Frábær Sigurður Þorsteinsson fór á kostum með Solna í gærkvöld.
Frábær Sigurður Þorsteinsson fór á kostum með Solna í gærkvöld. — Morgunblaðið/Ómar
Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti sinn besta leik í vetur með liði Solna Vikings, alla vega ef horft er til tölfræðinnar, þegar liðið vann góðan sigur á Umeå í gær í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik, 81:71.

Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti sinn besta leik í vetur með liði Solna Vikings, alla vega ef horft er til tölfræðinnar, þegar liðið vann góðan sigur á Umeå í gær í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik, 81:71. Sigurður var stigahæstur í leiknum með 21 stig og tók auk þess 10 fráköst. Sigurður hitti til að mynda úr þremur af fjórum þriggja stiga skotum sínum sem telst til tíðinda hjá miðherjanum.

Solna er í 7. sæti deildarinnar með 18 stig en þar fyrir ofan er hörð toppbarátta þar sem tvö stig skilja að liðin í 1. og 6. sæti, en liðin sex hafa þó leikið mismarga leiki. Íslendingaliðin Sundsvall Dragons og LF Basket eru í þessum þétta pakka. Sundsvall vann sætan sigur á Uppsala á útivelli, 79:77, þar sem Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru atkvæðamestir hjá Sundsvall en Jakob skoraði 19 stig og Hlynur 14. Sundsvall er tveimur stigum frá toppnum líkt og Haukur Helgi Pálsson og félagar í LF Basket sem unnu öruggan sigur á KFUM Nässjö, 94:77, eftir að hafa reyndar verið fimm stigum undir í hálfleik, 53:48. Haukur skoraði 14 stig.