Frábær Alfreð Gíslason býður upp á þrumufleyg í Laugardalshöll á árum áður. Hann fór á kostum í B-keppninni í Frakklandi 1989 eins og svo oft fyrr og síðar.
Frábær Alfreð Gíslason býður upp á þrumufleyg í Laugardalshöll á árum áður. Hann fór á kostum í B-keppninni í Frakklandi 1989 eins og svo oft fyrr og síðar. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Strasbourg í Frakklandi, snemma árs 1989: Það var ógleymanleg sjón þegar Alfreð Gíslason, nautsterkur eins og margir muna, kom askvaðandi, brosandi út að eyrum, inn í anddyri hótelsins, enn í íþróttagallanum, með afar syfjulegan Svisslending á öxlinni.

Strasbourg í Frakklandi, snemma árs 1989: Það var ógleymanleg sjón þegar Alfreð Gíslason, nautsterkur eins og margir muna, kom askvaðandi, brosandi út að eyrum, inn í anddyri hótelsins, enn í íþróttagallanum, með afar syfjulegan Svisslending á öxlinni.

„Strákarnir okkar“ í handboltalandsliðinu unnu fyrr um kvöldið Svisslendinga í hnífjöfnum og spennandi leik í milliriðli á mjög sterku b-heimsmeistaramóti. Fyrirkomulagið í alþjóðlegum handbolta var annað þá en nú; lið sem ekki stóðu sig nógu vel á Ólympíuleikunum í Suður-Kóreu haustið áður urðu að koma saman í Frakklandi og keppa um sæti á HM árið eftir.

Þeir kumpánar, Alfreð og Hürlimann, voru valdir í lyfjapróf að leik Íslands og Sviss loknum. Höfðu setið lengi og reynt að pissa í glas fyrir lyfjaeftirlitið en eins og margir íþróttakarlar vita er ekki alltaf sjálfsagt mál að geta skvett úr skinnsokknum strax eftir jafnmikil átök og landsleikur er. Lyfjaeftirlitið varð að bjóða upp á drykk, hvorki vatn né gos virtist í uppáhaldi hjá Þjóðverjunum og því var áfengur bjór settur á borðið eins og þeirra er von og vísa. Leikmennirnir tveir sátu við prófborðið töluvert fram eftir kvöldi. Mér segir svo hugur að þeir hafi ekki endilega viljað skila af sér prófgögnum í skyndi...

Þetta þótti ekki fréttnæmt á sínum tíma en þætti hugsanlega í dag. Um það skal ég ekki dæma, en við sem tókum á móti Alfreð (og Hürlimann) í anddyrinu í Strasbourg höfðum lúmskt gaman af. Bogdan landsliðsþjálfari Kowalzcyk stökk ekki hæð sína í loft upp af hrifningu og stökk ekki heldur bros í morgunmatnum daginn eftir, ef ég man rétt. Hefur þó örugglega glott út í annað þegar enginn sá til! Svallið hafði að minnsta kosti ekki verri áhrif á Alfreð en það, að hann fór hamförum í leikjunum sem eftir voru, eins og fram að þessu, Íslendingar hömpuðu gullinu í París og Alfreð var kjörinn maður mótsins af dómnefnd á vegum alþjóðahandknattleikssambandsins. Samtök íþróttafréttamanna kusu hann svo íþróttamann ársins við næsta tækifæri.

Með þessari upprifjun er alls ekki verið að halda því fram að íþróttir og áfengi fari saman. En íþróttakeppni, jafnvel HM, er meira en bara leikur...