Sigurður Jóhannsson fæddist í Hafnarfirði 16. júní 1921. Hann lést 5. janúar 2015.

Hann ólst upp í Hafnarfirði hjá móðursystur sinni Kristrúnu Einarsdóttur, f. 1883, d. 1963, og seinni eignmanni hennar, Sigurði Magnússyni, f. 1876, d. 1955. Faðir Sigurðar var Jóhann Benediktsson, f. 1886, d. 1962, og móðir Jóhanna Einarsdóttir, f. 1898, d. 1982.

Uppeldissystkini Sigurðar, börn Kristrúnar og fyrri eiginmanns hennar, Guðna Benediktssonar, f. 1880, d. 1912, voru Jóhanna Eina, Einar, Benedikt og Laufey. Hálfbræður hans, sammæðra, voru Kormákur Sigurðsson og Stefán Guðmundsson.

Eiginkona Sigurðar var Daðey Sveinbjörnsdóttir, Dadda. Hún fæddist 31. mars 1922 á Uppsölum í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Foreldrar hennar voru þau Sveinbjörn Rögnvaldsson, f. 1886, d. 1975, og Kristín Hálfdánardóttir, f. 1896, d. 1951.

Dóttir Sigurðar og Döddu er Kristín Halla Sigurðardóttir, f. 1957, búsett í Hafnarfirði. Eiginmaður hennar er Guðmundur K.G. Kolka. Dóttir Höllu er Kristrún Gunnarsdóttir, f. 1975, maki Hjálmar Rúnar Hafsteinsson. Börn þeirra eru Halla Líf og Jökull Mar.

Fósturdóttir Sigurðar og Döddu er Ingrún Ingólfsdóttir, f. 1949, búsett í Hafnarfirði. Eiginmaður hennar er Magnús Gíslason. Börn þeirra eru Hersir Gíslason, f. 1971, maki Carola Falk, Vala Magnúsdóttir, f. 1977, maki Eiríkur Haraldsson, og Daði Magnússon, f. 1978, maki Dagbjört Guðmundsdóttir. Börn Völu eru Ingrún Lilja og nýfæddur sveinn. Sonur Daða er Guðmundur Hrafnkell og dætur hans af fyrra hjónabandi eru Tara og Íris.

Dóttir Sigurðar er Sigurrós Helgadóttir, f. 1944, en hún ólst upp hjá móður sinni og eiginmanni hennar. Eiginmaður hennar var Þorsteinn Guðlaugsson. Sigurrós á tvær dætur af fyrra hjónabandi, Önnu, f. 1965, og Guðrúnu Karitas, f. 1971. Anna á synina Garðar Þór og Agnar Frey og Guðrún dæturnar Védísi Elvu og Ásdísi Eiri.

Sigurður gerði sjómennsku að ævistarfi. Hann fór ungur til sjós og var oft á þekktum aflaskipum. Síðar var hann á farskipum og hann lauk síðan starfsævi sinni við hafnarvinnu.

Þau Sigurður og Dadda giftu sig 19. júní 1946. Þau bjuggu alla tíð í Hafnarfirði, lengst af í Köldukinn 28. Árið 2003 fluttu þau á Hrafnistu í Hafnarfirði. Daðey lést hinn 24. febrúar 2006. Sigurður bjó áfram á Hrafnistu og naut þar umönnunar síðustu ævidaga sína.

Útför Sigurðar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 14. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 11.

Kynni mín af Sigurði hófust þegar ég kynntist Höllu dóttur hans. Sigurður tók mér strax vel og auðvelt var að kynnast honum. Þau kynni þróuðust í góða og einlæga vináttu sem ég er þakklátur fyrir.

Hann var Hafnfirðingur í húð og hár og bjó þar alla sína ævi. Sigurður þekkti því vel til gamla tímans og þeirra sem byggðu upp Hafnarfjörð á síðustu öld. Það var gaman og fróðlegt að heyra hann segja frá Hafnarfirði fyrri ára. Þegar við hjónin veltum fyrir okkur íbúðarkaupum í Hafnarfirði var verðmætt að fá álit hans þar sem hann mundi eftir þeim sem byggði og hvort vandað var til verks.

Sjórinn var starfsvettvangur Sigurðar. Ungur réð hann sig á sjóinn og varð sjómennska hans lífsstarf. Fyrst var hann á fiskibátum og vænst þótti honum um tímann á Eldborginni. Skipið var sérstaklega fengsælt og áhöfnin samhent.

Hann starfaði þar sem kokkur en aldrei eldaði þó hann fyrir mig. Gamlir samstarfsmenn hrósuðu heimilislegri eldamennsku hans.

