Vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hófst í síðustu viku eftir jólafrí starfsmanna. Í þessari fyrstu vinnuviku ársins voru boraðir 46 metrar Fnjóskadalsmegin og alls er nú búið að bora 3.

Vinna við gerð Vaðlaheiðarganga hófst í síðustu viku eftir jólafrí starfsmanna. Í þessari fyrstu vinnuviku ársins voru boraðir 46 metrar Fnjóskadalsmegin og alls er nú búið að bora 3.466 metra, sem eru 48,1% af heildarlengd ganganna, samkvæmt fréttavefnum 641.is. Lengd ganganna Fnjóskadalsmegin er komin í 771 metra og Eyjafjarðarmegin er lengdin orðin 2.695 m, en þeim megin er engin borun núna.

Í frétt 641.is kemur fram að verið sé að ljúka vinnu við að leggja bráðabirgðavatnslögn sem flytja á heita vatnið úr göngunum Eyjafjarðarmegin, en það hefur valdið töfum á framkvæmdunum.

Framkvæmdirnar hófust í júlí 2013. Upphaflega var gert ráð fyrir því að þeim myndi ljúka í lok næsta árs, en nú er búist við að verklokum seinki vegna vinnu við bergþéttingar og heitavatnsvandamálsins.