Andrés Viðarsson fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1988. Hann lést á heimili sínu 4. janúar 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Kristín Svava Svavarsdóttir, f. 1. apríl 1957, d. 4. febrúar 2012, og Viðar Gíslason, f. 21. desember 1957, d. 23. nóvember 2013. Andrés átti dótturina Telmu Svövu, f. 3 apríl 2011, með fv. unnustu sinni, Margréti Helgu Skúladóttur, f. 24. september 1988.

Andrés lauk grunnskólanámi frá Víkurskóla í Reykjavík. Hann stundaði nám við Menntaskólann við Sund einn vetur en hóf síðan nám í húsasmíði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Andrés starfaði um árabil hjá Húsasmiðjunni, lengst af í Reykjavík, en einnig um tíma á Ísafirði.

Útför Andrésar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 14. janúar 2015, kl. 13.

Fyrir 10 árum hittumst við fyrst. Við vorum aðeins 17 ára þegar við byrjuðum saman og áttum framtíðina fyrir okkur. Það sem einkenndi okkar samband var vinátta. Við áttum margt sameiginlegt og vorum við dugleg að gera hluti saman eins og að stunda líkamsrækt. Við horfðum mikið á þætti og kvikmyndir og var hefðin hjá okkur að hafa kósýkvöld á sunnudagskvöldum með snakki og nammi. Okkur fannst gaman að ferðast og urðu utanlandsferðirnar þó nokkrar.

Á þeim 10 árum sem hafa liðið höfum við upplifað margt, bæði gott og slæmt en eflaust meira en margur á okkar aldri. Fyrir rúmum fjórum árum fékkstu þitt fyrsta áfall og síðan þá hafa þau verið óstöðvandi. Hvert áfallið eftir annað stóðum við samt alltaf saman og tókum á þeim, sem gerði samband okkar sterkara. Síðan fór það að verða erfiðara fyrir okkur.

Heilsu þinni fór hratt hrakandi sem reyndi á okkar samband og var orðið okkur öllum þremur mjög erfitt.

Þrátt fyrir sambandsslit okkar þótti mér alltaf vænt um þig og það sem situr eftir eru margar góðar minningar og sú allra dýrmætasta er litla gullið okkar hún Telma Svava. Þessar minningar mun ég varðveita og deila með litlunni okkar sem saknar þín sárt og spyr mikið um þig þessa dagana.

Elsku Andrés, þú varst ótrúlega handlaginn, duglegur og alltaf reiðubúinn að gera allt fyrir okkur. Það er sárt að hugsa til þess að þú komir aldrei aftur en það sem yljar mér um hjartarætur er að nú ertu kominn til foreldra þinna sem yfirgáfu okkur alltof fljótt.

Nú veit ég að þið eruð sameinuð á ný og munuð vaka yfir dúllunni ykkar og fylgjast með henni vaxa og dafna.

Ég er afskaplega þakklát fyrir að Telma gat hitt þig þessa síðustu daga og að þið áttuð góðar stundir saman en þú varst alltaf svo duglegur að leika við hana.

Ég kveð þig í hinsta sinn elsku Andrés minn, hvíldu í friði.

Margrét Helga.

Andrés er dáinn. Þessi orð stungu í hjartað þegar Margrét okkar kom með þær sorgarfréttir að hann Andrés okkar væri farinn frá okkur, alltof fljótt og svo óvænt. Þótt við vissum öll í hvað stefndi áttum við ekki von á þessu alveg strax.

Andrés hafði verið í fjölskyldunni í tæp 10 ár, hann og Margrét byrjuðu saman svo ung, rétt 17 ára gömul, bæði í menntaskóla, tíminn leið og í aprílmánuði 2011 kom í heiminn litli sólargeislinn þeirra hún Telma Svava, sem hefur svo sannarlega lýst upp tilveruna og fært okkur öllum mikla gleði á sl. árum.

Andrés okkar hafði því miður þungan kross að bera, ættarsjúkdóm sem lét á sér kræla alltof fljótt, aðeins 22 ára fékk hann fyrsta áfallið, það setti mark sitt á líf hans eftir það.

