Þrenna Atli Viðar Björnsson skoraði þrennu í sigri FH í gærkvöld.
Þrenna Atli Viðar Björnsson skoraði þrennu í sigri FH í gærkvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrír erlendir leikmenn hafa verið til reynslu hjá knattspyrnuliði FH undanfarið og Heimir Guðjónsson, þjálfari liðsins, reiknar með að samið verði við þá alla.

Þrír erlendir leikmenn hafa verið til reynslu hjá knattspyrnuliði FH undanfarið og Heimir Guðjónsson, þjálfari liðsins, reiknar með að samið verði við þá alla. Um er að ræða tvo senegalska leikmenn, miðjumanninn Alain-Pierre Mendy og kantmanninn Amath Diedhiou, og belgíska kantmanninn Jérémy Serwy.

„Þeir hafa staðið sig vel og ég reikna með því að við semjum við þá alla. Þeir hafa fallið vel inn í leik liðsins og ég býst við að við reynum að ná samningum við þá,“ sagði Heimir við vefmiðilinn Fótbolta.net.

Allir léku leikmennirnir með FH í 7:1-stórsigri á Þrótti R. í Fótbolta.net-mótinu í gærkvöld og skoraði Serwy meðal annars beint úr aukaspyrnu. Atli Viðar Björnsson skoraði þrennu fyrir FH í leiknum.

FH hefur einnig verið með miðvörðinn Hlyn Atla Magnússon til skoðunar en Heimir segir óvíst hvort samið verði við hann.

FH hefur misst sterka leikmenn frá síðasta tímabili en þar á meðal eru Ingimundur Níels Óskarsson, Ólafur Páll Snorrason og Hólmar Örn Rúnarsson. Þá hafði félagið fengið til sín Finn Orra Margeirsson, fyrirliða Breiðabliks, en varð að láta hann fara þegar boð barst frá Lilleström í Noregi. sindris@mbl.is