Ungbarn Jafnrétti í fæðingarorlofskerfinu hefur minnkað.
Ungbarn Jafnrétti í fæðingarorlofskerfinu hefur minnkað. — Morgunblaðið/Sverrir
Ákvörðun um að nýta rétt til fæðingarorlofs er tekjutengd og kynbundin og brýnt er að endurreisa fæðingarorlofskerfið til samræmis við upphafleg markmið þess um jafna töku foreldra.

Ákvörðun um að nýta rétt til fæðingarorlofs er tekjutengd og kynbundin og brýnt er að endurreisa fæðingarorlofskerfið til samræmis við upphafleg markmið þess um jafna töku foreldra. Búið er að skera fæðingarorlofssjóð mikið niður og árangur fyrri ára er að mestu genginn til baka.

Þetta kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á skattadegi Deloitte, SA og VÍ á Grand Hótel í gær. „Búið er að eyðileggja fæðingarorlofskerfið okkar,“ sagði Þorsteinn á fundinum.

Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður með hluta af tryggingargjaldi, sem fyrirtækin í landinu greiða. Þegar greiðslur úr sjóðnum voru skertar var sá hluti tryggingargjaldsins sem rennur í sjóðinn óbreyttur og afgangurinn nýttur til annarra verkefna.

Fjárhagsleg ákvörðun

Launaþak fæðingarorlofs er nú töluvert undir meðallaunum á almennum vinnumarkaði. „Það er því orðin fjárhagsleg ákvörðun hjá meginþorra fólks á vinnumarkaði að meta hvort það geti nýtt sér fæðingarorlofið,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. „Þar af leiðandi er þetta einnig orðin kynbundin ákvörðun þar sem karlar eru að jafnaði með hærri tekjur en konur.“

Hlutfall þeirra feðra sem nýta sér rétt til fæðingarorlofs hefur lækkað og segir Þorsteinn að endurreisa þurfi kerfið. „Stærsti vandinn er að ríkið hefur tekið um helming markaðra tekna fæðingarorlofssjóðs til annarra nota. Tekjumörkin verða ekki hækkuð án þess að hlutur sjóðsins í tryggingargjaldi verði aukinn á ný eða að það verði hækkað, en það getum við alls ekki fallist á. Ríkissjóður verður að skila þessum fjármunum,“ segir Þorsteinn. sunnasaem@mbl.is