu Ásgrímsdóttur, f. 25. júlí 1943, fyrrv. íþróttakennara og hjúkrunarfræðingi. Foreldrar hennar voru Ásgrímur Kristjánsson frá Siglufirði, f. 28. september 1918, d. 30. maí 2004, og Sigfríður Lúðvíksdóttir frá Húsavík, f. 3. mars 1921, d. 27. apríl 2002.

Gunnlaugur og Kristrún eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Sigfríður, f. 14. júlí 1965. Eiginmaður hennar er Sveinn A. Reynisson, f. 20. apríl 1952. Dóttir þeirra er Kristrún Ingunn, f. 30. desember 2000. 2) Eiríkur, f. 12. október 1966. 3) Ása, f. 26. september 1968. Sambýlismaður hennar er Ólafur Rögnvaldsson, f. 5. september 1958. 4) Hólmfríður Ýr, f. 18. október 1973. Dóttir hennar og fyrrverandi eiginmanns, Alvaros Miguels Sanchez Alves, f. 28. júní 1974, er Sif Celeste, f. 30. júní 2007.

Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og stundaði nám í dýralækningum við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hætti þar námi eftir fjögur ár og hóf starfsferil sem kennari. Hann stundaði síðar nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og lauk BA-prófi í dönsku frá Háskóla Íslands. Ævistarf hans var kennsla og starfaði hann lengst við Fjölbrautaskólann við Ármúla.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 14. janúar 2015, kl. 15.

Síðustu ár ævi sinnar hefur pabbi minn verið fangi í eigin líkama. Ofurseldur sjúkdómi sem smám saman lamar bæði líkama og sál. Það hefur verið okkur sem næst honum stöndum erfitt að fylgjast með honum fjara út, eiga dag hvern erfiðara með hreyfingar og tal þar til lítið var orðið eftir annað en hylkið utan af manninnum sem við elskuðum. Það er þó léttvægt í samanburði við hvernig þessi grimmilegu örlög hljóta að hafa birst honum sem naut gönguferða úti í náttúrunni, hestamennsku og ekki síður þess að lesa, spjalla og uppfræða. Allt þetta var orðið honum ómögulegt undir lokin. Við fjölskyldan höfum því óneitanlega fengið tíma til að venjast því að hafa hann ekki hjá okkur í raun, kannski full langan og sáran, en samt er eins og það sefi ekki sorgina við að hafa misst hann að fullu nema að litlu leyti. Það sem þessi tími hefur þó e.t.v. veitt okkur er ákveðin fjarlægð sem gerir það að verkum að mér finnst það mögulegt að setjast núna niður og skrifa um hann örfá orð að honum horfnum.

Pabbi var næstyngstur í hópi ellefu systkina frá Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði. Eðlilega voru veraldleg gæði af skornum skammti hjá svo stórri fjölskyldu á þessum tíma en þrátt fyrir það var áhersla lögð á menntun og menningu. Öll systkinin menntuðu sig umfram það sem skylt var þótt einungis þau yngri fengju tækifæri til langskólanáms. Pabbi bar mikla virðingu fyrir foreldrum sínum og elskaði og virti mömmu sína takmarkalaust. Hann taldi sig lánsaman að eiga svo stóra og elskuríka fjölskyldu, en hann átti ekki einungis 10 systkini heldur einnig tvær uppeldissystur auk þess sem börn elstu systra hans voru honum einkar kær og í raun sem yngri systkin.

Það er þessi bakgrunnur sem mótaði hann og gerði að þeim manni sem ég þekkti. Í mínum barnshuga var pabbi minn fyrst og fremst góður, fallegur og skemmtilegur maður. Ég gerði mér snemma grein fyrir því hversu heppin ég var, svo mjög að ég iðulega hugsaði til annarra barna með nokkurri vorkunn því ég hafði aldrei hitt nokkurn pabba sem komst í hálfkvisti við minn.

