Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karen Elísabetu Halldórsdóttur: "Já, nú ætla „fjársveltir“ bankar að hækka vexti og það á verðtryggðum lánum. Greinilegt að lág verðbólga er ekki það sem þeir voru að vonast eftir á nýju ári."

Gleðilegt ár! Já, það hefði mátt hlakka til margs á nýju ári, m.a. lækkunar vörugjalda, lækkunar almenns virðisaukaþreps, lækkunar stýrivaxta Seðlabankans, verðbólgu sem er nú um 1%, minnkandi atvinnuleysis, örlítillar lækkunar tryggingagjalds, skuldaleiðréttingar lána, mögulegrar landsýnar við afnám gjaldeyrishafta og meira að segja lækkunar bensínverðs! Síðast en ekki síst eru komnir fram á sjónarsviðið þingmenn sem virðast ætla að fylgja fast eftir aðhaldi í ríkisrekstri og vernda þannig fé skattgreiðenda á sem bestan hátt, einnig sveitarstjórnarfulltrúar um allt land sem vinna nú hörðum höndum að því að halda úti þjónustu ásamt því að greiða niður skuldir bæjarfélaga sinna.

Já, nú er gaman á Íslandi, loksins er sá möguleiki að verða að veruleika að hér séu kjör loks að batna, þá ekki endilega vegna þess að hér hafi verið kríaðar út launahækkanir sem éta sig jafnóðum upp í verðbólguskoti. Loksins, loksins, loksins. Vitanlega eru 155 kjarasamningar lausir núna í ár og allir halda að sér höndum þangað til læknar fá sínar kjarabætur sem væntanlega verða ekki samanburðarhæfar við það sem aðrir munu þurfa að sætta sig við. Það má segja að þrátt fyrir öll þessi jákvæðu teikn á lofti gera velflestir sér grein fyrir því að umhverfið er viðkvæmt og stíga þarf varlega til jarðar svo að allt fari ekki aftur hér á hliðina.

Hvað gerist þá! Já, nú ætla „fjársveltir“ bankar að hækka vexti og það á verðtryggðum lánum. Greinilegt að lág verðbólga er ekki það sem þeir voru að vonast eftir á nýju ári. Neytendur sem ættu að rjúka út í búð og gera góð kaup núna eftir áramót geta ekki treyst útsöluskiltunum í búðunum og þurfa að „googla“ og biðja um aðstoð vina á Facebook til að finna út hvort hægt sé að treysta verðmiðum verslana og þjónustufyrirtækja. Þetta þurfa þeir að gera til þess að gulltryggja sig fyrir því að þær kjarabætur sem áttu að skila sér til almennings vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar skili sér til þeirra en ekki þeirra sem selja vöruna og þjónustuna.

Innanríkisráðherra, sem hefur neytendamál á sinni könnu, sagðist ekki vera fylgjandi því að hér hefði átt að setja á fót ákveðið verðlagseftirlit svo að þessar aðgerðir skiluðu sér til almennings. Ég er að hluta til algerlega sammála henni en því miður virðist það traust sem hún og ég berum til markaðarins víða vera að bresta. Það hefði líklega átt að biðja Íslendinga um að safna undirskriftum á „heiðursmannasamkomulag.is“ þegar ákveðið var að ráðast í almennar kjarabætur í formi skattalækkana og afnám vörugjalda. Það heiðursmannasamkomulag hefði hvatt alla sem hér eru og byggja landið til að leggjast á eitt að vernda íslenskt samfélag og hætta að éta það upp innan frá þar til ekkert verður eftir nema skelin ein.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Höf.: Karen Elísabetu Halldórsdóttur