Það dundu yfir fleiri áföll, mamma hans og pabbi glímdu við erfiða sjúkdóma sem þau urðu að lúta í lægra haldi fyrir, langt fyrir aldur fram. Þetta allt reyndi svo mikið á litlu fjölskylduna, svo því miður skildi leiðir hjá unga parinu.

Góða sambandið við Andrés okkar hélst áfram, hann var búinn að heimsækja okkur tvisvar hingað vestur á Ísafjörð og ætlaði að koma oftar á nýja árinu.

Alltaf var komið við hjá honum á ferðum okkar suður, reynt að fara saman út að borða eða bara hitta hann svona rétt til að knúsa.

Hann hafði líka símasamband við okkur, hann spurði okkur oft um Telmuna sína, vildi fá fréttir og myndir af litla gullinu.

Andrés var ákaflega bóngóður, ávallt tilbúinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda, hafði létta lund og gat oft verið stríðinn. Það var eftirtektarvert hvað hann var duglegur að leika við Telmu litlu og hvað honum þótti endalaust vænt um hana og elskaði hana mikið.

Við munum gæta litlu stelpunnar hans fyrir hann og við vitum að hann mun vaka yfir henni.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Minningin um góðan ungan mann mun lifa um ókomin ár. Þín tengdó,

Sigríður og Hjörtur.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Hugur minn tekur andköf, líkt og ég sé búin að vera of lengi í kafi, ég berst við að horfast í augu við raunveruleikann því ég veit að atburðir síðastliðinna missera eru raunverulegir.

Mig langar að deila örfáum minningum um litla frænda minn hann Adda. Ég fékk snemma einkaleyfi til að kalla hann litla frænda minn þar sem ég er mun eldri. Viðar frændi og Stína reyndu lengi að eignast barn og þegar þau sögðu mér að þau ættu von á barni varð ég svo glöð ásamt öllum í fjölskyldunni. Gullmolinn þeirra kom svo í heiminn og man ég eftir því að ég og Dagbjört frænka skiptumst á að passa hann og Nonna frænda. Mikið var gaman að passa þennan rólyndisdreng, það fór nú ekki mikið fyrir honum, draumur allra barnapía. Árin liðu og var litla krúttfjölskyldan samheldin og litli guttinn orðinn fullorðinn og búinn að stofna sína eigin fjölskyldu. Stína og Viðar trúðu mér fyrir því að þau væru að springa úr stolti af Adda og hvað hann átti dásamlega fjölskyldu.

Undanfarin misseri hafa verið fjölskyldu okkar erfið, foreldrar hans féllu frá með stuttu millibili. Núna þegar ég horfi til baka man ég ávallt eftir ástföngnum hjónum, í gegnum huga mér fer sagan af Tristan og Ísold en ást þerra var svo sterk að þau fylgdust að í lífi og dauða. Stoltið þeirra Addi var þá farinn að kenna sér meins ættarsjúkdómsins sem við fjölskyldan vonuðum ávallt að mundi ekki herja á hann, en þannig var því ekki ætlað að fara. Addi frændi kvaddi okkur við upphaf nýs árs og er ég svo innilega þakklát fyrir að við áttum yndileg jól saman þar sem var spjallað, hlegið og haft huggulegt eins og í matarboðunum í gamla daga hjá ömmu og afa.

Að lokum vil ég taka undir orð barnanna minna en þau hafa sannfært mig um að þeir sem hafa farið frá okkur hér á jörð séu núna englar sem pússa regnbogann svo hann skíni skært. Minningar mínar um Adda munu skína skært áfram í huga mér og vonandi okkar allra.

Ég vil senda mömmu, Svönu, Þóri, Margréti, Telmu Svövu, Krissu, Þóru, fjölskyldu minni allri og vinum Adda mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Ásdís Hallgrímsdóttir

og fjölskylda.

Elsku Addi. Ég trúi því varla að þú sért farinn frá okkur svona ungur. Föstudaginn 2. janúar varst þú í mat hjá okkur og svo á sunnudegi ertu dáinn. Eftir að pabbi þinn dó í nóvember 2013 hefur verið mikið samband hjá okkur. Þú varst farinn að koma mjög oft til okkar. Það var líka ekki sjaldan að þú komst og baðst mig um að koma í göngu með þér, og þá fórum við út í kirkjugarð til foreldra þinna sem dóu með rúmu eins árs millibili, og þá fórst þú heim til þín og ég til mín. Og svo varst þú mjög duglegur að biðja mig að koma út í kirkjugarð til mömmu og pabba (ömmu þinnar og afa).

