Skurðaðgerð Vinnuaðstaða skurðlækna er allt önnur og betri þegar notast er við aðgerðaþjarka.
Skurðaðgerð Vinnuaðstaða skurðlækna er allt önnur og betri þegar notast er við aðgerðaþjarka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Búið er að koma upp nýjum aðgerðaþjarka til skurðlækninga á Landspítalanum. Honum er komið fyrir á skurðstofugangi í elsta hluta sjúkrahússins og þurfti að framkvæma töluverðar húsnæðisbreytingar af því tilefni.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Búið er að koma upp nýjum aðgerðaþjarka til skurðlækninga á Landspítalanum. Honum er komið fyrir á skurðstofugangi í elsta hluta sjúkrahússins og þurfti að framkvæma töluverðar húsnæðisbreytingar af því tilefni. Eftir umfangsmikinn undirbúning er stefnt að því að taka aðgerðaþjarkann formlega í notkun í febrúar.

Söfnun fyrir þjarkanum hófst fyrir um tveimur árum Stofnað var sérstakt félag undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar, framkvæmdastjóra, til að stýra söfnuninni. Félagið verður lagt niður þar sem markmiðum söfnunarinnar hefur verið náð.

Að sögn Eiríks Jónssonar, yfirlæknis þvagfæraskurðlækninga Landspítalans, gekk söfnunin vonum framar, en alls söfnuðust 137 milljónir króna, sem eru rúmlega helmingur stofnkostnaðarins. Hinn helmingurinn kemur af fjárveitingum til LSH.

„Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök lögðu peninga í söfnunina og það kom greinilega fram hvað það er mikill vilji og geta í samfélaginu til þess að leggja slíku verkefni lið. Með þessu tæki erum við að bæta meðferð og ekki síður að laða til okkar fólk sem er að koma að utan til starfa hér og hefur kynnst þessari tækni ytra,“ segir Eiríkur.

„Þetta er aðferðafræði og tækjabúnaður sem mun þannig hafa margvísleg áhrif. Það er líka mikil hvatning fyrir okkur öll að geta fylgt fordæmi nágrannalanda okkar, jafnvel hvað umfangsmiklar nýjungar í heilbrigðismálum varðar.“

Viðráðanlegur biðlisti

Aðgerðaþjarki er í notkun á helstu sjúkrahúsum í nágrannalöndunum og nýtist til margvíslegra skurðaðgerða, sérstaklega við þvagfæraskurðlækningar sem og aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna. Inngripið verður minna en með hefðbundinni aðferð, hægt að hlífa betur nærliggjandi líffærum og viðkvæmri starfsemi og stuðla þannig að skjótari bata. Segja má að þjarkinn sé framlenging á fingrum skurðlæknisins þannig að allar hreyfingar hans verði nákvæmari.

Eins og áður segir verður tækið tekið formlega í notkun í febrúar og er þegar kominn listi af aðgerðum í því. „Það hefur óneitanlega verið bið eftir að þetta tæki yrði tekið í notkun. Það verður að teljast eðlilegt þegar tekin er upp ný aðferðafræði og því ákveðinn fjöldi sem bíður aðgerða en við teljum þetta allt vera innan ásættanlegra marka,“ segir Eiríkur.