14. janúar 1964 Fyrsta Reykjavíkurskákmótið hófst. Þátttakendur voru fjórtán, þar af fimm erlendir. Einn þeirra var Tal, fyrrverandi heimsmeistari, en hann sigraði með 12½ vinning af 13 mögulegum.

14. janúar 1964

Fyrsta Reykjavíkurskákmótið hófst. Þátttakendur voru fjórtán, þar af fimm erlendir. Einn þeirra var Tal, fyrrverandi heimsmeistari, en hann sigraði með 12½ vinning af 13 mögulegum. Hálfri öld síðar voru 254 þátttakendur frá 35 löndum, þar af 28 stórmeistarar.

14. janúar 1976

Ólafur Jóhann Sigurðsson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, fyrstur Íslendinga. „Íslendingum öllum er mikill heiður sýndur,“ sagði Þjóðviljinn. Verðlaunin voru afhent 1. mars.

14. janúar 1982

Stórviðri gekk yfir Austurland. Harðast var það á Borgarfirði eystra en þar brotnuðu rúður í nær öllum húsum, meðal annars 22 rúður í félagsheimilinu.

14. janúar 1984

Páfi staðfesti helgi Þorláks biskups Þórhallssonar (f. 1133, d. 1193) og viðurkenndi hann sem verndardýrling íslensku þjóðarinnar. Messur hans eru 20. júlí og 23. desember.

14. janúar 1991

Geysir BA kom til Patreksfjarðar úr línuróðri út af Arnarfirði með stærstu ýsu sem vitað var að veiðst hefði við Ísland. Hún var 109 sentimetra löng og vó 8,5 kg slægð.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson