Illur endir á góðum málstað

Einn þekktasti dálkahöfundur Sunday Times, Dominic Lawson, skrifaði nýlega um rannsóknarnefndir og árangur þeirra. Slíkar nefndir voru næstum nýlunda á Íslandi, en býsna algengar í Bretlandi.

Síðustu árin hafa birst skelfilegar fréttir af ofbeldi gegn börnum þar í landi, ekki síst börnum sem voru undir forsjá og „vernd“ yfirvalda. Sögur um níðingsverk inni á slíkum stofnunum eru því miður þekktar. Einnig hér á landi. En frá Bretlandi hafa bæst við frásagnir um að mönnum, óviðkomandi þessum stofnunum, hafi verið „veittur aðgangur“ að börnum, svo ótrúlega og ógurlega sem það hljómar. Við það bætist að öruggt er nú talið að ýmsir valda- og áhrifamenn hafi verið í þeim hópi.

Innanríkisráðherrann, Theresa May, telur óhjákvæmilegt að rannsaka málið en hefur verið í vandræðum með að finna rannsakanda sem sátt næðist um. Dómarinn sem fyrst var skipaður til verks, barónessan Butler-Sloss, fyrsta konan til að verða áfrýjunardómari í Bretlandi og sú kvenna sem hlotið hefur mestan dómaraframa, baðst undan skipun ráðherrans er „fórnarlömbin“ og talsmenn þeirra sögðu hana í of nánum tengslum við „kerfið.“ Breytti engu þótt ferill hennar sýndi hana mjög harðsnúna gagnvart kynferðisbrotamönnum.

Woolf, sem tók sæti hennar, laut sömu örlögum. Hún var sögð hafa átt „félagsleg tengsl“ við menn úr „kerfinu“ sem kynnu að liggja undir grun um misneytingu.

Innanríkisráðherrann var gagnrýndur fyrir að láta fyrirhugaða rannsókn „einungis“ ná aftur til ársins 1970! Innanríkisráðherrann telur óhjákvæmilegt að ganga mjög langt til að sefa megi reiði bresku þjóðarinnar eftir uppljóstranir um stórfellt kynferðislegt ofbeldi innan heilbrigðisþjónustunnar og alveg sérstaklega innan BBC. Sú stofnun hafi ekki aðeins „þolað“ heldur litið vinsamlega á glæpsamlega framgöngu sjónvarpsstjörnunnar Jimmy Savile (og raunar fleiri frægra starfsmanna sinna), sem var á vitorði forsvarsmanna BBC árum saman. Ákvað innanríkisráðherrann að rannsakandinn (og fjölmennur hópur aðstoðarmanna) skyldi rannsaka ásakanir um barnaníð frá 1970 til þessa dags af hálfu „ráðuneyta, þingsins, ráðherra, lögreglu, ákæruvalds, skóla, jafnt opinberra sem einkaskóla, skóladagheimila, starfsemi sveitarfélaga, gæsluheimila, barnaverndarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, fangelsa og öryggisþjónustu, kirkjunnar og annarra trúardeilda, stjórnmálasamtaka og hersins.“

Lawson bendir á að Saville lávarður hafi á sínum tíma verið fenginn til að rannsaka árásina sem kölluð var „Hinn blóðugi sunnudagur“, skothríð á mótmælendur í Londonderry.

Sá atburður stóð í liðlega tvær klukkustundir. Rannsókn lávarðarins stóð hins vegar í 12 ár og kostaði 40 milljarða (í krónum talið). Dominic Lawson telur augljóst að fá fórnarlambanna muni lifa það að sjá þá skýrslu sem nú er verið að reyna að hleypa af stokkunum, verði henni þá nokkru sinni skilað. Hitt sé öruggt að einir 20 lögfræðingar verði yfirgengilega ríkir menn þegar þeir hætta loks að vinna að skýrslunni.

Þetta er áhugavert. En hvað kemur það okkur við? Okkar skýrslur, eftir að skýrslufár hófst hér á landi, kostuðu bara fáeina milljarða. Og þær voru birtar, svona að mestu. Og þótt þær lökustu væru hneyksli þá var töluverður fróðleikur falinn í sumum þeirra, þótt skort hafi á fagmennsku og hlutlægni. Lawson telur í sinni grein að miklu meira vit væri í því að treysta lögregluyfirvöldum fyrir svona rannsóknum, þar sem lagarammi þeirra væri ljós og öllum kunnur. Líkur á árangri væru mun raunhæfari, þótt þau fengju aðeins hluta af þeim fjármunum sem sóað væri í skýrslurnar. Og þá víkur málinu enn hingað heim. Það er sérkennilegt mjög að eftir að hafa kastað milljörðum í gölluðu skýrslurnar skuli ákveðið að kippa teppinu undan Sérstökum saksóknara og ákæruvaldinu á síðustu metrunum í þeirra vinnu.

Kannski verður einhvern tíma skrifuð margorð „rannsóknarskýrsla“ um það, hvers vegna í ósköpunum það var gert.