Aðbúnaður Lögfræðingur segir að setja þurfi lög þess efnis að vestræn fyrirtæki og kaupendur beri ábyrgð á verksmiðjum sínum í Asíu.
Aðbúnaður Lögfræðingur segir að setja þurfi lög þess efnis að vestræn fyrirtæki og kaupendur beri ábyrgð á verksmiðjum sínum í Asíu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Davíð Már Stefánsson davidmar@mbl.is Þrátt fyrir að meira en tvö ár séu liðin frá því að 255 starfsmenn létust í miklum eldsvoða í fataverksmiðju í pakistönsku borginni Karachi hefur enginn verið lögsóttur.

Baksvið

Davíð Már Stefánsson

davidmar@mbl.is

Þrátt fyrir að meira en tvö ár séu liðin frá því að 255 starfsmenn létust í miklum eldsvoða í fataverksmiðju í pakistönsku borginni Karachi hefur enginn verið lögsóttur. Stórslysið er eitt það mannskæðasta í sögu Pakistan en brunarústir verksmiðjunnar, sem eru í eigu Ali Enterprises, standa enn óhreyfðar sem minnisvarði um atburði sem margir virðast vilja að falli í gleymsku.

„Sjúga blóð úr þeim fátæku“

Í fataverksmiðjunni var framleiddur ódýr fatnaður ætlaður vestrænum fatakeðjum en rannsókn leiddi í ljós hræðilegan aðbúnað starfsmanna verksmiðjunnar. Enginn neyðarútgangur var í verksmiðjunni og þegar eldurinn braust út köstuðu margir starfsmenn sér út í gegnum glugga á fjórðu hæð hússins. Öllum brunavörnum var ábótavant og lokuðust starfsmennirnir inni á hæðum hússins og áttu engan möguleika á að forða sér lifandi úr eldhafinu.

„Það er verið að sjúga blóðið úr þeim fátæku. Við erum öll ólæs og ómenntuð og eigendur verksmiðjunnar og samstarfsmenn þeirra í Evrópu nýta sér þessa veikleika okkar,“ segir Nazia Parveen, ekkja starfsmanns sem brann til ösku í eldsvoðanum sem braust út 11. september árið 2012, í viðtali við AFP-fréttaveituna.

„Við áttuðum okkur á þessu þegar við fengum greiddar skaðabæturnar,“ segir hún en þess má geta að sumir starfsmannanna fengu greiddar um 130 krónur á dag fyrir vinnu sína í verksmiðjunni á meðan þeir sem voru á hæsta kaupinu fengu rúmar tíu þúsund krónur á mánuði. Í dag hafa fjölskyldur fórnarlambanna samtals fengið rúmar tvö hundruð milljónir króna í skaðabætur frá eigendum verksmiðjunnar og þýska fyrirtækinu KiK sem keypti framleiðslu þess.

Vanhæft réttarkerfi

KiK er þýskt fyrirtæki en eldsvoðinn er ekki eini smánarbletturinn í sögu fyrirtækisins. Í apríl árið 2013 létust 1.127 manns þegar illa útbúin verksmiðja hrundi til grunna í Bangladess. KiK var meðal kaupenda á framleiðslu fyrirtækisins, ásamt tuttugu og níu öðrum fyrirtækjum, en KiK var eitt þeirra fyrirtækja sem neituðu að skrifa undir samning þess efnis að greiða skyldi fórnarlömbum ákveðnar skaðabætur. Fyrirtækin Walmart og Mango voru sama sinnis, en Primark, Loblaw og nokkur önnur fyrirtæki skrifuðu undir samninginn.

Morðrannsókn var hafin í kjölfar brunans í Pakistan og beindist hún þá aðallega að eigendum verksmiðjunnar, en eins og áður segir hafa engin réttarhöld átt sér stað.

„Þetta sýnir bæði hversu vanhæft réttarkerfið er og einnig hversu lítil réttindi verkamanna í Pakistan eru,“ sagði Faisal Siddiqui, lögfræðingur fjölskyldna fórnarlambanna, fyrir skemmstu um það hví málið hefði ekki verið tekið fyrir í rétti. Útflutningur fatnaðar sem unninn er af verksmiðjustarfsmönnum sem flestir fá rúmar tíu þúsund krónur í mánaðarlaun er meira en helmingur af útflutningi Pakistan en megnið fer beint á evrópskan markað. Vegna lélegs aðbúnaðar í verksmiðjum þar í landi hefur Evrópusambandið meðal annars veitt Pakistönum ákveðna tolla-undanþágu með það að markmiði að bæta aðbúnað í fataverksmiðjum þar í landi. Evrópuþingið skipaði fatakeðjum að sama skapi að endurskoða verksmiðjur sínar í Pakistan og krafðist þess jafnframt að búið yrði til nýtt eftirlitskerfi sem ætti að fylgjast með aðbúnaði í viðkomandi verksmiðjum. Þessu hefur ekki verið fylgt eftir.

Setja þarf ný lög

„Það hefur vissulega verið pressa á stórfyrirtækjum að bæta aðbúnað í verksmiðjum sínum. Þetta er þó engin góðgerðarstarfsemi, fyrirtækin vilja bara vera fullviss um að verða ekki tengd við nýtt hneyksli,“ sagði opinber atvinnugreinastarfsmaður við AFP-fréttaveituna um hneykslin tvö með skilyrði um nafnleynd. Mörg erlend fyrirtæki eru jafnframt treg til að senda eigin starfsmenn til að skoða aðbúnað í verksmiðjum á borð við þá í Karachi og bera þá gjarnan fyrir sig hættu á hryðjuverkaárásum. Það eru því oft heimamenn sem sjá um öryggiseftirlit í verksmiðjunum en erfitt getur verið að treysta slíkum upplýsingum þar sem opinberir eftirlitsmenn eru alræmdir fyrir að þiggja mútur. Skömmu fyrir eldsvoðann í Pakistan hafði Ali Enterprises, eiganda verksmiðjunnar, til að mynda verið gefið falsað öryggisvottorð frá fyrirtæki sem grunað er um að halda uppi sviknu öryggiseftirliti með um hundrað pakistönskum verksmiðjum.

Að sögn Siddiqui, lögfræðings fjölskyldna fórnarlambanna, er aðeins ein lausn í boði; setja þarf lög þess efnis að vestræn fyrirtæki og kaupendur séu ábyrgir fyrir verksmiðjum sínum í Asíu.

„Þegar það verður orðið svo, að harmleikur á borð við brunann í Karachi hafi veruleg áhrif á fyrirtæki í Berlín, Amsterdam, París eða Ítalíu, þá fara hlutirnir að skipta máli fyrir þau,“ segir hann.