Hestaat Dagur og Kristján.
Hestaat Dagur og Kristján.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orðatiltækið „að leiða saman hesta sína“ merkir að etja kappi við einhvern eða keppa við einhvern. Líkingin er dregin af hestaati. Um þetta má lesa í allskyns bókum um íslenskt mál.

Orðatiltækið „að leiða saman hesta sína“ merkir að etja kappi við einhvern eða keppa við einhvern. Líkingin er dregin af hestaati. Um þetta má lesa í allskyns bókum um íslenskt mál. Eigi að síður nota býsna margir þetta í annarri merkingu, það er að vinna saman eða sameina krafta sína.

Gott dæmi eru ummæli tveggja málsmetandi stjórnmálamanna í sjónvarpsfréttum í liðinni viku.

Fyrst notaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri orðatiltækið. Hann og fóstbróðir hans, Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og tilvonandi forseti lýðveldisins, voru þá saman komnir ásamt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, í tilefni af undirritun samstarfssamnings um friðarsetur í Reykjavík. Á þeim vettvangi ætlar þetta fólk víst, að sögn Dags, að leiða saman hesta sína. Það er að segja að keppa í friði. Eða hvað?

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra notaði téð orðatiltæki þegar átak til að styrkja heilbrigðiskerfið var kynnt í framhaldi af lausn læknadeilunnar. Að sögn Kristjáns er það ferðalag rétt að byrja. „Sumt af þessu er komið til vinnslu, annað erum við að leiða saman hesta okkar.“

Úr því menn geta keppt í friði geta þeir eflaust keppt í heilbrigði líka.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson