Ásgeir Markús Jónsson fæddist í Rafstöðinni við Elliðaár 15. apríl 1943. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut að morgni 4. janúar 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Gunnþórunn Markúsdóttir húsfrú, f. 30. október 1915, d. 27. ágúst 2001, og Jón Ásgeirsson stöðvarstjóri, f. 26. október 1908, d. 20. febrúar 1978. Ásgeir átti tvær yngri systur, Sigríði, f. 8. febrúar 1946, d. 8. október 1993, og Guðrúnu, f. 21. mars 1950. Eftirlifandi eiginmaður Sigríðar er Pétur Sigurðsson en eiginmaður Guðrúnar er Guðmundur M. Guðmundsson.

Á uppvaxtarárum sínum bjó hann með fjölskyldu sinni í Rafstöðinni við Elliðaár þar sem faðir hans starfaði. Ásgeir var gagnfræðingur og lauk einum vetri í Kennaraskóla Íslands við Laufásveg. Árið 1963 giftist hann fyrri konu sinni, Gerði Ólafsdóttur, f. 30. mars 1943 en hún lést 24. janúar 1986. Þau eignuðust tvö börn; Ólaf Jón, f. 3. júní 1965 en börn hans eru Axel Markús og Kristrún María, og Gerði Rós, sem er gift Sigurði Heiðari Wiium. Börn þeirra eru Sigurður Jóel, Sandra Rós, Karin Rós og Gerður Eva. Árið 1987 giftist Ásgeir seinni konu sinni, Maríu Mörtu Sigurðardóttur, f. 3. október 1964. Þeirra börn eru Davíð, Rakel og Samúel. Unnusti Rakelar er Einar Gunnarsson og unnusta Samúels Lovísa Snorradóttir.

Ásgeir fór á vegum Loftleiða til flugvirkjanáms í Tulsa, Oklahoma og lauk þar námi 1964. Eftir námið hóf hann störf sem flugvirki og síðar sem flugvélstjóri hjá Loftleiðum /Flugleiðum. Þá starfaði hann sem flugvélstjóri hjá Cargolux í Lúxemborg til margra ára. Hann var einn af stofnendum Bláfugls, sat í fyrstu stjórn þess og var tæknistjóri félagsins til ársins 2009 þegar heilsa hans brast.

Mörg kristileg félög nutu krafta hans. Hann var virkur félagi í KFUM og sat í stjórn þess félags um árabil. Formaður sumarbúðanna í Kaldárseli var hann í 10 ár og kom ýmsu góðu til leiðar þar ásamt félögum sínum. Sem ungur maður gerðist hann félagi í Gideon og fór í fjölmargar skólaheimsóknir með Nýja testamentið til 10 ára barna. Hann var félagi í Karlakór KFUM og naut þess ásamt því að starfa sem sjálfboðaliði á útvarpsstöðinni Lindinni.

Útför Ásgeirs Markúsar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 14. janúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku besti pabbi minn. Ég get ekki lýst því með orðum hversu erfitt það er að setjast niður og skrifa minningargrein um þig. Ég trúi því ekki enn að þú sést farinn frá okkur og mun vera lengi að venjast því. Á sama tíma á ég mjög auðvelt með að skrifa um þig þar sem þú varst svo stór og mikilvægur hluti af mínu lífi.

Ég er virkilega stolt og þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þig sem föður og vin í nær 25 ár. Þú varst stoð mín og stytta í lífinu og stóðst alltaf sem klettur við bakið á mér. Þú sýndir öllu sem ég gerði í lífinu áhuga og hvattir mig áfram í einu og öllu sama hvort sem það var píanónám, fótbolti, íþróttafræðin í HR eða störfin mín í MAC og Borgarleikhúsinu. Þér fannst allt svo spennandi og vildir fá fréttir af öllu. Þú kenndir mér svo margt í lífinu sem ég mun ætíð fara eftir og lifa með.

