Brynjar Víkingur Sigurðsson fæddist 29. maí 1947 á Akranesi. Hann lést á líknardeild Landspítalans 23. desember 2014.

Foreldrar hans voru Sigurður Júlíusson, f. 2.2. 1910, d. 2.4. 1978, og Ólafía Jónsdóttir, f. 1.1. 1913, d. 23.10. 1993. Systkini Brynjars eru: Sverrir Arnar, f. 1933, giftur Þorbjörgu Gígju Símonardóttur; Aðalheiður, f. 1939, gift Svanberg Eydal Haraldssyni, og Júlíus Sólberg, f. 1950, giftur Evelyn Rebeccu Sullivan.

Brynjar giftist Önnu Jónsdóttur, f. 1948, þann 12. september 1970. Þau skildu 1982. Synir þeirra eru: 1) Jón Örn, f. 1969, giftur Önnu Jóhannsdóttur, börn þeirra eru Valdís Huld, f. 1997, Jóhann Styrmir, f. 2000, og Þormar Örn, f. 2004, 2) Ólafur Már, f. 1974, giftur Eyrúnu Magnúsdóttur, börn þeirra eru Kristín Anna, f. 1999, Brynjar Már, f. 2004, og Alexander Már, f. 2008, 3) Pétur Orri, f. 1977, kona hans er Erla Agnes Guðbjörnsdóttir, börn þeirra eru Óðinn Orri, f. 2008, Brimir Þorri, f. 2011 og Elfur Agnes, f. 2014.

Brynjar giftist Margréti Þ. Theodórsdóttir, f. 1949, þann 17. maí 1997. Sonur Margrétar og uppeldissonur Brynjars, er Theodór L. Helgason, f. 1979.

Brynjar ólst upp á Akranesi. Hann var liðtækur tónlistarmaður, spilaði með nokkrum hljómsveitum á Akranesi, þeirra þekktust var Dúmbó og Steini. Tók hann m.a. þátt í endurkomutónleikum þeirra 2013, þrátt fyrir að eiga þá í erfiðum veikindum. Hann lærði vélvirkjun og lauk síðar vélstjóranámi 1988. Hann starfaði við vélstjórn á skipum, m.a. Hilmi, Jóni Vídalín og Júpíter, fram til síðustu aldamóta. Þá hóf hann störf á Landspítalanum, í ketilhúsi, við viðhald og rekstur véla og tækja og sinnti því starfi fram til 2013.

Útför hans fór fram í kyrrþey 2. janúar 2015.

Þegar Brynjar tengdapabbi greindist með alvarlegan sjúkdóm fyrir um einu og hálfu ári síðan, vissum við að framundan var heilmikið ferli, barátta og þolraun. Hann tók veikindunum með stóískri ró, vildi lítið gera úr þeim og horfði fram á veginn. Hann vildi frekar spjalla um önnur mál, barnabörnin og framtíðina.

Vorið 2013 lá fyrir að við fjölskyldan myndum flytja til Belgíu þá um sumarið. Það er erfitt að vera fjarri þegar veikindi steðja að, en netið hjálpar við að halda sambandi og sjást með rafrænum hætti. Við komum hingað og áttum góðar stundir á Íslandi jól og páska, héldum fermingarveislu og glöddumst með stórfjölskyldunni. Síðsumar og í haust náðum við einnig að eyða nokkrum tíma með Brynjari þegar hann var enn vel rólfær.

Tengdapabbi hafði góða nærveru, var traustur og trúr, með hjartað á réttum stað. Hann var boðinn og búinn að hjálpa til og hjálpaði við ófáa flutninga okkar eftir því sem fjölskyldan stækkaði. Ég kynntist honum enn betur eftir að hann hætti sem vélstjóri á skipum og hóf störf í landi. Hann lagði mikið í starf sitt með frímúrarareglunni og gegndi þar trúnaðarstörfum. Stundum kom hann líka við hjá okkur í Hafnarfirðinum þegar hann fór á fundi þar hjá reglunni sinni.

Hann fór sjálfur í vélstjóranám, kominn vel yfir þrítugt, og skildi því vel mikilvægi menntunar. Hann hvatti syni og barnabörn til að nýta hæfileika sína, einnig á tónlistarsviðinu og þau Gréta komu iðulega þegar tónleikar voru og skemmtanir þar sem barnabörnin spiluðu eða sýndu. Það var líka mikil upplifun fyrir barnabörnin þegar dæmið snerist við; Brynjar og félagar í Dúmbó og Steina komu saman 2012, æfðu og spiluðu svo á þjóðhátíðarskemmtun 17. júní á Akranesi. Börnunum fannst ansi mikið til koma að horfa á Brynjar afa spila með hljómsveitinni sinni uppi á sviði, það höfðu þau aldrei upplifað áður. Síðar héldu þeir í Dúmbó tónleika bæði í maí 2013 í Bíóhöllinni á Akranesi og síðan um haustið í Hörpu.

