[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnur fæddist í Stykkishólmi 14.1. 1955, ólst upp í Hrísdal í Miklaholtshreppi í stórfjölskyldu með foreldrum, afa, ömmu, sjö systkinum og ýmsum ættingjum.

Unnur fæddist í Stykkishólmi 14.1. 1955, ólst upp í Hrísdal í Miklaholtshreppi í stórfjölskyldu með foreldrum, afa, ömmu, sjö systkinum og ýmsum ættingjum.

Unnur var í farskóla og Laugargerðisskóla, lauk landspróf frá Héraðsskólanum á Laugarvatni, stundaði nám við MH og lauk námi í tækniteiknun við Iðnskólanum í Reykjavík: „Ég á skemmtilegar minningar frá Laugarvatni. Þar eignaðist ég frábærar vinkonur, fór á fyrstu böllin, tók fyrsta smókinn og varð fyrst skotin.“

Unnur stundaði nám í fatahönnun í Kaupmannahöfn 1983-86, lauk prófum í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ, stærðfræðikennaraprófi frá HÍ og er nú í meistaranámi í stærðfræðikennslu þar.

Unnur var búsett á Hellu á Rangárvöllum 1972-79 og vann þar á Skattstofu Suðurlands en starfaði síðan hjá Ríkisskattstjóra.

Við heimkomuna frá Kaupmannahöfn var Unnur ráðgjafi hjá Iðntæknistofnun og síðar hjá Iðnþróunarfélagi Norðurlands vestra, búsett á Blönduósi frá 1987, var síðan kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd en flutti í Sandgerði 2001, kenndi þar og síðan í Holtaskóla í Reykjanesbæ frá 2007 og býr í Keflavík frá 2013.

„Höfðaskóli á Skagaströnd var einstakur vinnustaður og vinnufélagarnir frábærir, starfsaðstæður mjög góðar og óvissuferðirnar og jólafrokostarnir með mínum lífsglöðu samkennurum ógleymanlegir sem og andríkið á kennarastofunni.“

Sáttasemjari Alþýðubandalags

Unnur var gjaldkeri Alþýðubandalagsins um skeið, sat í bæjarstjórn Blönduóss í fjögur ár, var formaður Kennarasambands Norðurlands vestra, sat í samninganefnd Félags grunnskólakennara, var formaður nefndar um erlenda fjárfestingu og hefur verið virk í Samfylkingunni svo eitthvað sé nefnt.

„Það var stundum basl í gjaldkerastöðunni hjá Alþýðubandalaginu því formaðurinn var Ólafur Ragnar og varaformaðurinn Steingrímur J.. Við Anna Kristín, ritari flokksins, litum á okkur sem friðflytjendur þegar þeim herrunum kom ekki saman. Ég stóð mig hinsvegar illa sem gjaldkeri því fjárhagur flokksins batnaði ekkert.“

Þú átt fjölþjóða fjölskyldu?

„Já, ég er stolt af þessum fjölmenningarhópi. Ég kenni íslensku sem annað mál og átti þýska móður, Sturla var við nám og vinnu í Heidelberg í Þýskalandi í sjö ár, dætur mínar búa í Kaupmannahöfn, Snorri og fjölskylda bjuggu í San Fransisco og við eigum danska og franska tengdasyni. Við þetta bætast svo vinir í Danmörku og Þýskalandi.“

Fjölskylda

Eiginmaður Unnar er Sturla Þórðarson, f. 14.11. 1946, tannlæknir. Hann er sonur Þórðar Pálssonar, f. 25.12. 1918, d. 9.6. 2004, bónda og kennara í Sauðanesi og víðar, og Sveinbjargar Jóhannesdóttur, f. 26.12. 1919, d. 6.6. 2006, húsfreyju.

Dætur Unnar eru María Birna Arnardóttir, f. 11.11. 1973, líffræðingur við rannsóknarstörf í Kaupmannahöfn, og eru dætur hennar og Davíðs Bjarnasonar Ísafold, f. 1999, og Laufey, f. 2003, og Guðmunda Sirrý Arnardóttir, f. 25.2. 1977, ráðgjafi í Kaupmannahöfn, gift Per Funder Nielsen og er sonur þeirra Christian Örn, f. 2008.

Börn Sturlu eru Snorri Sturluson, f. 25.9. 1969, tölvunarfræðingur hjá CCP í Reykjavík, kvæntur Guðrúnu Birnu Finnsdóttur, sérfræðingi hjá Ríkiskaupum og eru börn þeirra Sif, f. 1996, Baldur, f. 2003, og Bragi, f. 2012, og Auður Sturludóttir, f. 24.11. 1975, nemi í frönsku við HÍ en börn hennar eru Sunna, f. 2005, og Óskar, f. 2008, og stjúpdóttirin Elísa Petra, með sambýlismanni Auðar, Benjamín Bohn.

Systkini Unnar Úrsúla, f. 1953, húsfreyja í Grindavík; Snjólaug, f. 1956, d. 1959; Matthildur, f. 1957, býr í Svíþjóð; Sigurður, f. 1958, fyrrv. bóndi, býr í Borgarnesi; Hjálmur, f. 1959, d. 1968; Hjördís, f. 1960, lífskúnstner, býr í Borgarnesi og víðar; Guðrún, f. 1962, veitingamaður í Borgarnesi.

Foreldrar Unnar voru Kristján Erlendur Sigurðsson, f. 7.9. 1920, d. 2.1. 1987, bóndi í Hrísdal, og k.h., María Lovísa Eðvarsdóttir, f. 19.2. 1925, d. 14.3. 2011, kennari og organisti.