Í öll þessi ár sem þú barðist við krabbameinið varstu alltaf svo glaður, jákvæður, duglegur og bjartsýnn. Þú treystir Guði fyrir þér og því að hann myndi svara bænum þínum. Þú komst svo langt á hugarfarinu einu og trúnni og reist alltaf upp eftir hvern uppskurðinn og lyfjagjöfina. Húmorinn þinn var alltaf til staðar allt fram á síðasta dag. Þú spurðir alla aðra hvernig þeir hefðu það og hafðir áhyggjur af öllum öðrum en sjálfum þér þó svo að þú hefðir verið veikastur.

Ég á svo ótal margar og verðmætar minningar frá því í æsku. Þegar við vorum að sækja þig til Keflavíkur úr flugi og biðum við glerið eftir að þú kæmir niður rúllustigann. Póstkortin sem bárust víðs vegar úr heiminum og fallegu gjafirnar frá þér. Þú ferðaðist með okkur út um allan heim, fórst með okkur um landið og allar dýrmætu stundirnar sem við áttum í Sæluvík.

Það er mér svo minnisstætt í ágúst þegar við fórum í fjölskylduferð til Akureyrar um verslunarmannahelgina og við Einar tilkynntum ykkur að við ættum von á barni. Gleðin, tárin og spennan sem ríkti var mikil og þú varst svo spenntur fyrir afastelpunni. Ég er svo þakklát fyrir stundina sem við Einar áttum með þér á Þorláksmessukvöldi heima í Bugðutanganum, hún var mér svo dýrmæt.

Þú varst besti faðir sem nokkur gæti hugsað sér. Jafn góða manneskju og þig var erfitt að finna. Þú varst einstakur. Ég veit að þú munt leiða mig áfram í lífinu og vaka yfir okkur. Eins og ég sagði við þig þegar við kvöddumst í síðasta sinn þá verður þú ætíð fyrirmyndin mín í gegnum lífið, þá sérstaklega þegar ég fæ það hlutverk í mars að verða foreldri sjálf.

Eins mikið og við þráðum öll að geta átt lengra líf saman þá er ég svo þakklát fyrir öll árin sem við fengum saman og að þú hafir ekki þurft að kveljast lengur eftir þessa löngu baráttu. Þú fórst í svo miklum friði, svo fallegur, verkjalaus og ekki með eina einustu hrukku enda varstu alltaf svo unglegur.

Þú munt ætíð vera í hjarta mínu og mun ég segja litlu afastelpunni frá Ásgeiri afa, hversu frábær hann var og munum við mæðgur hlusta saman á fallega diskinn frá þér og hugsa til þín.

Ég elska þig óendanlega mikið, pabbi minn, og sakna þín.

Guð geymi þig. Við sjáumst seinna.

Þín pabbastelpa,

Rakel.

Tengsl og fölskvalaus vinátta okkar Ásgeirs hefur nú varað í yfir 46 ár og aldrei borið skugga á.

Það er vægt til orða tekið að segja að Ásgeir var einstakur maður. Ljúfur í viðmóti og alltaf tilbúinn að víkja einhverju góðu og uppbyggilegu að öllum sem áttu við vanda lífsins að etja. Við sem nær honum stóðum sáum þetta, fundum og nutum. Ásgeir hafði fengið, ásamt fjölmörgum kostum, úthlutaða ríkulega samhygð. Hann skildi öðrum betur vanlíðan veikinda og áfalla og gat miðlað og gefið endalaust af sjálfum sér öðrum til blessunar. Hann kunni svo vel að gefa og miðla elsku og huggun til þeirra sem á þurftu að halda. Þetta sást svo vel í hans eigin langvarandi veikindum, sem hann mætti með æðruleysi og trú á Guð. Það var ógleymanlegt og fallegt að sjá, þegar hann, án tillits til eigin heilsu, heimsótti og gaf styrk öðrum sem áttu við veikindi að stríða.

