Framkvæmdir Búið er að rífa mörg hús í 101 Reykjavík vegna áforma um að reisa í staðinn hótel eða gistiheimili.
Framkvæmdir Búið er að rífa mörg hús í 101 Reykjavík vegna áforma um að reisa í staðinn hótel eða gistiheimili. — Morgunblaðið/Golli
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Mjög erfitt er orðið fyrir almenning að fá leiguíbúðir í miðbæ Reykjavíkur. Þær íbúðir sem losna fara í mörgum tilvikum undir gistirými fyrir erlenda ferðamenn og leiguverðið er orðið mjög hátt.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Mjög erfitt er orðið fyrir almenning að fá leiguíbúðir í miðbæ Reykjavíkur. Þær íbúðir sem losna fara í mörgum tilvikum undir gistirými fyrir erlenda ferðamenn og leiguverðið er orðið mjög hátt.

Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri leigumiðlunarinnar Húsaleiga.is, segir að þetta sé ekki bara bundið við miðbæinn og póstnúmerið 101, í raun sé framboðið á leigumarkaði afar takmarkað vestan Elliðaáa.

„Það er í raun magnað ef finnast íbúðarhæfar eignir í miðbænum. Mikið af þessu hefur farið út af markaðnum í leigu til ferðamanna og sáralítið í boði fyrir almenning. Hið eina sem hefur verið byggt almennilega í miðbænum eftir 2007 er fyrir ferðaþjónustuna, að undanskildum nokkrum íbúðum fyrir námsmenn,“ segir Svanur og bætir við að leiguverðið á markaðnum sé orðið alltof hátt og „út úr öllu korti“.

„Þörfin á leigumarkaði hefur komið til vegna þess hve erfitt hefur verið fyrir ungt fólk að fjármagna sín fyrstu íbúðarkaup. Skuldsetningin er of mikil og eina leiðin hefur verið sú að fara út á leigumarkaðinn. Sú leið er hins vegar varla í boði lengur fyrir venjulegt fólk. Meira að segja er orðið minna framboð á leiguíbúðum í úthverfum borgarinnar. Flæðið hefur stöðvast því fólk skiptir ekki um leiguhúsnæði eða stækkar við sig nema að hafa tryggt sér fyrst annað húsnæði,“ segir Svanur.

Hann gagnrýnir jafnframt borgaryfirvöld fyrir það hvernig skipulagsmálum hefur verið háttað í miðbænum.

„Allt skipulagið hjá borginni hefur byggst á að þétta byggð í 101 og leyfa þar breytingar á íbúðum fyrir hótelrekstur. Ekki hefur verið horft til þarfa almennings, ungs fólks og stúdenta nema að mjög takmörkuðu leyti.“

Lítil íbúð á 200 þúsund

Ung kona, sem leigt hefur íbúð í miðbænum, en vildi ekki koma fram undir nafni, hefur sömu sögu að segja og Svanur.

Hún er að missa sína leiguíbúð í vor og leit að annarri íbúð á svipuðu svæði hefur engu skilað ennþá.

„Fyrir venjulegt fólk er orðið mjög erfitt að finna leiguíbúðir á þessu svæði. Það er greinilegt að flestar íbúðir í 101 eru komnar undir gistirými fyrir ferðamenn og síðan er verðið orðið mjög hátt,“ segir konan við Morgunblaðið en algengt er að einstaklingsíbúð í 101 sé leigð á 200 þúsund krónur á mánuði og stundum er beðið um fyrirframgreiðslu. Það er ekki á allra færi að leggja fram 600 þúsund krónur fyrirfram, eins og stundum er beðið um. Konan segist hafa prófað að leita aðeins út fyrir 101 en þar sé staðan lítið betri.

„Það hentar mér best að búa í miðbænum, ég vinn mest á því svæði og er ekki á bíl,“ segir hún og beinir því til borgaryfirvalda að hafa miðbæinn betur blandaðan. Allt stefni í að hlutfall gistirýmis verði orðið mjög hátt. Bendir hún á að t.d. í Svíþjóð séu takmarkanir settar á það hve hótel- og gistirými sé mikið á ákveðnum svæðum.