Við fjölskyldan í Brussel náðum að koma heim nú fyrir jólin og kveðja, börnin náðu að kveðja afa sinn og við að vera með honum undir það síðasta. Fyrir það erum við þakklát, við geymum með okkur minningarnar og þær ylja okkur til framtíðar.

Anna Jóhannsdóttir.

„Kom þú sæll þá þú vilt.“ Þannig endar skáldið Hallgrímur Pétursson sálminn góða. Minn góði vinur Brynjar V. Sigurðsson lést að morgni 23. desember (Þorláksmessu) eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Við Binni ræddum oft og mikið um andleg málefni, hver tilgangur lífsins væri með þessari jarðvist okkar og hvers vegna fólk brygðist svo misjafnlega við allskonar áreiti er á það væri lagt. Við það spunnust oft fjörugar umræður en alltaf vorum við sammála um tilganginn, og hvert ferðinni væri heitið, því hann sem öllu ræður finnur alltaf sauði sína, Binni sagði mér t.d. frá draumum sínum hin síðustu misseri, við töluðum um þá og reyndum að finna út hvaða skilaboð væri verið að senda, Binni var ekki í neinum vafa um það, þess vegna byrjaði ég þessar fátæklegu línur mínar á orðum skáldsins góða. Við Binni hittumst fyrst á ferðalagi í Dublin á Írlandi, um það leyti sem verslunar- og skemmtiferðir þangað voru mjög vinsælar, Margrét og Hjördís hafa verið góðar vinkonur frá því í æsku og voru því miklir fagnaðarfundir er við hittum þau alveg óvænt á „Fox“, hinum vinsæla írska veitingastað. Við Binni urðum strax miklir vinir, enda höfðum við mjög svipaðan uppeldislegan bakgrunn, sömu áhugamál svo sem í andlegum málefnum, starfi í félagsmálum, söng og músík en Binni var mikill músíkmaður, spilaði mikið á dansleikjum með mörgum hljómsveitum sem bassaleikari, síðast með hinni vinsælu hljómsveit „Dúmbó og Steina“, hápunkturinn voru tónleikar hljómsveitarinnar í Hörpu í september 2013 en hann var ákveðinn að taka þátt í þeim þrátt fyrir veikindin og það gerði hann að sjálfsögðu með sóma eins og allt, sem við var að búast af honum. Brynjar var lærður vélstjóri og starfaði sem slíkur á skipum hér áður fyrr en í seinni tíð sem vélfræðingur á Landspítalanum (Ketilhúsinu). Þangað var gott að koma enda var þar drukkið gott kaffi eins og Binni vildi hafa það, hitað og malað eftir sérstökum kúnstarinnar reglum. Þar var oft kátt á hjalla og mikið spjallað. Kæri vinur, margt fleira væri hægt að minnast á og segja um góðan vin sem fallinn er nú frá langt fyrir aldur fram. Við Hjördís áttum margar góðar stundir með Grétu og Binna sem við minnumst með ánægju og þakklæti.

Elsku Gréta, megi góður guð vera með þér, sonum ykkar og fjölskyldum þeirra og veita ykkur styrk á erfiðum tímum.

Þótt lífsins erli ljúki hér

og leggist yfir skuggar

í andans nauð þá opnist þér

allir ljóssins gluggar

(Hjalti Már)

Þínir vinir

Hjalti og Hjördís.

Kæri vinur, okkar æðri máttur hefur tekið þig í sína arma. Þínu stríði er lokið, búinn að berjast í rúmt eitt og hálft ár, en maðurinn með ljáinn hafði betur.

Mig langar að leiðarlokum að þakka þér fyrir samveru okkar. Þó samskipti okkar yrðu ekki eins og upphaflega var ætlað, bárum við gæfu til þess að eignast þrjá mannvænlega stráka, Jón Örn, Ólaf Má og Pétur Orra, sem nú sjá á eftir föður sínum ásamt tengdadætrunum Önnu, Eyrúnu og Erlu og öllum barnabörnunum níu, sem voru þér til ómældrar gleði.

Við Gulli sendum öllum ástvinum þínum okkar innilegustu samúðarkveðju.

Anna Jónsdóttir

og Guðlaugur Long.