Okkur sem fylgdumst með löngum veikindum Ásgeirs verður ógleymanleg þolgæði hans og trúfesti sem aldrei brast. Ásgeir var trúaður og treysti Guði sínum án efasemda, þótt í lífi hans hafi skipst á skin og skúrir, áföll og gleði.

Þegar nær dró endalokunum þakkaði hann Guði fyrir Mæju, öll börnin og barnabörnin sem hann náði að fylgja til nokkurs þroska.

Elsku Mæja, börnin hans og barnabörn, þið hafið misst mikið. Megi Guð, sem Ásgeir þekkti og treysti svo vel, vera ykkur stuðningur í sorginni.

Þinn mágur og vinur,

Pétur Sigurðsson.

Látinn er kær mágur og svili Ásgeir Markús Jónsson eftir erfið veikindi. Kynni okkar hófust fyrir 28 árum er hann og María Marta systir mín felldu hugi saman. Hann hafði þá verið ekkill um skeið. Okkur var ljóst að þar fór einstakur maður, hjartahlýr, umhyggjusamur og greiðvikinn. Hjónaband þeirra var afar farsælt og einkenndist af gagnkvæmri ást og kærleika.

Við hjónin og börnin okkar nutum gestrisni hans bæði hér heima og í Lúxemborg. Margar góðar stundir áttum við saman og minnumst við þeirra með þakklæti. Ásgeir tók alltaf á móti okkur opnum örmum og gaf sér tíma fyrir okkur. Ferðin okkar til Lúxemborgar er okkur í fjölskyldunni ofarlega í huga. Þá ferðuðumst við ásamt Maríu og Ásgeiri til Frakklands og Þýskalands og nutum leiðsagnar hans. Aldrei bar skugga á þrátt fyrir að börnin væru ung að árum og miðaðist ferðin að miklu leyti við það að gleðja þau.

Hann var óþreytandi í að vitja sjúkra, deyjandi og aldraðra eða þeirra sem áttu á einhvern hátt um sárt að binda. Hélt hann því áfram meðan kraftar leyfðu. Þar kom hann að með sinni miklu umhyggjusemi og nærgætni, miðlaði af því sem honum var dýrmætast, kærleika Jesú Krists. Ungur að árum tók hann þá ákvörðun að gera Jesú Krist að leiðtoga sínum og honum þjónaði hann allt til dauðadags.

Snyrtimennska einkenndi Ásgeir og hann var mjög handlaginn og nákvæmur. Kom það sér vel í starfi sem flugvirki og flugvélstjóri. Það sýndi sig einnig í tréútskurði þar sem viðarbútar breyttust í ýmsa listagripi. Síðustu misseri hélt hann námskeið fyrir eldri borgara í útskurði og miðlaði af hagleik sínum.

Ásgeir var áhugasamur trjá- og blómaræktandi sem glöggt má sjá í sælureitnum hans við Hafravatn. Hann ræktaði garðinn sinn af mikilli alúð. Fegurstu blómin í garðinum hans voru þó konan hans, börnin og barnabörnin sem hann unni mest og hafði unun af að sjá vaxa og dafna og var hann óþreytandi við að hlúa að. Missir þeirra er mikill en þau hugga sig við góðu minningarnar og þá vissu að hann sé kominn heim til Guðs og hvíli nú við föðurhjarta hans.

Við vottum Maríu okkar, börnum, tengdabörnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð og biðjum þeim huggunar og umvefjandi blessunar Guðs.

Sigurlína og Magnús.

Á Þorláksmessu hittumst við Ásgeir móðurbróðir minn og hann var að tálga úr tré á sinn listræna hátt Jesú Krist. Líklega vissi Ásgeir að stutt væri í að hann væri á leið til fundar við Frelsarann og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kveðja Ásgeir frænda á þennan hátt.