Hann var hugsjónamaður: sósíalisti og friðarsinni, hernaðarandstæðingur, alþýðubandalagsmaður og femínisti. Ötull talsmaður lítilmagnans og vildi að allir, óháð kyni, efnahag, uppruna og ætterni, ættu kost á mannsæmandi lífi. Hann var réttsýnn og sanngjarn – jafnvel um of á köflum, fannst mér a.m.k. þegar hann gat eytt ærnum tíma í að tryggja að nemendur hans bæru örugglega ekki skarðan hlut frá borði þegar kom að yfirferð prófúrlausna. Hann var umfram allt fræðimaður og kennari, alltaf að uppfræða og leiðbeina. Hann var menningarlega sinnaður, ljóðelskur, hagmæltur og vel ritfær. Hann var góður eiginmaður og yndislegur faðir – mildur en þó alls ófeiminn við að aga okkur börnin sín og siða til. Afastelpurnar tvær voru honum ljós í myrkri síðustu áranna; „án litlu stelpnanna væri þetta allt hálftilgangslaust“ sagði hann við mömmu mína meðan hann var enn fær um að tjá sig. Sárast finnst mér að þær hafi ekki fengið að njóta samvista við afa sinn lengur en raun varð á.

Sigfríður Gunnlaugsdóttir.

Pabbi minn kom frá barnmörgu heimili og var oft þröngt í búi. Hann sagði mér eitt sinn að hreppsnefndin hefði oftsinnis búist við því að Svertingsstaðahjónin þyrftu að segja sig og börnin sín til sveitar. Aldrei kom til þess og öll uxu þau úr grasi og urðu hið mesta sómafólk. Í bréfi ömmu til móður sinnar, frá 28. júní 1933, segir m.a.: „Krakkarnir eru öll heilsugóð; varla hægt að segja að þau fái kvef. Eins er með litla piltinn minn yngsta sem fæddist 22. janúar; hann hefur alltaf verið frískur og rólegur og liggur enn í vöggunni og er þó kominn á sjötta mánuð.“ Víst er að lengi býr að fyrstu gerð og að vistin í vöggunni hafði töluvert forspárgildi því pabbi var einstaklega rólegur og yfirvegaður maður, jarðbundinn og raunsær. Hann flýtti sér hægt og leiddist óþarfa tilfinningasemi þó að hann væri bæði hlýr og ástríkur. Hann var dagfarsprúður og seinþreyttur til vandræða en samt langt því frá skaplítill. Pabbi var kennari af lífi og sál og var alltaf að uppfræða, ekki bara nemendurna heldur líka börnin sín. Hann var hafsjór af fróðleik og alla tíð þótti okkur sem hann vissi allt. Hann var auðvitað ánægður með að við teldum hann allt að því alvitran en stundum þótti honum nóg um og sagði þá glettnislega: „Nei, heyriði mig nú, ég veit ekki alla skapaða hluti,“ svo kom smáþögn og: „bara næstum því“ sem var alls ekki svo fjarri lagi. En pabbi vissi ekki bara allt um íslenska þjóðveldið, Rómarkeisara, Bjart í Sumarhúsum og aðra slíka heldur líka ógrynni af sögum af skrítnum og skemmtilegum sveitungum sem hann vitnaði í. Þar fór fremstur Bjössi, sérstakur náungi sem bjó á næsta bæ. Svertingsstaðafólkið var afar hjálplegt við Bjössa sem sennilega hefði ekki búnast vel hefði hann ekki átt svo góða granna. Mér fannst næstum því að Bjössi væri náinn ættingi eða heimilisvinur, því það var aldrei svo að pabbi gæti ekki komið með góða tilvitnun í Bjössa sem hæfði tilefninu. Þó pabbi væri mjög ánægður með börnin sín hafði hann stundum á orði að það væri nú meira árans ekkisens ólánið að yngsta dóttirin skyldi líkjast honum svo mjög en ekki fá dugnaðinn úr móðurættinni. Þrátt fyrir þessi orð var pabbi mjög duglegur maður sem alltaf kenndi fulla kennslu og meira en það, ásamt því að vinna verkamannavinnu í öllum sumarfríum. Stundum horfði hann samúðarfullur á mig og sagði upp á dönsku: „alle mine værste fejler“ en það var tilvitnun í frægan danskan leikara og leiklistarkennara sem viðhafði þessi orð um íslenskan nemanda sinn sem ku hafa verið stórleikari á sinni tíð en honum þótti lítt til koma. Pabbi bætti þó við að ég hefði reyndar fengið „noget af det bedste også“ og þá þótti mér ekki eins slæmt að vera draumlyndur sveimhugi sem vakir fram á nætur og á erfitt með koma hlutum í framkvæmd. Um leið og ég þakka pabba fyrir samfylgdina get ég ekki annað en þakkað forsjóninni fyrir að mér skyldi hlotnast sú gæfa að fá að vera dóttir svo góðs manns.

Hólmfríður Ýr

Gunnlaugsdóttir.