Þú varst svo þakklátur fyrir það sem við gerðum fyrir þig, og faðmaðir mann oft og þakkaðir þannig fyrir þig. Mikið var gaman að vera með þér á gamlársdag með Telmu dóttur þinni, og sjá hvað þið voruð ánægð saman, og hvað þú varst natinn að leika við hana. Mér fannst líka mjög ánægjulegt þegar ég var að gera eitthvað með þér að þá sagðir þú stundum við mig: „Svana, þú ert bara eins og mamma mín var – alltaf að hugsa svo vel um mig.“ Þú varst kominn með liðveislu frá sambýli í Grafarvogi sem þú varst mjög ánægður með. Þegar þú varst á Reykjalundi núna í nóvember smíðaðir þú vöggu fyrir Telmu þína og hún átti að vera heima hjá þér, en þú varst alltaf að hugsa um hana. Þú talaðir líka alltaf um að fara að klára smíðina sem þú varst aðeins byrjaður að læra. Elsku Addi, það er með ólíkindum hvað hefur verið lagt á þig síðustu ár, það er ólýsanlegt með orðum. En núna ert þú kominn til foreldra þinna. Hvíl í friði elsku frændi.

Svanbjörg Gísladóttir.

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:

Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.

Eins eru skip, sem aldrei landi ná,

og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,

og von sem hefir vængi sína misst,

og varir, sem að aldrei geta kysst,

og elskendur, sem aldrei geta mæst

og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,

og lítil börn, sem aldrei verða menn.

(Davíð Stefánsson)

Elsku Addi frændi. Mikið er ég leið yfir því að þú sért fallinn frá. En núna ertu kominn til yndislegu foreldra þinna, sem féllu líka frá langt fyrir aldur fram.

Guð blessi Telmu Svövu, dóttur þína, og alla aðra ástvini þína í sorginni. Hvíl í friði. Þín frænka,

Kristín Stefánsdóttir.

Með söknuði og trega kveð ég Adda minn í dag.

Mér finnst ég varla heill né hálfur

maður

og heldur ósjálfbjarga, því er verr.

Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður

verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð að segja,

að sumarið líður allt of fljótt.

Við gætum sungið, gengið um,

gleymt okkur með blómunum.

Er rökkvar ráðið stjörnumál.

Gengið saman hönd í hönd,

hæglát farið niður á strönd.

Fundið stað, sameinað beggja sál.

Horfið er nú sumarið og sólin,

í sálu minni hefur gríma völd.

Í æsku léttu ís og myrkur jólin;

nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Því eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð að segja,

að sumarið líður allt of fljótt.

Ég gái út um gluggann minn

hvort gangir þú um hliðið inn.

Mér alltaf sýnist ég sjái þig.

Ég rýni út um rifurnar.

Ég reyndar sé þig alls staðar.

Þá napurt er, það næðir hér

og nístir mig.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Ég kveð hann með þessu fallega ljóði því erfitt er að festa á blað þær ótalmörgu minningar sem ég á um hann og foreldra hans, sem öll þrjú fóru of snemma frá okkur.

Takk fyrir allt og allt.

Kristín (Krissa).

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Drottinn minn faðir lífsins ljós

lát náð þína skína svo blíða.

Minn styrkur þú ert mín lífsins rós

tak burt minn myrka kvíða.

Þú vekur hann með sól að morgni.

Faðir minn láttu lífsins sól

lýsa upp sorgmætt hjarta.

Hjá þér ég finn frið og skjól.

Láttu svo ljósið þitt bjarta

vekja hann með sól að morgni.

Drottinn minn réttu sorgmæddri sál

svala líknarhönd

og slökk þú hjartans harmabál

slít sundur dauðans bönd.

Svo vaknar hann með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku Andrés minn, ég kveð þig með þessu orðum. Minningarnar eru margar og ég mun geyma þær í hjarta mínu. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku drengurinn okkar. Þín frænka,

Elín Hrund.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta.

Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.

Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. óþekktur)

Með þessu fallega ljóði langar mig að kveðja ástkæran frænda og vin. Dýrmætar eru þær minningar sem ég á um hann Adda frænda minn og þær mun ég varðveita alla mína ævidaga. Addi er nú kominn í faðm foreldra sinna sem umvefja hann af ást og kærleik.

Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku Addi minn, og megir þú hvíla í friði.

Þín frænka,

María Björk.

Í dag kveðjum við í hinsta sinn vin okkar Andrés Viðarsson.

Já, það er hægt að segja með sanni að lífið sé ekki sjálfgefið.

Ungur og tápmikill drengur hverfur frá okkur aðeins 26 ára gamall. En við viljum muna eftir honum sem brosandi strák sem var til í allt skemmtilegt. Minningarnar sem við eigum eru ótal margar og góðar.

Elsku Andrés, við vitum að það verður tekið vel á móti þér þar sem þú ert staddur núna og það eru margir ættingjar þínir sem leiða þig í ljósið.

Stína og Viddi fá drenginn sinn til sín miklu fyrr en þau hafa reiknað með og það er kannski sú hugsun sem maður notar til að vinna á sorginni.

Mig styrk í stríði nauða,

æ styrk þú mig í dauða.

Þitt lífsins ljósið bjarta

þá ljómi' í mínu hjarta.

(Páll Jónsson)

Guðmundur Sævar

og Díana Sara.

Við Andrés kynntumst í Korpuskóla á Korpúlfsstöðum þegar við vorum 11 ára gamlir. Við urðum fljótt góðir vinir í gegnum súrt og sætt. Þetta var upphafið að áralangri, ómetanlegri vinaáttu okkar. Andrés fór síðar í Víkurskóla, þar eignaðist hann fjölda vina og má þar helst nefna Einar og Sigga og urðum við fjórir nánir vinir. Við Andrés lékum okkur oft saman eftir skóla og fórum víða og brölluðum ýmislegt.

Oft hittumst við heima hjá vinunum og svo var farið í körfubolta, fótbolta, línuskauta eða hjólabretti. Við gerðum símaat til útlanda og var hlegið óspart þegar einhver svaraði á óskiljanlegu tungumáli.

Það var alltaf gott að koma heim til Andrésar þar sem foreldrar hans, Stína og Viddi, tóku ávallt vel á móti okkur strákunum. Viddi var listakokkur og gerði hann fyrir okkur alveg ótrúlega góðar samlokur á grilli með alls kyns góðgæti á. Sérstaklega var þetta vinsælt þegar við Andrés höfðum verið úti frameftir og komum svangir heim.

Eitt skipti að sumri til stálumst við vinirnir í bjórinn hans Vidda. Til þess að fela okkur fyrir foreldrunum á meðan við drukkum bjórinn fórum við upp á þak Víkurskóla þar sem enginn sá til okkar. Þetta var góður felustaður en ekki svo gott að komast aftur niður fyrir unga menn sem ekki höfðu áður smakkað bjór.

Andrés var alltaf duglegur að stunda líkamsrækt og dró hann mig reglulega upp frá tölvuskjánum til þess að lyfta lóðum. Hann, Siggi og ég vorum iðulega niðri í bílskúr heima hjá Andrési að lyfta þar sem öll áhersla var lögð á árangur í bekkpressu enda náðum við góðum árangri í henni.

Við Andrés fórum í MS og fylgdi þeirri skólagöngu sú skylda að mæta á fjölda dansleikja ár hvert.

Það má segja að við Andrés höfum verið með góða mætingu þar sem og í fyrirpartíunum sem fylgdu. Það var alltaf mjög gaman á þessum böllum hvort sem það var '85-ballið fræga eða önnur böll.

Andrés var handlaginn og hafði lagt stund á nám í húsasmíði. Leitaði ég til hans með aðstoð þegar ég var að byggja. Hjálpsemin var svo mikil að hann hringdi oft í mig til að kanna hvort ég þyrfti ekki á aðstoð hans að halda. Hjálp hans var ómetanleg og var mikið pælt og skrafað áður en veggir og annað var sett upp.

Andrés og Margrét, kærasta hans til margra ára, eignuðust það allra dýrmætasta sem Andrés átti, hana Telmu Svövu. Hún var sólargeislinn hans og sýndi hann henni alúð og ást allar stundir.

