[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Okkar aðaláhyggjuefni er sú litla uppbygging sem á sér stað á hjúkrunarrýmum í Reykjavík,“ segir Elín Oddný Sigurðardóttir varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Fréttaskýring

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Okkar aðaláhyggjuefni er sú litla uppbygging sem á sér stað á hjúkrunarrýmum í Reykjavík,“ segir Elín Oddný Sigurðardóttir varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Hún segir að þrátt fyrir byggingu hjúkrunarrýma, á Hrafnistu í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, sé það ekki í takt við þá fjölgun aldraðra sem spáð er.

Þá bendir hún á að fulltrúar velferðarsviðs hafi verið í viðræðum við ríkið um fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi ekki gengið sem skyldi, en öll hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt sameiginlega.

Þörf á 300 hjúkrunarrýmum til viðbótar til 2020

Á síðasta fundi velferðarráðs var lagt fram minnisblað um þarfagreiningu vegna uppbyggingarstefnu Reykjavíkurborgar í húsnæðismálum hvað varðar hjúkrunarrými. Þar kemur meðal annars fram að til ársins 2020 er þörf á 300 hjúkrunarrýmum til viðbótar, til ársins 2025 er þörfin um 600 rými og til ársins 2030 er þörf á um 1.100 rýmum.

Hjúkrunarrými eru ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða sértækri búsetu.

Ekki reiknað með breytingum í heilbrigðismálum

Í áætluninni um þörf á hjúkrunarrýmum er sett fram spá sem er reiknuð út frá mannfjölda, heildarfjölda rýma árið 2012 að viðbættum fjölda á biðlista og þeirri uppbyggingaráætlun sem samþykkt var árið 2012. Auk þess er gert ráð fyrir sama þjónustustigi í heimaþjónustu, dagdvöl og þjónustuíbúðum og ekki er gert ráð fyrir að umtalsverð breyting verði í heilbrigðismálum sem gæti dregið úr núverandi þörf eða aukið hana.

Íslenska þjóðin eldist, sem endurspeglast m.a. í aukinni þörf fyrir hjúkrunarrými. Í minnisblaðinu kemur fram að hlutfall Íslendinga 67 ára og eldri er 10,31% af heildarmannfjölda. Árið 2020 verður hlutfallið 12,81% og árið 2040 18,39%. Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var gert ráð fyrir að 25% fólks 80 ára og eldra hefðu aðgang að hjúkrunarrýmum. Árið 2013 eru eingöngu 16% þessa aldurshóps í Reykjavík búsett í hjúkrunar- eða dvalarrými. Til samanburðar voru 18,4% þessa aldurshóps með búsetu á hjúkrunar- eða dvalarrými árið 2008.

Skora á heilbrigðisráðherra

„Velferðarráð skorar á heilbrigðisráðherra að standa við gefin loforð varðandi uppbyggingu hjúkrunarrýma í Reykjavík sem fyrst.“ Þetta kemur fram í bókun velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í apríl árið 2013. Í henni fólst að velferðarráðuneytið lýsti yfir vilja til að reisa 88 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg í samvinnu við Reykjavíkurborg á árunum 2014-2016. Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Sjómannadagsráð/Hrafnista munu svo gera sérstakan samstarfssamning um starfsemi hjúkrunarheimilisins áður en framkvæmdir hefjast vorið 2014.

Vilja efla samstarf

Bæði Reykjavíkurborg og ríkið vinna að því að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu við aldraða. Þetta samstarf er í nokkrum hverfum borgarinnar.

„Við sjáum það í svona verkefnum að það er mikilvægt fyrir ríki og borg að ganga í takt. Og við viljum sjá meira í þessum anda þar sem unnið er saman að því að efla stoðþjónustu við aldraða, s.s heimaþjónustu, dagdvöl og hvíldarinnlagnir fyrir eldri borgara sem lifa við heilsubrest í Reykjavík,“ segir Elín Oddný Sigurðardóttir, varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, en hún gegnir þar formennsku í fjarveru Bjarkar Vilhelmsdóttur.