Ingibjörg fæddist 12. ágúst 1924 á Eyrarbakka. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk, 29. desember 2014.

Foreldrar hennar voru Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja, f. 5. mars 1886 á Eyrarbakka, d. 12. ágúst 1986, og Sigurður Gísli Guðmundsson bankamaður, f. 26. nóvember 1878 á Eyrarbakka, d. 22. maí 1976. Systkini Ingibjargar eru Baldur, f. 1906, d. 1999, Guðmundur, f. 1907, d. 1996, Ástríður, f. 1910, d. 2006, Hlíf, f. 1912, d. 1978, Ólafur, f. 1915, d. 1995, Páll, f. 1916, d. 2007, Geirmundur, f. 1918, d. 2005, Garðar, f. 1922 og Sólrún, f. 1928, d. 2013.

Ingibjörg giftist árið 1957 Guðjóni Karlssyni, f. 15. september 1929. Foreldrar hans voru Guðrún Steinsdóttir húsfreyja, f. 30. september 1888, d. 5. júní 1983, og Ágúst Karl Guðmundsson, útgerðarmaður og skipstjóri, f. 20. ágúst 1891, d. 22. október 1942. Börn Ingibjargar og Guðjóns eru: Sigurður, f. 8. júlí 1957, maki Edda Thors, f. 9. apríl 1961. Börn: a) Ellen, f. 8. september 1996, og b) Vala, f. 20. febrúar 1999. Barn Sigurðar: c) Ingibjörg Ósk, f. 6. október 1987, maki Björn Steinar Pétursson, f. 15. október 1983. Barn: Birta Karen, f. 13. febrúar 2012. Móðir Ingibjargar Óskar er Guðrún Sigríður Vilhjálmsdóttir. Bryndís, f. 27. febrúar 1959, maki Ágúst Harðarson, f. 25. maí 1955. Börn: a) Hörður, f. 24. október 1979, maki Svala Hjörleifsdóttir, f. 10. mars 1984. Börn: Matthildur Eva, f. 12. nóvember 2008 og Hrafnhildur Lilja, f. 30. maí 2010. b) Guðjón Ingi, f. 19. nóvember 1982, maki Elín Þórólfsdóttir, f. 16. ágúst 1983. Börn: Bryndís Hekla, f. 20. janúar 2011 og Bergur Ingi, f. 28. október 2012. c) Eva Ingibjörg, f. 6. maí 1992. Karl Ingi, f. 21. ágúst 1962, maki Katrín Westlund, f. 9. febrúar 1966. Barn: Katrín Ása, f. 22. október 1995. Steinn, f. 21. janúar 1964, maki Brynja Guðmundsdóttir, f. 11. ágúst 1966. Börn: a) Kári, f. 10. júlí 1992 og b) Bára, f. 19. nóv. 1997.

Ingibjörg ólst upp með foreldrum sínum og níu systkinum, fyrst í Guðmundarhúsi og svo á Búðarhamri á Eyrarbakka. Hún var næstyngst og gekk í Barnaskólann á Eyrarbakka og Reykjaskóla í Hrútafirði. Fór í kaupavinnu að Laugardælum og norður í land tvö sumur og þótti mjög gaman. Var au pair í Stokkhólmi árið 1946 hjá Ólafi Tryggvasyni og Önnu Sigríði Lúðvíksdóttur. Þar lærði hún postulínsmálningu hjá frú Agerblom. Ingibjörg stundaði myndlistarnám og var ákaflega listræn og hugmyndarík. Ingibjörg vann á Heklunni, þar kynntist hún eiginmanni sínum. Ingibjörg og Guðjón bjuggu í Laugarnesinu þar sem börnin ólust upp í góðu yfirlæti. Síðan í Bakkagerði og Sóleyjarima. Síðastliðin tvö ár bjuggu Ingibjörg og Guðjón á hjúkrunarheimilinu Mörk. Guðjón býr áfram í Mörkinni.Útför Ingibjargar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag, 14. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 15.

Mamma var listakona og undi sér oftast best ein í listinni eða úti í garði að gera hann fullkominn, henni leiddist aldrei, hún gat dundað sér fram eftir öllum kvöldum við að búa eitthvað til í höndunum, svo var ekki leiðinlegt fyrir okkur krakkana að fá að leira, búa til skartgripi, teikna og föndra með henni svo til allt milli himins og jarðar. Henni þótti ekki mikið mál að passa önnur börn svona meðfram því að sinna heimilinu og listinni, þetta var eins og að vera á fullkomnum leikskóla, börnin fengu að taka þátt í öllu sem hún tók sér fyrir hendur þann daginn. Á sínum yngri árum var hún líka að smíða húsgögn og fleiri hluti sem hún málaði gjarnan munstur á eða myndir.

Hún kenndi manni að sjá eitthvað fallegt og jákvætt út úr öllum hlutum. Í óteljandi fjöruferðum var tínt fjörugrjót, baggalútar og rekaviður sem nýtt var til að búa til fallega hluti.

Það var ósjaldan stoppað einhvers staðar í sveitinni til að mamma gæti rölt um í náttúrinni og í rólegheitum skoðað holtagrjótið, blómin og fuglana og alltaf passaði hún að ekki sæist eftir hana sár í gróðrinum ef hún tók einn og einn stein með sér heim.

Mamma hafði svo marga hæfileika og hafði ekki mikið fyrir listinni.

Þurfti bara að heyra lag einu sinni til að geta spilað það, eftir hana eru til margar fallegar myndir og voru blómin hennar aðal.

Allt var gert fullkomlega og góður tími gefinn í að útfæra atriði sem enginn gat komið auga á. Hún var yfirveguð og fordómalaus í öllum samskiptum og í því sem hún tók sér fyrir hendur.

Umhyggjan og þolinmæðin hjá mömmu var ólýsanleg, gleymi aldrei fuglasöngnum í kringum heimili okkar, hafði alltaf miklar áhyggjur af því að fuglar og eiginlega allir væru svangir og geymdi alla afganga sem nýttust til að gefa fuglunum sínum, jafnvel fór ein og ein pönnukaka með.

Eitt sinn er Brynja konan mín og ég bjuggum hjá þeim fórum við á árshátíð. Pabbi tók ekki annað í mál en að sækja okkur og svo þegar við komum heim, klukkan þrjú um nóttina, var mamma að baka pönnukökur handa okkur.

Hundurinn okkar hún Donna er búin að kynnast þessu dekri hjá mömmu og pabba síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Mörk.

Starfsfólkinu á Mörk, sem er einstaklega hlýlegt og gott, viljum við þakka fyrir góða hjálp og umhyggju.

Takk fyrir samfylgdina og gæðastundirnar mamma mín,

þinn sonur,

Steinn.

Heimili Imbu og Gauja, fullt af yndislegum börnum og tömdum gára, þ.e. litlum páfagauk. Þessi fjölskylda hafði alltaf heillað og laðað mig að sér.

Gaui svo duglegur og framtakssamur, Imba svo róleg og íhugul, hugsandi um það listhandverk sem hún ætlaði að sökkva sér niður í þegar allir væru sofnaðir. Allt sem hún gerði í ró næturinnar bar vitni um mikla listræna gáfu og hagleik. Sem barn var ég hugfangin af því sem Imba bjó til og það hefur fylgt mér alla ævi. Hún var hlýjasta og besta frænka sem ég hef átt.

Gaui og börnin alltaf til í að hjálpa mér, sem stóð oft í flutningum framan af ævi. Þau smituðu mig af gárum, sem hafa verið mín uppáhaldsdýr og eru enn.

Imba var kona sem mun alltaf eiga stóran sess í hjarta mínu.

Ása Ólafsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku mamma mín, ég þakka þér fyrir allt og allt. Allar minningarnar og hvað þú varst okkur öllum alltaf góð og best. Við pössum pabba, mamma mín, eins vel og hann passaði þig alltaf.
Þótt móðir mín
sé nú aðeins minningin ein
mun ég ávallt minnast hennar
með glöðu geði
og dýpstu virðingu,
hugheilu þakklæti
og hjartans hlýju,
fyrir allt og allt.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Þín dóttir,
Bryndís.