— Ljósmynd/Einar Ómarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.is Kópavogsbær hefur auglýst stöðu verkefnastjóra við innleiðingu spjaldtölvunnar í skólastarf hjá mið- og efsta stigi í grunnskólum bæjarins.

Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

Kópavogsbær hefur auglýst stöðu verkefnastjóra við innleiðingu spjaldtölvunnar í skólastarf hjá mið- og efsta stigi í grunnskólum bæjarins. Stýrihópur hefur unnið markvisst að undirbúningi frá síðasta hausti og mun verkefnastjórinn stýra innleiðingunni. „Þráðlaust net hefur einnig verið lagt í alla skóla og leikskóla sem var forsenda spjaldtölvuvæðingarinnar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar. Nú þegar hafa leikskólar bæjarins fengið spjaldtölvur. „Reynslan þaðan er góð og mikil ánægja með búnaðinn,“ segir Ármann og bætir við að þetta sé stærsta verkefni núverandi meirihluta og því eigi að ljúka á kjörtímabilinu. Áætlað er að um 200 milljónir fari í innleiðingu spjaldtölvanna á árinu og segir Ármann að kostnaðinum hafi þegar verið stillt upp í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 og því eigi dæmið að ganga upp að öllu óbreyttu.

„Afar jákvæð reynsla“

Norðlingaskóli er einn þeirra grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu sem notast við spjaldtölvur í skólastarfi á unglingastigi og segir Dagbjört Þorsteinsdóttir, umsjónarkennari hjá 8.-10. bekk, að reynslan af því hafi verið afar jákvæð og aldrei hafi komið til tals að snúa til baka til fyrri kennsluhátta eftir að notkun spjaldtölvanna hófst. „Krakkarnir finna sjálfir sína námstækni og eru sjálfstæðari við að finna leiðir til að leysa verkefnin af hendi,“ segir Dagbjört. Fyrir þá sem eiga við ýmsa örðugleika að stríða við nám og skrift segir Dagbjört að spjaldtölvurnar komi að góðum notum. „Það verður auðveldara fyrir þau að skrifa, enda oft leiðréttingarforrit í tækinu og allskonar öpp sem gera þeim námið meira að leik,“ bætir hún við. Segir hún tæknina einnig hafa umbylt kennslunni almennt og að notast sé við speglaða kennslu. Þar hlusta krakkarnir á fyrirlestur um námsefnið heima og vinna svo verkefni því tengd í skólanum með aðstoð kennarans.

Vífilsskóli Hjallastefnunnar hefur sömu sögu að segja hvað varðar ágæti spjaldtölvunotkunar við skólastarfið, en skólinn hefur nýtt sér tæknina frá árinu 2011. Matthías Matthíasson, upplýsinga- og tækniráðgjafi Hjallastefnunnar, segir spjaldtölvur nýtast einkar vel í einstaklingsmiðaðri kennslu þar sem komið er til móts við hvern og einn nemanda. „Allir nemendur eru með sinn iPad og geta þannig gripið námsefnið á eigin hraða og með eigin nálgun,“ segir Matthías og bætir við að börnin eigi auðveldara með að einbeita sér að námsefninu. „Athygli þeirra helst á tækinu og texti sem þau hefðu áður átt erfitt með að einbeita sér að verður þeim mun aðgengilegri með þessari nálgun.“ segir Matthías að lokum.