24. heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst í Katar á morgun þegar heimamenn og Brasilíumenn ríða á vaðið. 22 ár eru liðin frá því undirritaður fór á sitt fyrsta heimsmeistaramót sem fjölmiðlamaður en mótið fór fram í Svíþjóð.
24. heimsmeistaramót karla í handknattleik hefst í Katar á morgun þegar heimamenn og Brasilíumenn ríða á vaðið. 22 ár eru liðin frá því undirritaður fór á sitt fyrsta heimsmeistaramót sem fjölmiðlamaður en mótið fór fram í Svíþjóð. Íslendingar mættu Svíum í fyrsta leik á því móti en Svíar verða einmitt fyrstu andstæðingar okkar manna í Katar á föstudagskvöld.

Svona til að rifja það upp höfðu Svíar betur á HM 1993 í Gautaborg, 21:16, en á þessum árum var oftar en ekki rætt og ritað um Svíagrýluna svokölluðu. Fyrirsögn undirritaðs eftir leikinn var á þessa vegu: „Svíagrýlan sprelllifandi“. Íslendingar enduðu í 8. sæti á HM í Svíþjóð en Svíar fengu bronsið.

Nú 22 árum síðan er fyrir löngu búið að kveða Svíagrýluna í kútinn og ég hef fulla trú á að strákarnir okkar sýni frændum okkar í tvo heimana á föstudaginn þegar þjóðirnar eigast við í Ali Bin Hamad Al Attiya-höllinni í Doha. Einn helsti styrkleiki sænska liðsins er markvarslan og það hefur lítið breyst í áranna rás. Á HM 1993, sem ég minntist á hér áðan, voru Svíarnir með tvo af bestu markvörðum heims á milli stanganna, Mats Olson og Tomas Svensson.

Ég var á HM í Portúgal 2003. Þá voru í liði Íslands þrír leikmenn og þjálfari sem nú eru allir landsliðsþjálfarar og verða í eldlínunni á HM í Katar. Þetta voru Patrekur Jóhannesson, sem nú er þjálfari Austurríkis, Dagur Sigurðsson, sem nú stýrir Þjóðverjum, og Aron Kristjánsson, sem er þjálfari okkar Íslendinga. Guðmundur Þórður Guðmundsson var þjálfari íslenska landsliðsins á HM 2003 en hann er nú við stjórnvölinn hjá Dönum. Ísland endaði í 7. sæti á mótinu.