Útvaldir Á EM í Danmörku í fyrra. Frá vinstri: Einar Sigurpálsson, Jón Franzson, Hafsteinn Ingibergsson, Ólafur Thordersen og Gísli Jóhannsson.
Útvaldir Á EM í Danmörku í fyrra. Frá vinstri: Einar Sigurpálsson, Jón Franzson, Hafsteinn Ingibergsson, Ólafur Thordersen og Gísli Jóhannsson. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Í dag fer 20 manna stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótið í Katar í boði heimamanna.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í dag fer 20 manna stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótið í Katar í boði heimamanna. „Þetta er flott og skemmtileg jólagjöf,“ segir Hafsteinn Ingibergsson um ferðina, sem honum bauðst rétt áður en kirkjuklukkurnar hringdu inn jólin.

Eins og greint hefur verið frá fékk Handknattleikssamband Íslands boð um að senda 20 manns á mótið og greiða mótshaldarar ferðakostnað og gistingu auk þess sem hópurinn fær frítt inn á leikina. HSÍ ákvað að bjóða fólki sem hefur fylgt landsliðinu í gegnum súrt og sætt og lagt sitt af mörkum í sjálfboðavinnu fyrir sambandið. Í hópnum eru fjórir Suðurnesjamenn, Hafsteinn Ingibergsson, Gísli Jóhannsson, Ólafur Thordersen og Einar Sigurpálsson, sem hafa ekki aðeins stutt dyggilega við HSÍ og landsliðið heldur unnið markvisst að uppbyggingu íþróttarinnar á heimaslóðum um árabil.

Félagarnir hafa fylgt karlalandsliðinu og sótt nýliðin stórmót. Hafsteinn segir að ástæðan sé fyrst og fremst áhugi á handbolta.

Skemmtun frekar en fræðsla

„Við erum gamlir handboltamenn úr Keflavík og höfum farið saman á þessi mót auk þess sem við Gísli tókum dómarapróf saman og höfum dæmt saman í 32 ár.“ Hann leggur áherslu á að þeir líti á þetta sem skemmtun frekar en fræðslu. „Við Gísli höfum dæmt svo lengi að þetta hjálpar okkur ekki endilega í dómgæslunni og við horfum ekki sérstaklega á hana, en þetta er skemmtun og bara gaman.“

Þegar ljóst var að Ísland yrði með á HM í Katar settust fjórmenningarnir niður og skoðuðu möguleika á því að fylgja liðinu. Hafsteinn segir að fljótlega hafi draumurinn horfið og þegar boðið hafi komið hafi þeir ekki trúað því, talið að það væri verið að plata þá. „Svo kom í ljós að það var ekki og við vorum himinlifandi. Þetta er auðvitað kostaboð.“

Katar hefur ekki verið áberandi í handboltaheiminum og framlagðar reglur fyrir áhorfendur eru flestum framandi. Hafsteinn segir að þeir hafi kynnt sér ýmis boð og bönn og síðan verði að koma í ljós hvað megi og hvað ekki. Hann bendir á að ákveðnar reglur gildi til dæmis um notkun borða og fána og ljóst að frjálsræðið sé ekki það sama og í Danmörku, þar sem þeir hafi síðast verið á stórmóti í fyrra. Hins vegar séu mörg alþjóðleg mót í ýmsum greinum framundan í Katar og heimamenn verði örugglega að gefa eitthvað eftir. „Það er gaman að prófa eitthvað nýtt og þó að við Gísli séum vanir því að láta aðra fara eftir reglum á vellinum liggur fyrir að við verðum að fara að settum reglum og haga okkur eins og menn!“

Byrja keppni á móti Svíum

Framkvæmdastjórn Alþjóðahandknattleikssambandsins, IHF, ákvað á fundi sínum 21. nóvember sl. að úthluta Íslandi og Sádi-Arabíu laus sæti á HM í Katar eftir að Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmin drógu lið sín úr keppni. Ísland er í C-riðli með Svíþjóð, Alsír, Frakklandi, Tékklandi og Egyptalandi. Fyrsti leikur Íslands á HM verður á móti Svíþjóð og fer hann fram á föstudag.