Samherjar Guðmundur Reynir Gunnarsson og Bjarni Guðjónsson fögnuðu saman Íslandsmeistaratitli sem leikmenn KR haustið 2013. Nú freistar Bjarni þess að fá Guðmund til þess að hætta við að hætta.
Samherjar Guðmundur Reynir Gunnarsson og Bjarni Guðjónsson fögnuðu saman Íslandsmeistaratitli sem leikmenn KR haustið 2013. Nú freistar Bjarni þess að fá Guðmund til þess að hætta við að hætta. — Morgunblaðið/Golli
fréttaskýring Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

fréttaskýring

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

KR-ingar eru við það semja við danska framherjann Sören Frederiksen en leikmaðurinn, sem er 25 ára gamall, er laus allra mála hjá danska úrvalsdeildarliðinu AaB þar sem hann varð tvöfaldur meistari á síðustu leiktíð. Samningur hans við Álaborgarliðið rann út um áramótin en hann hefur komið við sögu í sex leikjum af 17 í deildinni á þessu tímabili.

„Þetta er ekki alveg frágengið með Fredriksen en þetta er að skríða saman. Þetta á að vera mjög frambærilegur leikmaður og allt sem við höfum séð af honum er flott. Annars stæðum við ekki í þessu. Hann getur líka spilað fleiri stöður en framherji og það má segja að hann geti nánast leyst allar stöður á vellinum,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari bikarmeistara KR, í samtali við Morgunblaðið en sem kunnugt er var Bjarni ráðinn nýr þjálfari KR-inga í haust og tók við liðinu af Rúnari Kristinssyni.

Breytingar á hópnum

Bjarni hefur, ásamt aðstoðarmanni sínum, Guðmundi Benediktssyni, verið að vinna í að smíða saman leikmannahópinn fyrir næstu leiktíð en KR-ingar hafa þurft að sjá á eftir gríðarlega öflugum leikmönnum. Fyrirliðinn Baldur Sigurðsson, Óskar Örn Hauksson og Haukur Heiðar Hauksson eru allir farnir út í atvinnumennsku og þá tilkynnti Guðmundur Reynir Gunnarsson eftir tímabilið að hann ætlaði að leggja skóna á hilluna. Þá er óvissa með framherjann Gary Martin. Markakóngur Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð var til skoðunar hjá enska C-deildarliðinu Chesterfield og þá hafa KR-ingum borist tilboð og fyrirspurnir í hann frá erlendum liðum.

Fjórir komnir

KR-ingar hafa frá því Íslandsmótinu lauk í október fengið fjóra leikmenn en það eru þeir Pálmi Rafn Pálmason, Kristinn Jóhannes Magnússon, Rasmus Christiansen og markvörðurinn Hörður Fannar Björgvinsson.

„Það er ekki hægt að neita því að við höfum misst afar sterka leikmenn sem ekki síður eru sterkir karakterar. Við höfum á móti fengið fína leikmenn. Það var mjög gott að fá Kristin aftur heim í KR og það voru ekki margir bitar eins og Pálmi Rafn á markaðnum. Við erum enn að vinna í að styrkja hópinn en það verður samt ekki mikið meira. Fyrir var fullt af fínum leikmönnum og hópurinn hjá KR var mjög stór á síðustu leiktíð,“ sagði Bjarni.

Skúli kemur líklega heim

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er mjög líklegt að Skúli Jón Friðgeirsson snúi aftur í Vesturbæinn og semji við sitt gamla lið en hann yfirgaf KR árið 2012 þegar hann gekk í raðir sænska liðsins Elfsborg. Hann var síðan lánaður til sænska liðsins Gefle. Þá er sennilegt að þriðji Daninn bætist í leikmannahóp Vesturbæjarliðsins en Henrik Bödker, sem var í þjálfarateymi Stjörnunnar, hefur verið að hjálpa KR-ingum í leikmannamálunum.

Möguleiki á að Gary fari

Spurður út í Gary Martin sagði Bjarni: „Gary er kominn heim og er ekki á leið sem stendur aftur út. Það er hins vegar stöðugt eitthvað í gangi hjá honum á Englandi og í Skandinavíu. Það hafa borist tilboð í hann en það er eitthvað sem honum hefur ekki fundist nógu spennandi til þess að fara frá KR fyrir. Ef rétt tilboð fyrir hann og KR berst er alltaf möguleiki á að hann fari og það held ég að gildi um langflesta af þessum strákum hér á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Erfitt að sannfæra í snjónum

Eins og áður segir tilkynnti bakvörðurinn knái, Guðmundur Reynir Gunnarsson, í haust að hann hefði ákveðið að hætta í boltanum aðeins 26 ára gamall. Bjarni hefur þó ekki útilokað að Guðmundi snúist hugur.

„Það er ekkert sérlega spennandi, þegar menn eru búnir að ákveða að hætta, að reyna að fá þá til að byrja aftur á þessum árstíma þegar allt er á kafi í snjó og hífandi rok og kuldi. Mummi er enn ungur og fullur af hæfileikum og við höfum beitt ráðum til þess að fá hann til að koma aftur,“ sagði Bjarni.