Sighvatur Björgvinsson
Sighvatur Björgvinsson
Eftir Sighvat Björgvinsson: "Hefðu ritstjórnirnar staðið jafn fast með ritstjórunum sínum og ritstjórarnir stóðu með þeim hefðu eigendur ekkert blað haft til þess að gefa út."

Tvívegis á liðnu ári gerðist það, að ritstjórar frjálsra fjölmiðla voru látnir fara vegna þess að eigendur voru ekki sáttir við verkstjórn þeirra. Í hvorugu tilvikinu var ástæðan sú, að ritstjórarnir hefðu sjálfir sagt eða skrifað eitthvað, sem eigendum mislíkaði. Í báðum tilvikum var ástæðan sú, að ritstjórarnir neituðu kröfum um að þeir tækju fram fyrir hendurnar á starfsmönnum ritstjórna sinna og annaðhvort stöðvuðu umfjöllun þeirra um tiltekin mál og nafngreinda menn eða þá að þeir kæmu í veg fyrir birtingu þeirra skrifa.

Ólafs mál Stephensen

Lesendur fara ekkert í grafgötur um hverja og hvað hér er verið að ræða. Annars vegar er um að ræða brotthvarf Ólafs Stephensen úr ritstjórastóli Fréttablaðsins, sem gefið er út af 365 fjölmiðlum. Sök Ólafs var ekki sú, að hann hefði sjálfur skrifað eða fjallað um eitthvað, sem eigendavaldið var ekki sátt við. Sök Ólafs var sú, að hann hefði ekki staðið gegn umfjöllun starfsmanna sinna á ritstjórninni um þau mál og þá menn. Krafan var, að hann stöðvaði þá umfjöllun. Að hann neitaði að birta efnið, sem starfsmenn hans á ritstjórninni höfðu unnið eftir bestu samvisku. Það, að hann stóð með ritstjórninni sinni, með tjáningarfrelsi blaðamannanna sinna, varð til þess að að honum var þrengt af eigendum og hann svo hrakinn úr starfi.

Reynis mál Traustasonar

Nákvæmlega sama valdi var beitt gegn Reyni Traustasyni, ritstjóra DV. Sök hans var ekki sú, að sjálfur hann hefði skrifað eitthvað eða sagt, sem ekki var þóknanlegt fjármálamönnum, sem sumir hverjir áttu eignarhlut í blaðinu og aðrir voru reiðubúnir til þess að kaupa sér ráðandi hlut þar til þess að koma ritstjóranum úr starfi. Sök Reynis Traustasonar var sú, að hann hefði ekki stöðvað blaðamenn sína í að fjalla um mál, sem ekki var þóknanlegt fjármálamönnum. Að hann hefði ekki stöðvað birtinguna. Að hann hefði ekki stöðvað tjáningarfrelsi blaðamanna sinna til þess að birta það, sem þeir töldu vera sannast og réttast. Að hann hefði ekki bundið fyrir munn þeirra starfsmanna, sem fengið höfðu blaðamannaverðlaun fyrir réttmæta gagnrýnisumfjöllun um valdsmenn peninga og pólitíkur. Peningamenn, sem látið höfðu afskrifa hjá sér háar fjárhæðir fjármuna, sem þeir höfðu fengið lánaða hjá aðilum, sem þeim treystu, reyndust eiga nóg fé til þess að kaupa sig til valda í fjölmiðlinum til þess að koma ritstjóranum frá. Þeir áttu ekki peninga til þess að borga skuldir sínar, en þeir áttu næga peninga til þessara hluta. Til þess að reka ritstjórann.

Blaðamenn – og þeirra hlutskipti

Hvað kemur þessi frásögn blaðamönnum við? Jú, hún kemur þeim við vegna þess að ritstjórarnir, sem stóðu með þeim og þeirra tjáningarfrelsi, fengu ekki sambærilegan stuðning frá þeim þegar ritstjórarnir voru reknir fyrir verknaðinn. Hefðu ritstjórnirnar staðið jafn fast með ritstjórunum sínum og ritstjórarnir stóðu með þeim hefðu eigendur ekkert blað haft til þess að gefa út. Svo sáraeinfalt er það. Þannig virkar tjáningarfrelsið – gagnkvæmt. Vel að merkja – sé það virt. Ekki bara af ritstjórum. Heldur líka af blaðamönnum.

Gamall flokkspólitískur ritstjóri eins og sá, sem þetta skrifar, þekkir engin dæmi slíks sem þessa úr sinni starfsævi. Rannsóknarblaðamennska var þá víst ekki heldur til og því ekki heldur sá vandi okkar allra, sem henni fylgir. Aldrei minnist ég þess, að pólitískur eigandi fjölmiðils hefði krafist þess að blaðamaður yrði rekinn. Það kom fyrst fram þegar fjármálamennirnir eignuðust fjölmiðlana.

Opið bréf!

Það er því ekki að ástæðulausu, að Íslendingar sendu aðeins staðgengil sendiherra til þess að taka þátt í fjöldafundunum í París þar sem tjáningarfrelsið var varið. Enginn ráðherra. Enginn forseti. Enginn ráðuneytisstjóri. Okkar stjórnsýsla var þar víðs fjarri. Eina þjóðin í allri Vestur-Evrópu, sem ekki sá ástæðu til þess að senda neinn fyrirmann þjóðar sinnar til samstöðufundarins. Ævarandi minnismerki um íslenska tjáningarfrelsið – og um íslenska blaðamannastétt. Þess vegna: Opið bréf til íslenskra blaðamanna!

Höfundur er fyrrv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Sighvat Björgvinsson