Ásgeir var mömmu heitinni svo mikið og það er til marks um hlutverk hans sem stóra bróður að í æsku var mamma oft kölluð Sigga Ásgeirs. Síðar áttum við bræðurnir, fjölskyldur okkar og pabbi eftir að njóta kærleika og stuðnings frá stóra bróður mömmu alla tíð bæði á sorgar- og gleðistundum.

Ásgeir frændi hefur alltaf verið mikill partur af lífi mínu og það gerir kveðjustundina erfiða og söknuðinn mikinn. Í uppvextinum var ég heimagangur á heimili hans þar sem við Óli Jón brölluðum ýmislegt saman. Síðar áttum við Ingibjörg líka því láni að fagna að fá að passa krakka Ásgeirs og Mæju og fyrir þann vinskap sem við áttum bæði hér heima og erlendis erum við þakklát. Ég fékk að vinna með Ásgeiri frænda í heildsölu hans samhliða skóla og báðir vorum við félagar í KFUM þar sem starfið í Kaldárseli og Vatnaskógi var okkur báðum mikilvægt. Það er alveg sama á hvaða vettvangi ég nefndi frændskap okkar, alltaf töluðu allir um kærleiksríka framkomu Ásgeirs. Starfsfélagar frænda míns kölluðu hann Geira góða, viðurnefni sem hann fyllilega stóð undir.

Það er erfitt að kveðja Ásgeir frænda en ég get með sanni sagt að líf mitt hafi verið blessað af því að hafa fengið að njóta kærleiksríks stuðnings hans og fyrirmyndar í lífi og starfi. Þó Ásgeir hafi glímt við erfiðan sjúkdóm var viðhorf hans alltaf það sama að hugsa meira um náungann en sjálfan sig. Líf hans alveg til hins síðasta einkenndist af friði þess sem átti og lifði í samræmi við það að eiga lifandi trú á Jesú, frelsara sinn og Drottinn.

Það er erfitt til þess að hugsa að fyrir örfáum dögum var Ásgeir frændi að tálga Frelsarann úr spýtu. Fullvissa þess að nú hvílir hann í faðmi Jesú dregur úr sársaukanum að missa kæran frænda og vin.

Sigurður Pétursson.

Mig langar til að minnast Ásgeirs móðurbróður míns í fáeinum orðum. Ég hef alltaf verið hreykinn af Ásgeiri frænda. Það var ævintýrablær yfir honum, frá sjónarhóli barnsins. Hann bæði bjó úti í heimi og hafði þann starfa að fljúga í stórum flugvélum. Við bræðurnir nutum góðs af þessu – í raun alla tíð og greiðvikni Ásgeirs átti sér að virðist engin takmörk. Tengslin hafa ávallt verið náin milli fjölskyldna okkar og sérstaklega í gegnum veikindi og ótímabært fráfall mömmu. Þá reyndum við einstaka eiginleika Ásgeirs. Þegar ég varð eldri skildi ég betur að mannkostir Ásgeirs, þessi góða nærvera, greiðvikni og umhyggja fyrir öðrum, voru einstakir. Hjá okkur mörgum geta raunir lífsins hert hjartað þannig að sakleysi og einlægni fá lítið pláss. Hvernig fór Ásgeir Markús að því að halda jafnaðargeði sínu og gæsku þrátt fyrir lífsins raunir? Ég hef oft velt því fyrir mér og nærtækasta svarið er að hann leyfði hinum kristna boðskap náungakærleika og vonar að hafa rík áhrif í lífi sínu. Trúin var hans haldreipi og svo ofarlega í hans orðum og gjörðum. Þannig var Ásgeir og þannig mun ég minnast hans. Hann sýndi mér að hin kristna trú er ekki bara orð, kenning eða skoðun. Hún er lífsbreytandi afl, vonar, kærleika og umhyggju fyrir náunganum. Ég veit ekki hvort Ásgeir leit á sig sem fyrirmynd, en hann var það og verður áfram í mínum huga. Ég á eftir að sakna Ásgeirs en veit að hann hvíldi í fullvissu um að héðan myndi hann ganga til himnaríkis.

