Glæsilegt Hið 17 þúsund fermetra Fosshótel Reykjavík verður með 320 herbergi á 16 hæðum. Á efstu hæð verða sjö glæsilegar svítur.
Glæsilegt Hið 17 þúsund fermetra Fosshótel Reykjavík verður með 320 herbergi á 16 hæðum. Á efstu hæð verða sjö glæsilegar svítur.
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Ferðamannablaðran er langt frá því að springa og má gera ráð fyrir að önnur milljón af ferðamönnum heimsæki Íslands á þessu ári.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Ferðamannablaðran er langt frá því að springa og má gera ráð fyrir að önnur milljón af ferðamönnum heimsæki Íslands á þessu ári. Nákvæmar tölur liggja ekki fyrir um hversu margir ferðamenn heimsóttu landið á síðasta ári en séu gestir skemmtiferðaskipa teknir með var fjöldinn vel yfir milljón.

Íslandshótel reka í dag 14 hótel um allt land, Grand Hótel Reykjavík, Hótel Reykjavík Centrum og Best Western Hótel Reykjavík, auk Fosshótelanna og stærsta hótels landsins, Fosshótels Reykjavík, sem nú rís við Höfðatorg í Reykjavík og verður opnað í júní næstkomandi.

Bókunarstaða Íslandshótela er góð og á áætlun að sögn Óskar Heiðu Sveinsdóttur, markaðsstjóra Íslandshótela, og horfa þau björtum augum til framtíðar. „2015 fer vel af stað en við höfum miklar væntingar til ársins, margar dagsetningar, sérstaklega yfir hásumarið, eru þegar orðnar uppbókaðar og vel það þannig að við getum ekki annað en verið ánægð með stöðuna. Við eigum von á miklum fjölda gesta til landsins og við tökum að sjálfsögðu vel á móti þeim.“

Stærsta hótel landsins

„Við tökum á móti fjölda á hverju ári og var meðal annars fullbókað á Grand Hótel Reykjavík yfir jól og áramót, en Grand Hótel Reykjavík er í dag stærsta hótel landsins.“ Ósk Heiða segir að hún sjái aukna eftirspurn eftir gistirými hjá Íslandshótelum úti á landi en alls rekur keðjan 14 hótel og þar af 9 á landsbyggðinni. Nýjasta hótelið í keðjunni er Fosshótel Hekla, sem bættist við í byrjun árs. „Það er mjög mikil eftirpurn eftir gistirými í Reykjavík og verður áfram, en eftirspurnin hefur aukist mikið eftir gistirýmum úti á landi, sem er eitthvað sem við verðum að huga að, að dreifa fjöldanum um landið og bjóða gestum okkar upp á góða valkosti. Í janúar bættist við í okkar flóru Fosshótel Hekla, í fyrra var það Fosshótel Núpar, við fórum í miklar endurbætur og stækkun á Fosshótel Vatnajökli og Fosshótel Austfirðir var opnað í gamla franska spítalanum á Fáskrúðsfirði síðasta sumar. Það hótel er einstakur demantur í okkar flóru, mæli með heimsókn þangað,“ segir hún ánægð en enn ánægðari verður hún þegar hún er spurð út í Fosshótel Reykjavík sem verður með 320 herbergi, stærsta hótel landsins. „Hótelið verður opnað í júní og er fyrir löngu byrjað að bóka herbergin á hótelinu. Það er mikið að gera og allt á fullu í framkvæmdum, þetta þarf jú allt að vera tilbúið á réttum tíma.“