Karl Björnsson
Karl Björnsson
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Í síðustu þrennum sveitarstjórnarkosningum hefur um 55% endurnýjun átt sér stað meðal sveitarstjórnarmanna í hverjum kosningum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Í síðustu þrennum sveitarstjórnarkosningum hefur um 55% endurnýjun átt sér stað meðal sveitarstjórnarmanna í hverjum kosningum. Segir frá þessu í forystugrein Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nýverið birtist í ritinu Sveitarstjórnarmál. Í ljósi þessa hefur sambandið nú ákveðið að ráðast í könnun með það að markmiði að greina ástæður þessarar miklu endurnýjunar.

„Við teljum eðlilegt að fá utanaðkomandi aðila til þess að framkvæma úttekt á launakjörum og starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna í von um að fá fram skýringu á þessari miklu endurnýjun sem átt hefur sér stað hverju sinni,“ segir Karl og bætir við að einnig þurfi að koma til skoðunar vinnutími þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórnum.

Hlutur kvenna aukist mjög

Spurður hvort hann viti til þess hvort sambærileg endurnýjun eigi sér stað innan nágrannaríkja okkar kveður Karl nei við. „Það er eitt af þeim atriðum sem við munum skoða, þ.e. hvort þessi mikla endurnýjun sé óeðlileg í samanburði við önnur ríki,“ segir hann en hafist verður handa við verkefnið strax á þessu ári.

Þá kemur einnig fram í áðurnefndri grein að hlutur kvenna í sveitarstjórnum heldur áfram að aukast mjög. Árið 1990 var hann um 22% en er nú 44%.