Guð blessi minningu Ásgeirs og veiti fjölskyldunni styrk.

Gunnar Þór Pétursson og fjölskylda.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Í minningunni munu nýliðin áramót vera tíminn þar sem Ásgeir frændi háði lokabaráttuna við illvígt krabbamein. Ásgeir hafði einstakan persónuleika sem einkenndist af mikilli jákvæðni og umhyggju, hann lét veikindin ekki hafa áhrif á það og fór í gegnum þennan tíma með mikilli reisn, hann kvartað aldrei heldur var umhugað um hvernig allir aðrir höfðu það í kringum hann.

Áramótin eru líka tími þar sem margir setjast niður, fara yfir liðið ár og setja markmið fyrir það næsta. Ég var eitt sinn á námskeiði í markmiðasetningu þar sem við fengum það verkefni að setja niður á blað helstu fyrirmyndir í lífinu. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um áður en fyrsta nafnið var komið á blað og það var Ásgeir Markús, ég gat valið úr öllum mikilmennum mannkynssögunar en ég þurfti ekki að leita langt. Allt frá því að ég var lítill drengur hef ég dáðst að því hversu hlýja og þægilega nærveru hann frændi minn hafði, hann hafði einstakt lag á því að hughreysta á erfiðum tímum og samgleðjast á góðum stundum. Það er eitt orð sem lýsir Ásgeiri frænda fremur en önnur, það er „kærleikur“.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

(Fyrra bréf Páls til Korintumanna 13. 4-8)

Elsku frændi, þú hefur reynst mér og fjölskyldu minn einstaklega vel, við eigum saman margar góðar stundir í bók minninganna, þú ert og verður áfram einn af stóru áhrifavöldunum í lífi mínu, arfleifð þín lifir áfram.

Elsku María Marta, Óli Jón og fjölskylda, Gerður Rós og fjölskylda, Davíð, Samúel, Rakel og Einar. Guð styrki ykkur í sorginni.

Hannes Pétursson.

Í dag kveðjum við Ásgeir móðurbróður minn. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn á heimili Ásgeirs og Gerðar, sem féll frá langt um aldur fram, og síðar á heimili Ásgeirs og Maju seinni konu hans. Ávallt voru það hlýjar móttökur sem biðu manns í Bugðutanganum. Fyrir mér, og systkinum mínum, var það sérstaklega spennandi að smakka framandi sælgæti sem iðulega var á boðstólum og Ásgeir hafði orðið sér úti um á ferðalögum sínum sem flugvirki. Á seinni árum höfðu Ásgeir og Maja útbúið sér sælureit við sumarbústað sinn við Hafravatn. Þar var ekki síður gaman að koma í heimsókn og mikil upplifun fyrir börn.

Þegar ég hugsa til Ásgeirs er mér ofarlega í huga sú aðstoð sem hann veitti okkur hjónunum við fráfall sonar okkar. Þar sýndi Ásgeir hversu traustur frændi hann var þegar á reyndi og var okkur fjölskyldunni mikil hjálparhella sem er okkur ógleymanlegt.

Um leið og við kveðjum Ásgeir frænda sendum við Maju, börnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja þau í sorginni.

Fjölnir og Trine.

