Handahjólreiðar Arna Sigríður Albertsdóttir keppti áður á skíðum og í fótbolta. Nú stefnir hún á Ólympíumótið í Ríó í nýrri grein..
Handahjólreiðar Arna Sigríður Albertsdóttir keppti áður á skíðum og í fótbolta. Nú stefnir hún á Ólympíumótið í Ríó í nýrri grein.. — Ljósmynd/ÍF
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íþróttir fatlaðra Kristján Jónsson kris@mbl.is Hjá Íþróttasambandi fatlaðra hafa þrjár íþróttagreinar verið langmest áberandi í gegnum tíðina: sund, frjálsar og botsía.

Íþróttir fatlaðra

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hjá Íþróttasambandi fatlaðra hafa þrjár íþróttagreinar verið langmest áberandi í gegnum tíðina: sund, frjálsar og botsía. Má segja að þetta hafi verið undirstöðugreinarnar hjá fötluðu íþróttafólki hérlendis í áratugi. Nú horfir hins vegar svo við að breiddin í íþróttaflórunni hjá ÍF hefur aukist nokkuð á skömmum tíma. Bæði hvað varðar sumar- og vetraríþróttir.

Að sögn Jóns Björns Ólafssonar, starfsmanns hjá ÍF, er ekki síst um að ræða frumkvæði íþróttafólksins sjálfs. Nefnir hann sérstaklega fjóra íþróttamenn til sögunnar sem þurfa á flóknum búnaði að halda til þess að stunda sínar greinar. Arna Sigríður Albertsdóttir sem stundar handahjólreiðar, Jóhann Þór Hólmgrímsson sem keppir á skíðastól, Arnar Helgi Lárusson er í hjólastólakappakstri og Pálmi Guðlaugsson í þríþraut þar sem hann notast við sérstakt hjól.

Eykur nýliðun hjá ÍF

Hingað til hafa greinarnar lítið verið inni á borði ÍF og segir Jón að íþróttafólkið sjálft hafi því kennt ÍF eitt og annað varðandi greinarnar og þróun í búnaði og öðru. Jón lýsir þessu sem ferskum vindum í íþróttalífi fatlaðra á Íslandi.

„Aukin fjölbreytni í greinunum gæti verið til þess fallin að fjölga í röðum fatlaðra íþróttamanna því við höfum glímt við ákveðið nýliðunarvandamál. Ef fjölbreytnin er fyrir hendi þá er vissulega auðveldara að kynna íþróttirnar fyrir fötluðum, því valkosturinn sund, frjálsar eða botsía á ekkert endilega við alla. Við fögnum þessu gríðarlega vegna þess að skortun á nýliðun er eitthvað sem við höfum áhyggjur af. Þegar nýir iðkendur bætast í okkar félög þá fögnum við því sem stórsigri. Það er nýlunda fyrir okkur að þurfa þekkja loftþrýsting í dekkjum, ál og Carbon fiber. Um þetta er mikið lesið þessi dægrin,“ sagði Jón Björn þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Eins og í ýmsum íþróttagreinum þá er enginn dans á rósum að stunda sumar þessara greina hérlendis.

„Einn helsti ókosturinn við að stunda þessar greinar, sem krefjast búnaðar sem hér um ræðir, á Íslandi er veðurfarið. Varla hefur verið auðvelt að stunda handhjólreiðar hérlendis síðustu sex til átta vikurnar. Eins góð og frjálsíþróttahöllin er þá virkar hún ekki alveg í þessu tilfelli því í handahjólreiðum þarftu að fara 20-70 km á dag og helst ekki í hringi. Sama gildir um maraþonið í hjólastólunum hjá Arnari og þríþrautinni hjá Pálma. Þó er magnað hvað sumir geta samt gert,“ benti Jón Björn á.

Umfangsmikil fjármögnun

Kostnaðarhliðin á málinu hefur ekki verið reifuð hér en ljóst er að sá þáttur er ekki léttvægur. Búnaðurinn sjálfur er dýr og kostnaðarsamt að verða sér úti um hann. Það liggur fyrir. Ofan á það bætist kostnaður við að keppa erlendis.

„Alla jafna eru fremur fáir keppendur í íþróttum fatlaðra hérlendis. Þeir sem skara fram úr hjá okkur fá litla samkeppni hér heima. Í þeirra tilfellum snýst fjármögnunin ekki bara um búnaðinn sjálfan heldur einnig þátttöku í gildum mótum erlendis. Þessir brautryðjendur okkar glíma við þetta vandamál og við hjá sambandinu reynum að hjálpa þeim eftir fremsta megni. Við getum afskaplega lítið gert varðandi aðstöðuna en fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni. Við bindum vonir við að þessir brautryðjendur veki áhuga á greinunum og dragi fleiri með sér, beint eða óbeint. Við höfum átt góðu gengi að fagna í sundi, frjálsum, botsía, borðtennis og lyftingum. Nú er heimurinn þannig að hægt er að fletta upp öllum íþróttum sem hægt er að stunda á Youtube. Fólk sér það á 0,1 og við verðum því að vera með einhverja fjölbreytni í starfseminni.“

Arnar smíðaði sinn eigin stól

Jón tekur það fram að hægt sé að fara ýmsar leiðir að því að koma sér upp keppnisbúnaði. Ekki sé útilokað að hægt sé að fara ódýrari leiðir en að kaupa dýran keppnisbúnað tilbúinn til notkunar.

