Stundar útivist Júlíana stödd í Lónsöræfum árið 2012.
Stundar útivist Júlíana stödd í Lónsöræfum árið 2012.
Júlíana Rún Indriðadóttir er aðstoðarskólastjóri í Tónskóla Sigursveins. Auk stjórnunarstarfa kennir hún á píanó og er meðleikari á tónleikum nemenda. Hún er einnig stærðfræðingur að mennt og kenndi lengi stærðfræði við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Júlíana Rún Indriðadóttir er aðstoðarskólastjóri í Tónskóla Sigursveins. Auk stjórnunarstarfa kennir hún á píanó og er meðleikari á tónleikum nemenda. Hún er einnig stærðfræðingur að mennt og kenndi lengi stærðfræði við Menntaskólann við Hamrahlíð. Júlíana hlaut nýverið listamannalaun til að halda átta tónleika með Pamelu De Sensi flautuleikara og verða frumflutt ný íslensk verk fyrir kontrabassaflautu á tónleikunum. Tónverkin verða hljóðrituð og gefin út á geisladiski. Tónlistin er aðaláhugamálið en ekki það eina. Júlíana stundar útivist og reynir að hjóla hvert sem hún fer. „Svo hef ég áhuga á bókmenntum og leiklist og las tvær nýjar bækur um jólin, önnur þeirra var Gæðakonur eftir Steinunni Sigurðardóttur og þótti mér hún skemmtileg. Ég er líka í kvikmyndaklúbbi með tveimur vinkonum mínum og við hittumst á tveggja vikna fresti og leigjum okkur mynd saman. Þær eru ekki margar eftir leigurnar en sem betur fer er Aðalvídeóleigan á Klapparstíg ennþá til og við leigjum okkur oft eldri myndir þar. Síðasta myndin sem við horfðum á var danska myndin Eftir brúðkaupið (Efter brylluppet) sem Susanna Bier leikstýrir.

Það eru tímamót í lífi manns að verða fimmtugur og fréttir af ofbeldi, ófriði og ójöfnuði í heiminum minna mann á að það er ekki sjálfsagt mál að ná þessum aldri, og það að hafna ofbeldi og ófriði, og vinna gegn ójöfnuði skiptir höfuðmáli.“ Júlíana mun halda veislu í sal Tónskóla Sigursveins um næstu helgi í tilefni af afmælinu. „Þar verður eitthvað gripið í hljóðfærin.“

Sambýlismaður Júlíönu er Gunnar Freyr Stefánsson og dóttir hennar er Neval Rakel Kamilsdóttir.