Sigurður flutti sig af fiskiskipaflotanum til Eimskips og var lengst af starfandi á Goðafossi. Þegar árin færðust yfir fór hann í land og vann við löndun og vaktstarf hjá Eimskip. Fyrir störf sín hjá Eimskip var honum veitt heiðursmerki félagsins. Einnig var honum veitt heiðursmerki Sjómannadagsráðs. Hann var stoltur af þessum viðurkenningum þótt hann væri lítið fyrir að flíka þeim eða hreykja sér af þeim. Þegar starfsferlinum lauk keyrði hann svo næstum daglega niður á bryggju til að fylgjast með lífinu þar.

Sigurður taldi það eitt sitt mesta gæfuspor í lífinu að kynnast og kvænast Daðeyju Sveinbjörnsdóttur. Þau bjuggu í Hafnarfirði allan sinn búskap, lengst af í Köldukinn 28. Þau Dadda voru samrýnd hjón og hann var henni þakklátur fyrir umsjón heimilisins þegar hann dvaldi langtímum á sjónum. Þótt hann hafi ekki verið eins félagslyndur og hún hafði hann unun af því að keyra hana í heimsóknir og boð. Reyndar hafði hann gaman af því að keyra og ég fann því til með honum þegar öldrunin varð þess valdandi að hann hætti að keyra og þurfti að selja bílinn.

Sigurður var ætíð afar stoltur af dætrum sínum. Hann var af þeirri kynslóð þar sem uppeldið hvíldi mest á móðurinni. Hann var því ekki stjórnsamur faðir en naut ætíð samvista við dæturnar og fjölskyldur þeirra. Tók öllum nýjum meðlimum vel og óskaði þeim alls hins besta. Hann var sannur vinur vina sinna og tilbúinn að leggja margt og mikið á sig til að liðsinna þeim án þess að gera kröfur á móti. Hann tók stöðu með lítilmagnanum og hreifst af þeim sem sýndu frumkvæði og framtakssemi. Hann reyndi ætíð að horfa á það góða í hverjum manni.

Sigurður var alla tíð trúmaður mikill. Frá unga aldri mátti hann ekki missa af sjómannamessunni á sjómannadaginn. Hann var einstaklega kirkjurækinn og þótti vænst um Fríkirkjuna í Hafnarfirði. Hann kveið ekki endalokunum og var bæði sæll og sáttur við lífshlaup sitt. Ég þakka honum innilega fyrir samfylgnina.

Guðmundur.

Elsku hjartans Siggi afi. Ég á svo margar góðar minningar um þig.

Það voru forréttindi að eiga þig sem afa, Sigga afa. Allar bílferðirnar með ykkur Döddu ömmu út fyrir borgina. Hvalfjörðurinn varð oftar en ekki fyrir valinu og stoppað var við Hvalstöðina og horft á hvalina dregna upp á land.

Þú hafðir gaman af því að horfa á aðgerðirnar þar og við amma stóðum oftast hjá þér og héldum fyrir nefið, okkur fannst lyktin ekkert sérstök. Þú flissaðir bara enda sjómaður til margra ára.

Það var skemmtilegt að rifja upp gömlu dagana með þér, millilandaferðirnar þínar á sjónum.

Þú fórst alltaf á flug og sagðir óteljandi skemmtilegar sögur frá þeim ferðum. Þú lumaðir líka á skemmtilegum sögum héðan úr Hafnarfirði, enda gaflari í húð og hár. Ég er stolt af því að vera gaflari eins og þú afi. Þú kallaðir mig alltaf „skottuna þína“.

Mér er svo minnisstætt þegar þú sagðir sögur, sitjandi í stólnum þínum í Köldukinninni. Þú varst með epli og hníf og varst bestur í að skræla utan af þeim, allt í einni ræmu. Skarst þér svo sneið milli sögustunda og stakkst bitanum upp í þig með hnífnum.

Þetta gat bara Siggi afi, að mér fannst. Þú áttir alltaf nammi sem þú laumaðir til mín þegar Dadda amma sá ekki til. Sem barn eyddi ég ófáum stundum hjá ykkur ömmu, fékk oftar en ekki að gista. Þá horfðum við saman á sjónvarpið og borðuðum heljarmikið af nammi. Þetta eru svo góðar minningar sem ég geymi hjá mér.

Langafabörnin þín glöddu ykkur ömmu meira en orð fá lýst. Þið áttuð einfaldlega fallegustu langafa- og langömmubörnin.

Þegar Dadda amma kvaddi áttir þú voðalega erfitt. Söknuðurinn var mikill enda þið búin að eyða mestallri ævi ykkar saman, sætu hjón.

Þú varst löngu tilbúinn að fara til hennar en skildir ekki hvers vegna skaparinn leyfði þér að lifa svona lengi. Nú ertu kominn í Draumalandið í fangið á Döddu þinni. Það yljar mér að vita af ykkur saman, hönd í hönd.

Ég kveð þig nú elsku afi, sofðu rótt. Þín afaskotta,

Kristrún.