Á stuttri ævi Andrésar komu mörg þung högg. Hann greinist með þennan sjúkdóm og missir síðan móður sína og föður með stuttu millibili.

Andrés tókst á við veikindi sín og áföll af æðruleysi og hugrekki. Ég er þakklátur fyrir vináttu hans og þann kærleik sem hann sýndi mér og fjölskyldu minni. Ég veit að þú ert á betri stað í dag minn kæri vinur.

Ég votta Telmu og öðrum aðstandendum Andrésar samúð mína. Blessuð sé minning Andrésar.

Þinn vinur,

Ragnar Einarsson.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Elsku Addi minn, mér er svo minnisstætt þegar þú þakkaðir mér alltaf svo vel fyrir allt það litla sem ég gerði fyrir þig eða með þér, en ég þakkaði þér líka fyrir að nenna að vera með mér. Samt ætla ég að þakka þér fyrir allar skemmtilegu stundirnar okkar og skemmtilegan aðfangadag, þegar við vorum að spila og skemmtum okkur konunglega yfir þeim sem töpuðu og púuðum á þá sem unnu. Það eru einmitt svona minningar sem ég vil að standi upp úr svo tali ég nú ekki um allar myndirnar, þær segja líka sína sögu.

Ég trúi því að nú séu fagnaðarfundir þar sem þú ert kominn til mömmu og pabba ásamt ömmum og öfum. Það má nú eiginlega segja að það sé orðinn allgóður hópur af fjölskyldunni hjá þér núna, Addi minn, og það eitt veitir mér mikla huggun.

Þú veist að það verður hugsað vel um gullið þitt hana Telmu Svövu og allt fer vel hér hjá okkur.

Elsku Addi minn, ég kveð þig í dag með þessu kvæði sem mér finnst eiga vel við.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Ester Gísladóttir.

Það var mikið áfall fyrir ekki stærri vinnustað að fá þær fregnir að hann Andrés okkar hefði fengið stóra heilablæðingu og látist laugardaginn 3. janúar sl. aðeins 26 ára gamall. Það vissu kannski allir að þetta var yfirvofandi og það vissi hann líka en hann var samt alltaf ótrúlega duglegur og æðrulaus í sínum veikindum.

Andrés vann í fullu starfi, orkumikill og klár ungur maður, búinn að læra trésmíði og var góður sölumaður. En eftir því sem veikindinn fóru að segja til sín varð hann að minnka vinnuna en var þó áfram í hlutastarfi alveg þangað til í haust en þá hætti hann alveg að vinna og fór að einbeita sér að endurhæfingu og öðru.

Hann kom og kíkti á vinnufélagana mjög reglulega og hélt góðu sambandi við vinnustaðinn. Það er okkur vinnufélögunum dýrmæt minning hvað það var Andrési eðlislægt að vera frekar léttur og kátur í sinni erfiðu baráttu við alvarleg veikindi. Eftir standa góðar minningar sem við geymum um góðan dreng og vinnufélaga.

Einkadóttur, ættingjum og vinum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Hinsta kveðja frá vinnufélögum í Húsasmiðjunni í Grafarholti.

Sigurður H. Svavarsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Andrés okkar. Það er sárt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur. Veikindin tóku þig allt of snemma, en nú ertu kominn í faðm foreldra þinna og vakir yfir okkur sem syrgjum.
Við biðjum Guð að blessa minn ing þína
og breyta sorgarmyrkri í ljósan dag
og láta kærleiksröðul skæran skína
og skreyta jörð við lífs þíns
sólarlag.
(Guðmundur Guðmundsson.)

Elsku Andrés. Hafðu þökk fyrir allt og allt og farðu í friði, kæri vinur. Við pössum upp á Telmu þína.
Elmar, Linda og börn.

Elsku pabbi minn. Nú ertu dáinn og farinn frá okkur, ég sakna þín svo mikið og ég er ekki alveg að fatta það að ég get ekki farið í heimsókn til þín og við leikið okkur saman þegar ég kem til Reykjavíkur. Ég veit samt að þú ert kominn til Vidda afa og Stínu ömmu á himnum, þar ertu nú fallegur engill og munt vaka yfir mér og passa mig. Hvíldu í friði, elsku pabbi minn. Knús frá litlu stelpunni þinni. Þín,
Telma Svava.