Sá frasi hefur hljómað alloft undanfarin misseri að nauðsynlegt sé að „tala um erfið mál“ eins og hægrisinnaður bloggari orðaði það fyrir stuttu og átti þá við umræðu um það að múslímar séu óalandi og óferjandi, eiginlega ógurlegar...

Sá frasi hefur hljómað alloft undanfarin misseri að nauðsynlegt sé að „tala um erfið mál“ eins og hægrisinnaður bloggari orðaði það fyrir stuttu og átti þá við umræðu um það að múslímar séu óalandi og óferjandi, eiginlega ógurlegar ógnvekjandi ófreskjur.

Ég verð að viðurkenna að ég verð alltaf jafn hissa að sjá þessa athugasemd því ekki er hægt að segja annað en að mikil umræða hafi átt sér stað einmitt á þessum nótum, sennilega meiri umræða en um nokkurt annað mál síðustu ár; í dagblöðum, á útvarpsstöðvum og á netinu þar sem fjölmargar bloggfærslur, legíó fésbókarfærslna og óteljandi athugasemdir virkra í athugasemdum hafa hamrað á því að íslenskt samfélag sé að hruni komið fyrir atbeina þeirra sem játa íslam. (Það stendur reyndar í trúlausum af hverju kristnir amast við múslímum í ljós þess að þeir tilbiðja sama guðinn – en það er kannski önnur umræða.)

Alþingismaður blandaði sér í þessa umræðu á eftirtektarverðan hátt vikunni þegar hann stakk upp á því að stjórnvöld myndu hefja sérstakt eftirlit með fólki með tilliti til trúarsannfæringar þess. Þegar á hann var gengið vegna þeirra ummæla var svarið (nema hvað): „Það er mikilvægt að við tökum umræðuna.“

Gott og vel, tökum umræðuna og byrjum kannski á því að ræða hvers vegna þeir sem hæst hrópa um ógnir íslams hafa bara áhyggjur af mannréttindum kvenna í múslímaríkjum, en dunda sér annars iðulega við að gera lítið úr íslenskum konum fyrir að krefjast jafnréttis.

Það má líka ræða það hvers vegna þeir sem hæst hafa í gagnrýni á íslam skuli ævinlega beita fyrir sig lygum, útúrsnúningum og ýkjum, og það þó þeim sé ítrekað bent á ósannindin; sífellt er klifað á ógurlegum vandamálum í nágrannalöndum okkar sem íbúar þar kannast ekki við, alið er á ótta með ósannindum um að múslímar fjölgi sér svo hratt að brátt verði þeir í meirihluta í mörgum borgum og/eða löndum, klifað er á þvælunni um að ekki megi byggja kirkjur í múslímalöndum, talað eins múslímar séu kynþáttur en ekki trúflokkur og öllum múslímum er steypt í sama mót þó þeir skiptist í fjölda hópa sem eru um margt ósamstæðir og jafnvel andstæður.

Inn í umræðuna tökum við síðan þá fáránlegu kröfu að múslímar uppi á Íslandi þurfi að biðjast sérstakrar afsökunar á voðaverkum sem unnin eru í öðrum löndum og augljóslega ekki í þeirra nafni. (Í því framhaldi má náttúrlega ræða það hvers vegna kristnir menn hafa enn ekki beðist afsökunar á atburðum í Mið-Afríkulýðveldinu þar sem kristnir herflokkar myrtu þúsundir múslímskra íbúa landsins á síðasta ári. Af hverju hafa hófsamir kristnir menn ekki látið í sér heyra?)

Ræðum svo að lokum þá staðreynd að flest fórnarlömb þeirra morðvarga sem þykjast múslímar eru einmitt múslímar.

Svo sýnist mér það aldrei nógu oft rifjað upp að það er ekki skoðanakúgun þegar aðrir eru á öðru máli en málshefjandi. Þó þeim finnist hann bjáni. arnim@mbl.is

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson