Reykjavíkurhöfn í janúarbirtu Verði af sameiningu verða hafnir í Borgarnesi, Akranesi, Grundartanga, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Straumsvík, Njarðvíkum, Keflavík, Helguvík og Sandgerði undir sama hatti.
Reykjavíkurhöfn í janúarbirtu Verði af sameiningu verða hafnir í Borgarnesi, Akranesi, Grundartanga, Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Straumsvík, Njarðvíkum, Keflavík, Helguvík og Sandgerði undir sama hatti. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Náin samvinna og hugsanleg sameining hafnarsjóða við Faxaflóa yrði öllum til hagsbóta, að mati Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa, sem sæti á í stjórn Faxaflóahafna.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Náin samvinna og hugsanleg sameining hafnarsjóða við Faxaflóa yrði öllum til hagsbóta, að mati Júlíusar Vífils Ingvarssonar, borgarfulltrúa, sem sæti á í stjórn Faxaflóahafna. „Slík sameining eða náin samvinna myndi í krafti stærðarinnar auka hagkvæmni þessa rekstrar og auðvelda skipulagsmál á svæðinu. Þetta yrði til hagsbóta fyrir alla aðila, Faxaflóahafnir ekki undanskildar, og hafnir á svæðinu, frá Reykjanestá upp í Borgarfjörð, hljóta að horfa til þessa möguleika,“ segir Júlíus Vífill.

Faxaflóahafnir eru langstærsta einingin á þessu svæði og eru með hafnastarfsemi í fjórum sveitarfélögum; Reykjavík, Grundartanga í Hvalfjarðarsveit, Akranesi og Borgarbyggð, en fimm sveitarfélög eiga aðild að félaginu. Aðrir hafnarsjóðir á svæðinu sem Júlíus vísar til eru í Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Sandgerði. Á sumum stöðunum eru fleiri en ein höfn.

Vilji sveitarfélaga kannaður

Á fundi stjórnar Faxaflóahafna á föstudag var samþykkt tillaga Júlíusar Vífils um að fela hafnarstjóra að kanna vilja sveitarfélaga á svæðinu til að skoða möguleika á sameiginlegri hafnarstarfsemi á svæðinu frá Reykjanesskaga til Borgarfjarðar og þá með hvaða hætti þeirri samvinnu yrði best háttað.

„Hafnarstarfsemi fylgir talsverð fjárfesting, bæði í hafnargerð og einnig í bátum og tækjum sem hafnirnar þurfa að hafa yfir að ráða,“ segir Júlíus. „Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi, en þessi vinna getur verið fyrsta skrefið í því að horfa til framtíðar.

Það er ljóst að minni hafnir hafa átt í miklum rekstrarvanda á undanförnum áratugum og því miður hefur gætt hugsunarháttar smákónga á þessum vettvangi þar sem sveitarfélög leggja stolt sitt í að hafa eigin hafnarstarfsemi. Vel má vera að þegar rekstrarmöguleikar þessara minni hafna eru skoðaðir sjái menn að hægt er að gera miklu betur og spara peninga með því að vinna saman.“

Heildarsýn fyrir hafnarstarfsemi á Faxaflóa

Hluti af tillögu Júlíusar Vífils fjallar um skipulagsmál og segir þar að rík ástæða sé til að mótuð verði heildarsýn fyrir hafnarstarfsemi á Faxaflóa til framtíðar. Hann bendir á að Faxaflóahafnir eru með starfsemi í fjórum sveitarfélögum.

„Aðalskipulagsáætlanir sveitarfélaga hafa að geyma leiðarljós og bindandi markmið til lengri tíma en skipulagsáætlanir lýsa ekki framtíðarstefnu Faxaflóahafna,“ segir í tillögunni.