Fyndnar Upprennandi leikkonur gera grín að veruleika kvenna. Þær eru Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís B. Þorfinnsdóttir.
Fyndnar Upprennandi leikkonur gera grín að veruleika kvenna. Þær eru Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís B. Þorfinnsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikta Br. Alexandersdóttir benedikta@mbl.is Gamanleikritið Konubörn verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu klukkan 20 í kvöld, miðvikudag.

Benedikta Br. Alexandersdóttir

benedikta@mbl.is

Gamanleikritið Konubörn verður frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu klukkan 20 í kvöld, miðvikudag. Um er að ræða þriðju uppsetningu framtíðardeildar leikhússins en fyrri leikritum hefur verið mjög vel tekið og hafa hlotið tilnefningar til verðlauna svo eftir hefur verið tekið.

Konubörn er skrifað af sex ungum listakonum á tvítugsaldri sem eiga það sameiginlegt að finnast þær vera mitt á milli þess að vera barn og kona. Tekur leikritið á kvenlegum veruleika á Íslandi með gamansömum hætti.

„Verkið er um ungar konur sem líður eins og þær eigi að vera orðnar konur en búa samt ennþá heima og geta reitt sig á mömmu sína til þess að þvo af þeim,“ segir Björk Jakobsdóttir, leikstjóri Konubarna .

Konubörn fjalar um sex persónur sem eru lauslega byggðar á höfundum leikritsins. Leikritið er ekki línulegt en unnið er út frá „sketsum“ eða sjálfstæðum atriðum, sem hanga saman og mynda heild. „Maður fær skýra mynd af persónunum sem mynda vinahópinn. Þar má finna ýmsar týpur; stelpuna sem er alltaf í tilvistarkreppu, hörðu sveitastelpuna, feministann, meðvirku týpuna og svo framvegis,“ segir Björk. Hún segir persónurnar þó ekki staðalímyndir. „Persónurnar eru í raun byggðar á kjörnum höfundanna og samanstendur hver persóna því af mörgum mismunandi þáttum sem gerir þær flóknari fyrir vikið.“

Hittir í mark

Björk segir leikritið einlægt, ferskt og hitta algjörlega í mark. „Þetta er skrifað út frá þeirra eigin hjarta og endurspeglar algjörlega hvað ungar konur eru að hugsa um í dag. Við lögðum upp með að taka okkur ekki of hátíðlega og stelpurnar eru duglegar að gera grín að sjálfum sér og tilvistarkrísum ungra kvenna,“ segir Björk.

Höfundar leikritsins eru engir nýgræðingar í leiklist þótt þær hafi ekki farið í gegnum leiklistarnám. Hafa þær allar komið fram frá unga aldri og eru upprennandi leikkonur að sögn Bjarkar.

„Það er búið að vera rosalega gaman að vinna með þessum stelpum. Ég er eiginlega í aðdáunarkasti yfir því hvað við eigum til mikið af flottum og ungum listakonum,“ segir hún.

Framtíðardeild leikhússins hefur staðið að uppsetningu tveggja annarra leikrita. Þau voru bæði skrifuð og leikin af strákum. Björk segist finna mun á kröfum til stelpna og stráka.

„Stelpurnar eru fullkomnunarsinnar og finnst þær þurfa að vera stöðugt að passa sig á því að senda rétt skilaboð til áhorfenda. Þetta háði þeim dálítið í byrjun en við töluðum mikið um þetta þegar við vorum að byrja þetta ferli. Það er nú einu sinni þannig að það er rosalega erfitt að vera fyndinn og skemmtilegur ef maður er alltaf að strauja skilaboð í andlitið á fólki. Strákarnir spáðu hins vegar ekkert í þessa hluti og enginn áhorfandi velti því sérstaklega fyrir sér hver skilaboðin væru með sýningum þeirra. Við þurftum því að losa okkur við þessa feminísku kröfu um hvernig konur eiga að vera og gera hlutina eftir okkar höfði. Það mætti því segja að skilaboð leikritsins séu að konur eru margskonar og það sé í lagi,“ segir Björk.

Skemmtilegt fyrir allan aldur

Upphaflega var leikritið hugsað fyrir unglinga. Markhópurinn hefur þó stækkað með þróun leikritsins og ættu ungir sem aldnir að hafa gaman af að sögn Bjarkar. „Þetta er ekkert minna fyrir minn aldur en unglingana. Mér finnst ofboðslega gaman að horfa á þetta þótt ég sé komin með hrukkur og bumbu. Ég er alveg jafnmikið konubarn í minni sál þótt einhverjir séu kannski farnir að kalla mig kerlingu,“ segir Björk glöð í bragði. „Mér finnst upplagt að fólk af mismunandi kynslóðum fari saman á leikritið. Þannig geta dætur, mæður og ömmur farið saman og haft gaman af. Svo eru karlarnir auðvitað velkomnir líka.“

Byrjað verður á því að sýna verkið einu sinni í viku. „Ef fólk hefur sama smekk og ég á það eftir að hafa gaman af þessu. Ef ég ætti stelpu myndi ég örugglega fara með hana á þetta leikrit,“ segir Björk.

Strákarnir slógu í gegn

Framtíðardeildin hófst með sýningum á Unglingnum og síðan Heili Hjarta Typpi sem sýnt verður áfram í febrúar. Bæði leikritin voru skrifuð af strákum og fengu frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Hlaut Unglingurinn tilnefningu til Grímuverðlaunanna sem besta barnasýning ársins auk þess sem höfundar og leikarar leikritsins voru tilnefndir sem sprotar ársins.