Jónína Guðrún Britton í Winnipeg er 100 ára í dag, 14. janúar 2015. Hún fæddist fyrir réttum 100 árum á bænum Engimýri við Riverton í Manitoba, dóttir hjónanna Magnúsínu Helgu Jónsdóttur Borgfjord og Tómasar Jónassonar. Afi og amma Jónínu í föðurætt voru Tómas Ágúst Jónasson og Guðrún Egedía Jóhannesdóttir, sem fluttust vestur um haf árið 1876 úr Öxnadal og settust þau að í Riverton. Bróðir Tómasar var Sigtryggur Jónasson sem oft hefur verið nefndur faðir Nýja Íslands enda var hann forystumaður íslenskra innflytjenda í Kanada í árdaga hinna miklu fólksflutninga.

Móðurfólk Jónínu kom úr Borgarfirði og af Mýrum. Langamma hennar, Helga Þorsteinsdóttir, flutti vestur um haf frá bænum Litlu Brekku við Langá á Mýrum ásamt seinni manni sínum, Hákoni, og börnum sínum. Einn sona hennar var Jón Magnússon, afi Jónínu, sem tók sér nafnið Borgfjord til aðgreiningar frá fjölmörgum nöfnum sínum vestra.

Jónína var þriðja í röð sjö systkina. Þær voru sex systurnar og einn bróðir, Tómas, sem var yngstur. Jónína giftist árið 1944 Norman Britton af breskum ættum og áttu þau tvær dætur, Judith Normu og Donnu Valdine. Norman lést árið 1992.

Við hittum Jónínu í fyrsta sinn sumarið 2003. Það atvikaðist þannig að við vorum að leita að ættingjum okkar og samkvæmt ábendingu Nelsons Gerrard var hringt í Jónínu. Hún varð mjög glöð að heyra frá frænku sinni í móðurættina en langamma Jónínu, Helga, var systir langömmu Önnu Bjarkar, Guðrúnar Þorsteinsdóttur.

Í fyrsta samtali í síma sem Anna Björk hóf á ensku, voru viðbrögð Jónínu eins og ávallt snör og sagði hún: „Þú þarft ekkert að tala ensku, ég tala íslensku.“ Sama dag vorum við komin heim til Jónínu á Ferry Road í kaffi og vínartertu. Síðan eru kaffiboðin á heimili Jónínu orðin mörg enda alltaf fyrsta mál á dagskrá í heimsóknum okkar til Winnipeg að hitta hana og spjalla.

Fyrir 10 árum þegar Jónína var orðin níræð kom hún í heimsókn til Íslands ásamt dóttur sinni Judy. Við fórum með þeim mæðgum um landið á slóðir forfeðra hennar í Borgarfirði og á Mýrum og í Öxnadal.

Árið 2011 tóku eldhugar í Riverton, í félagi sem nefnist „The Icelandic River Heritage Sites Inc.“ við æskuheimili Jónínu, Engimýri, og hófu að endurbyggja húsið til að varðveita sögu þess og gera aðgengilegt almenningi. Okkur er í fersku minni hve hrærð hún var yfir framtaki þessa góða fólks. Hún gekk um húsið með Nelson Gerrard og lýsti fyrir honum á mjög skýran hátt heimilisaðstæðum og talaði lengi um dvöl afabróður síns Sigtryggs Jónassonar, sem bjó í níu ár á heimilinu með fjölskyldunni. Það var hrein unun að hlusta á frásagnir Jónínu um æsku sína og uppvöxt. Hún var afar stolt af sinni íslensku arfleifð.

Í október 2012 heiðruðu eldhugarnir í Riverton minningu Sigtryggs Jónassonar með því að reisa veglega styttu af honum á bakka Íslendingafljóts. Jónína afhjúpaði hana í félagi við Rannveigu dóttur uppeldissonar Sigtryggs. Við það tækifæri flutti Jónína ávarp sem var lifandi lýsing á hvernig var sem ung stúlka að alast upp í fjölskyldu og í nánd við þennan merka afabróður sinn.

Jónína Britton er sannarlega glæsilegur kyndilberi við tengingu okkar við líf og aðstæður íslensku landnemanna í Vesturheimi og afkomendur þeirra. Við sendum kærar kveðjur og árnaðaróskir yfir hafið til Jónínu og fjölskyldu hennar.

Almar Grímsson og Anna Björk Guðbjörnsdóttir.