Umræða Samkenndin sem var áberandi í París eftir hryðjuverkaárásirnar í Frakklandi virðist ekki hafa skilað sér inn í umræðuna hér á landi.
Umræða Samkenndin sem var áberandi í París eftir hryðjuverkaárásirnar í Frakklandi virðist ekki hafa skilað sér inn í umræðuna hér á landi. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Viðbrögðin hafa komið mjög á óvart. Ég áttaði mig ekki á því að ekki mætti tala um þessi mál.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Viðbrögðin hafa komið mjög á óvart. Ég áttaði mig ekki á því að ekki mætti tala um þessi mál. Það er eins og þöggun sé í samfélaginu um þau,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurður um viðbrögð við færslu á Facebook-síðu hans á laugardag þar sem hann veltir upp spurningum um öryggi Íslendinga og spyr meðal annars hvort bakgrunnur þeirra 1.500 múslíma sem búa á Íslandi hafi verið kannaður.

Nánar um viðbrögðin ítrekar Ásmundur að þau komi á óvart, ekki síst í ljósi þess að heimurinn hafi verið að mótmæla því að 12 blaðamenn sem unnu í skjóli tjáningarfrelsis hafi verið drepnir. „Þegar ég varpa fram spurningum um öryggi okkar er maður tekinn af lífi af fjölmiðlum og opinberum síðum.“

Óviðeigandi ummæli

Margir hafa lýst yfir stuðningi við sjónarmið þingmannsins á Facebook en andúðin hefur verið áberandi. Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur Ásmund til að biðjast afsökunar á ummælum sínum, þau séu virkilega óviðeigandi hjá manni sem eigi sæti í æðstu stofnun Íslendinga. Þau séu í engu samræmi við grunngildi flokksins um einstaklingsfrelsli og borgararéttindi.

Unnur Brá Konráðsdóttir, samþingmaður Ásmundar í Suðurkjördæmi, gagnrýnir ummælin í færslu á Facebook-síðu sinni. Hún segir að í opnu og lýðræðislegu samfélagi, sem standi vörð um mannréttindi, séu einstaklingar ekki rannsakaðir sérstaklega af hálfu ríkisins á grundvelli trúarskoðana.

„Það hefur enginn af þeim sem hafa verið að senda mér svona skilaboð á opinberum vettvangi haft dug í sér til þess að hafa samband við mig. Það er lítill dugur í fólki sem ekki getur horft framan í mann,“ segir Ásmundur.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, segir í samtali við Morgunblaðið að sjónarmið Ásmundar endurspegli ekki sjónarmið þingflokksins enda hafi málið ekki verið rætt þar í heild. Hún segir að einstakir þingmenn tjái sínar skoðanir. „Mér finnst skipta máli að þessi voðaverk voru framin vegna þess að þetta blað hélt fram skoðunum og lét ekki hótanir hafa áhrif á það,“ segir Ragnheiður en tekur um leið fram að sér finnist málflutningurinn í gagnrýni á þingmanninn nokkuð harkalegur, menn verði að virða mismunandi skoðanir.

Glæpamenn ekki velkomnir

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifaði á vef Evrópuvaktarinnar: „Haldi Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að íslensk stjórnvöld hafi heimild til að gera bakgrunnsathugun á öllum sem játa múhameðstrú á Íslandi, sýnir það best fávisku hans.“ Benti hann á að þingmaðurinn yrði að flytja frumvarp á Alþingi um að breyta lögum í þá veru að unnt verði að gera rannsóknina sem hann nefndi til sögunnar.

„Ég er ekki sérfræðingur í lögum. Ég er bara að ræða um að það þurfi að fylgjast með fólki til að tryggja öryggi okkar,“ segir Ásmundur um þessa gagnrýni.

Hann viðurkennir að það hafi verið óheppilegt að nefna múslíma sérstaklega en vekur athygli á því að múslímar hafi sjálfir varað við öfgahópum úr þeirra röðum, að þeir væru að koma hingað til lands. „Það er alveg sama hvaða trú menn hafa eða litarhátt, ef þeir eru glæpamenn eigum við ekki að bjóða þá velkomna. Menn hljóta að geta verið sammála um það.“

Erum við örugg á Íslandi?

Í Danmörku eins og um allan heim er hugurinn með frönsku þjóðinni. Viðbjóðsleg hryðjuverk í nafni múslima eru fordæmd. Ég velti fyrir mér hvort við séum óhult á Íslandi.

Ég spyr; hefur innanríkisráðuneytið eða lögreglan gripið til einhverra ráðstafana til að vernda Íslendinga fyrir slíkum árásum? Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrlandi eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima. Mér hefur ekki áður dottið í hug að spyrja slíkra spurninga því ég trúi alltaf á það góða í öllu fólki en það á ekki lengur við þegar öryggi þjóðarinnar er undir.