Hræ Hrossin fóru líklega út á ísinn í slæmu veðri og lélegu skyggni.
Hræ Hrossin fóru líklega út á ísinn í slæmu veðri og lélegu skyggni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Drukknun hrossanna 12 í Bessastaðatjörn 20. desember sl. er ekki rakin til vanrækslu eigenda þeirra, heldur var um slys að ræða. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar um atvikið. Hrossin voru 55 talsins.

Drukknun hrossanna 12 í Bessastaðatjörn 20. desember sl. er ekki rakin til vanrækslu eigenda þeirra, heldur var um slys að ræða. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skoðunarskýrslu Matvælastofnunar um atvikið.

Hrossin voru 55 talsins. Þau höfðu náttúrulegt skjól í girðingunni en í reglugerð um velferð hrossa er kveðið á um slíkt. Þá var reglulegt eftirlit með hrossunum jafnt af hálfu ábyrgðaraðila, sem var hestamannafélagið Sóti, og eigenda þeirra. Skylt er samkvæmt sömu reglugerð að hafa eftirlit með útigangi hrossa að lágmarki einu sinni í viku en auk þess er kveðið á um aukið eftirlit t.d. við slæmar veðuraðstæður.

Snöggkólnuðu í ísköldu vatni

Óljóst er hvað rak hrossin út á ótryggan ísinn á tjörninni. „Sérlega hættulegar aðstæður sköpuðust við það að tjörnina lagði, með ótraustum ís snævi lögðum, samhliða miklu veðuráhlaupi á dimmasta tíma ársins,“ segir í skýrslunni.

Að öllum líkindum fóru hrossin út á ísinn þegar veðrið var sem verst, skyggni lítið og ísinn brotnaði samstundis undan þeim. Dýpið á tjörninni þar sem þau voru reyndist meira en 1,8 metrar. „Því má ætla að hrossin hafi snöggkólnað í ísköldu vatninu, máttur þeirra við umbrotin farið þverrandi fljótlega eftir fallið í vatnið og þau drukknað á skömmum tíma,“ segir í skýrslunni.

Rík hefð er fyrir því að smala hrossunum úr girðingunni síðasta laugardag fyrir jól. Innan hestamannafélagsins skapaðist umræða um að smala þeim fyrr vegna slæmrar veðurspár 16. og 17. desember. Félagið ákvað að flýta ekki smölun, en einn hrossaeigandi tók hross sín úr haganum áður en veðrið skall á.

Halda áfram ótrauð á nýju ári

„Það er gott að niðurstaða liggur fyrir og þetta er búið svo allir geti haldið áfram. Við svo sem gerðum okkur grein fyrir því að ekki var um vanrækslu að ræða. Við höfum verið með hross í þessari girðingu í ríflega 30 ár og aldrei lent í svona óhappi áður,“ segir Jóhann Þór Kolbeins, formaður hestamannafélagsins Sóta.

Beitarhólfið á Álftanesi hefur verið notað af hálfu hestamannafélagsins frá árinu 1980. Ekki er talin þörf á því að fóðra útigangshrossin á meðan haustbeit stendur yfir þar sem næg beit er talin vera fyrir hrossin. Holdafar hinna hrossanna sem voru í girðingunni var tekið út og kom það mjög vel út.

Haustbeit aftur að ári

„Það skapaðist leiðinleg umræða eftir þetta sem beindist sérstaklega að eigendum hrossanna. Ég held að öllum sé hollt að kynna sér aðstæður vel hverju sinni áður en fólk fellir dóma,“ segir Jóhann.

Hann býst ekki við öðru en að hagabeit verði áfram í þessu hólfi næsta haust, þrátt fyrir þetta slys. Hestamenn í Sóta eru flestir búnir að taka hrossin á hús og farnir að ríða út af krafti á nýju ári. thorunn@mbl.is