[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Heimsmeistaramótið í handbolta í Katar hefst á morgun en Ísland er meðal þátttökuþjóða. RÚV sýnir alla leiki Íslands í beinni útsendingu og 33-35 leiki alls. Það fer eftir því í hvaða átt Ísland fer.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Heimsmeistaramótið í handbolta í Katar hefst á morgun en Ísland er meðal þátttökuþjóða. RÚV sýnir alla leiki Íslands í beinni útsendingu og 33-35 leiki alls. Það fer eftir því í hvaða átt Ísland fer.

Keppnisfyrirkomulagið er þannig að spilað er um sæti frá eitt til átta. Ef Ísland fer í átta liða úrslit og tapar þar þá spilar það í fjögurra liða úrslitakeppni um réttinn til að spila um fimmta eða sjöunda sæti. „Við ætlum ekkert að elta þá leiki ef Ísland er ekki þar. En ef Ísland er að keppa verða þeir að sjálfsögðu sýndir,“ segir Einar Örn Jónsson, íþróttastjóri RÚV.

RÚV verður einnig með HM-stofu fyrir alla leiki Íslands og einnig eftir tíu-fréttir. „Þar verður fjöldinn allur af góðum mönnum og konum. Þóra Arnórsdóttir ræður þar ríkjum og hefur verið að safna liði. Kempur eins og Sigurður Sveinsson, Viggó Sigurðsson, Bjarki Sigurðsson og Rakel Dögg Bragadóttir og fleiri og fleiri. Þarna verður samankomið gott fólk með mikla reynslu og ofboðslega þekkingu til að fræða fólk heima í stofu,“ segir Einar Örn.

Einar Örn og Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson fara til Katar á vegum RÚV og lýsa leikjum Íslands bæði í sjónvarpi og útvarpi. Benedikt Grétarsson, Hans Steinar Bjarnason og Haukur Harðarson lýsa öðrum leikjum.

Einar Örn er fyrrverandi atvinnumaður í handbolta og landsliðsmaður og segist vera þokkalega bjartsýnn fyrir heimsmeistaramótið. „Það leggst ágætlega í mig. Ég var svartsýnn fyrir mótið um síðustu helgi en er að verða bjartsýnni. Leikurinn við Dani var góður og að ná góðum úrslitum gegn Slóvenum, þótt liðið spilaði ekki neitt sérstaklega, var sterkt.“

Stöð 2 sport sýnir 19 leiki

Á Stöð 2 sport verða 19 leikir sýndir í læstri dagskrá, þar af fjórir af fimm leikjum íslensku þjálfaranna, sem eru þrír á mótinu. Patrekur Jóhannesson, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson sitja við stjórnvölinn hjá Austurríki, Danmörku og Þýskalandi. „Við sýnum Danmörk-Þýskaland meðal annars þar sem þeir Dagur og Guðmundur mætast. Hann er á sama tíma og Ísland-Frakkland þannig að gera má ráð fyrir að endursýningin af leiknum muni ná miklu áhorfi,“ segir Óskar Hrafn Þorvaldsson hjá Stöð 2 sport.

Stöðin verður einnig með HM-stofu klukkan 20 þá daga sem Ísland spilar.

„Þar verður Hörður Magnússon við stjórnvölinn með góða gesti og mikla sérfræðinga. Valdimar Grímsson, Júlíus Jónasson, Kristján Arason, Guðjón Guðmundsson og Einar Andri Einarsson verða sérfræðingar. Þetta verður öflugur þáttur – ég lofa því.“ Lýsendur verða Henry Birgir Gunnarsson, Tómas Þór Þórðarson, Ríkharð Óskar Guðnason, Hörður Magnússon, Guðjón Guðmundsson og Valtýr Björn Valtýsson.

„Við ætlum að gera þetta eins vel og við getum og bjóða upp á alvöruumfjöllun. Reyna að vera með RÚV í að byggja upp stemningu fyrir þessu móti,“ segir Óskar.

HM í Katar

» Allir leikir Íslands verða sýndir beint á RÚV.
» Stöð 2 sport sýnir 19 leiki í riðlakeppninni.
» Báðar sjónvarpsstöðvarnar verða með HM-stofu.
» Þeir sem missa af leiknum í sjónvarpi geta fylgst með beinni textalýsingu á mbl.is.
» Morgunblaðið verður einnig með veglega umfjöllun á hverjum degi.