„Að hefja þátttöku í svona búnaðargreinum er dýrt, ég tala nú ekki um ef þú ætlar að flytja inn til landsins öflugan keppnisbúnað eins og stólana. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra hefur farið þá leið að þróa þessi tæki á ódýrari máta sem geti gert það að verkum að ódýrara sé fyrir fólk að prófa og komast til botns í því hvaða grein það vill stunda. Er það jákvætt skref. Þetta er aðeins flóknara reikningsdæmi en að afhenta iðkanda sundskýlu eða gaddaskó. Þessi búnaður safnast upp til lengri tíma og þekkingin safnast upp. Arnar Helgi tók upp á því að smíða sinn eigin stól en hann er mjög handlaginn. Stóllinn er glæsilegur og hefur Arnar keppt á honum á Evrópumeistaramóti. Uppfylla þarf staðla varðandi fjarlægð rass frá jörðu, stærð hjóla, stærð gjarða og þess háttar en annars má hann nánast sjóða stólinn sinn saman úr hvaða efni sem er,“ sagði Jón Björn Ólafsson ennfremur við Morgunblaðið.

Arna Sigríður setur stefnuna á Ríó

Ísfirðingurinn Arna Sigríður Albertsdóttir keppir í handahjólreiðum eins og fram kemur í greininni hér til hliðar. Arna keppti á skíðum þar til hún slasaðist fyrir átta árum en hefur hellt sér af fullum krafti út í nýja keppnisgrein og setur stefnuna á ólympíumótið í Ríó á næsta ári.

„Ég fékk fyrsta hjólið 2010 sem var byrjendahjól úr áli. Líklega var ég farin að hjóla mikið og langt einu eða tveimur árum síðar. Þá fór ég að keppa í víðavangshlaupum hérna heima. Ég hjóla um það bil sex sinnum í viku og lyfti þrisvar í viku. Ég fer yfirleitt ekki undir 15 kílómetra en fer ekki lengra en 42 kílómetra á undirbúningstímabilinu um þessar mundir. Yfir veturinn er ég mikið innandyra vegna þess að hjólið kallar á að aðstæður séu góðar,“ sagði Arna þegar Morgunblaðið ræddi við hana og hún segir bakgrunn sinn úr skíðunum hjálpa til varðandi hugarfarið.

„Það skemmir alla vega ekki fyrir enda gott að kunna að æfa. Ég keppti einnig í fótbolta og allt hjálpar þetta til.“

Keppir erlendis í sumar

Næsta stóra markmið Örnu er að vinna sér þátttökurétt í Ríó og hún ætlar sér að keppa eins mikið og mögulegt er á erlendum vettvangi í sumar.

„Ég hef horft til Ríó og stefni þangað. Er það mitt aðalmarkmið eins og er. Heimsbikarmót og Evrópumót gilda til stiga varðandi ólympíumótið. Keppnisgreinarnar hjá mér eru sambærilegar og þegar keppt er í hjólreiðum hjá ófötluðum. Keppt er í nokkrum vegalengdum frá 20 km upp í 50 km. Ég er sú eina sem keppir í þessu hérlendis og mun því reyna að keppa eins mikið erlendis og ég get bæði í vor og í sumar. Það er dýrt og því fylgja erfið ferðalög en ég býst við því að vera í því fram á haustið. Ég er með góða styrktaraðila en þetta er gríðarlega kostnaðarsamt og það á eftir að koma í ljós hvernig fjármögnunin mun ganga.“

Búnaður ekki undir milljón

Mikill kostnaður fylgir því einnig að koma sér upp búnaði til þess að geta stundað íþróttina af krafti og keppa í henni á alþjóðlegum vettvangi. Arna segist hafa haft heppnina með sér og fengið góðan fjárhagslegan stuðning.

„Ég var svo ótrúlega heppin að fá góðan styrk frá einkaaðilum. Fyrir vikið varð minna mál fyrir mig að fjárfesta í hjólinu. Til þess að vera keppnishæf er ekki hægt að eyða undir milljón í búnaðinn. Ég renndi hins vegar svolítið blint í sjóinn með að kaupa búnað því lítið er til hérna heima. Ég fór því út í að panta vörur í gegnum netið sem mér leist vel á. Ég hef keppt á carbon fiber-hjóli síðan í vor og er það mjög gott keppnishjól. Mér gekk mjög vel á því strax á fyrsta móti. Hjólið er sérsmíðað fyrir mig hvað varðar hæð og líkamsþyngd. Þar af leiðandi ætti hjólið að duga mér í nokkur ár,“ sagði Arna Sigríður Albertsdóttir.