[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ekki er talið að flóasiglingar á milli Reykjavíkur og Akraness á hraðskreiðum báti myndu standa undir sér án utanaðkomandi niðurgreiðslu.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ekki er talið að flóasiglingar á milli Reykjavíkur og Akraness á hraðskreiðum báti myndu standa undir sér án utanaðkomandi niðurgreiðslu. Áætlaðar tekjur færu langt með að standa undir rekstrinum, en nægðu ekki til greiðslu stofnkostnaðar. Reyndar er talsverð óvissa um mögulegar tekjur, en kostnaður virðist hins vegar nokkuð ljós.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem Bergþóra Bergsdóttir, starfsmaður Faxaflóahafna, tók saman fyrir Faxaflóahafnir um siglingar á hraðskreiðum báti milli Reykjavíkur og Akraness. Eftir að Akraborgin hætti siglingum árið 1998 með tilkomu Hvalfjarðarganga hafa komið upp hugmyndir um að bjóða upp á svokallaðar flóasiglingar á milli Reykjavíkur og Akraness.

Bátur keyptur á 120 milljónir

Í könnun Bergþóru miðaði hún við sams konar bát og Rósina, sem Sérferðir eiga og nota m.a. til hvalaskoðunar frá Reykjavík. Rósin var smíðuð árið 2010 og tekur að hámarki 65 farþega. Báturinn er hraðskreiður og tekur hann um 30 mínútur að sigla úr Gömlu höfninni og upp á Akranes. Í skýrslunni kemur fram að miðað er við að kaupa samskonar bát notaðan fyrir um 120 milljónir króna, en nýsmíði kosti um 160 milljónir.

Miðað er við að boðið verði upp á tvenns konar siglingar yfir flóann, annars vegar áætlunarsiglingar milli áfangastaðanna og hins vegar ferðaupplifun. Í skýrslunni kemur fram að fullt miðaverð upp á Akranes með Strætó bs. er 700 kr. aðra leið og tekur ferðalagið um 75 mínútur úr miðbæ Reykjavíkur. Eins kostar að meðaltali um 2.997 kr. á hvern einstakling að ferðast þessa leið á einkabíl, en þá er gert ráð fyrir um 45 mínútna ferðalagi.

Flóasiglingar hafa það fram yfir þessar tvær lausnir að vera fljótari á milli staðanna, eða einungis 30 mínútur. Miðaverð flóasiglinga hefði burði til að vera hærra en hjá Strætó, en þyrfti að vera lægra en ef farið er á einkabíl. Er talan 1.490 krónur nefnd fyrir áætlunarferðir aðra leið án afsláttar, en 2.490 krónur fyrir ferðaupplifun.

Lykilatriði að kanna markaðinn og eftirspurn

Í reikningsdæminu er gert ráð fyrir að yfir 60 þúsund farþegar myndu nota sér að fara sjóleiðina, en tekið fram að lykilatriði sé að kanna markaðinn og eftirspurnina eftir flóasiglingum í upphafi verkefnisins.

Miðað við tekjumat sem lagt er til grundvallar í skýrslunni yrði núvirði fjárfestingar eftir þrjú ár í rekstri, miðað við 10% ávöxtunarkröfu hluthafa, neikvætt um 25.683.181 kr. „Það er því ekki fýsilegt að ráðast í fjárfestinguna á þeim forsendum sem lýst hefur verið,“ segir í skýrslu Bergþóru Bergsdóttur.