Með söknuði og þakklæti langar okkur að minnast Ásgeirs Markúsar Jónssonar með nokkrum orðum. Ásgeir hefur verið einn okkar nánasti frændi og vinur áratugum saman. Móðir Ásgeirs var Gunnþórunn eða Tóta eins hún var oftast kölluð. Hún giftist Jóni Ásgeirssyni og bjuggu þau í Elliðaárdal þar sem Jón var vélstjóri í Rafstöðinni. Systur Tótu voru nokkrar en náin samskipti voru milli Kristínar sem var ári eldri en Tóta og yngstu systurinnar Öldu sem enn er á lífi, 94 ára gömul, og er undirrituð dóttir hennar. Ásgeir Markús var elstur og síðan tvær systur, Sigga og Rúna, og öll í miklu uppáhaldi hjá móðursystrum sínum. Þær sögðu oft sögur af þeim frá því þau voru lítil, t.d. hvað Ásgeir var alltaf prúður og stilltur og oft stórhneykslaður á Siggu systur sinni sem fann upp á ýmsu og gat verið afar fjörug.

Það er til mynd af Öldu Markúsdóttur rúmlega tvítugri með Ásgeir litla í fanginu úti í garði á heimili þeirra Tótu frænku og Jóns Ásgeirssonar. Alda bjó hjá systur sinni og mági þegar Ásgeir fæddist til að geta verið systur sinni til aðstoðar. Tengslin sem þá mynduðust rofnuðu aldrei og var samband hennar og Ásgeirs alltaf sérstakt og náið. Þau hjónin Ásgeir og María Marta hafa alla tíð sýnt Öldu mikla tryggð og ræktarsemi.

Það sem einkenndi Ásgeir frænda öðru fremur var glæsileiki og örlæti. Hann bjó vel og það var gaman að heimsækja hann og fjölskyldu hans, bæði vegna þess að umhverfið var fallegt, veitingarnar frábærar en líka vegna hjartahlýju og áhuga á gestunum. Ásgeir var einstaklega greiðvikinn maður og taldi ekki eftir sér að hjálpa vinum og ættingjum. Við hjónin eigum eins og margir aðrir ótal minningar um hjálpsemi og hugulsemi Ásgeirs. Hann aðstoðaði okkur einu sinni við að flytja níðþungan ísskáp úr kjallara á Ásvallagötu og upp á Baldursgötu þegar við hófum okkar búskap árið 1984. Hann kom óbeðinn á jeppanum sínum og vippaði skápnum eins og fisi upp í hann og kom honum á áfangastað. Hann aðstoðaði okkur líka við að kaupa fyrsta bílinn, hjálpaði okkur að raða og binda upp búslóðina okkar í gám þegar við fluttum til Kaupmannahafnar, heimsótti okkur langa leið þegar við bjuggum í Þýskalandi.

Síðustu árin glímdi Ásgeir við erfiðan sjúkdóm en tók því sem að höndum bar af æðruleysi, þrautseigju og í trausti þess að allt væri í hendi Guðs. Bros hans var alltaf jafnhlýtt og handtakið þétt þegar hann mætti í afmæli Margrétar hinn 25. nóvember síðastliðinn þó að engum dyldist að hann ætti við mikil veikindi að stríða. Rétt fyrir jólin komu þau Ásgeir og María einu sinni sem oftar færandi hendi til Öldu frænku með hangikjöt og annað góðgæti og þá stóð ekki á Ásgeiri að hjálpa dóttur okkar að setja upp hakkavél svo hún gæti bakað vanilluhringi eins og til stóð. Þessi litla saga lýsir Ásgeiri vel, þessum greiðvikna og góða manni sem hann var. Blessuð sé minning Ásgeirs Markúsar.

Margrét Eggertsdóttir og Guðbjörn Sigurmundsson.

Með sorg í hjarta minnumst við Ásgeirs okkar. Ásgeir hefur verið hluti af fjölskyldunni síðan við munum eftir okkur. Ásgeir hennar Mæju frænku okkar. Yndislegri hjón er vart hægt að hugsa sér. Þau gengu hönd í hönd, samstiga í gegnum súrt og sætt. Þau voru ástfangin upp fyrir haus, leiddust, brostu og horfðu svo fallega hvort á annað. Ásgeir var líka frændsystkinum okkar yndislegur faðir og góður vinur.

Margar æskuminningar tengjast fólkinu okkar í Mosó. Mikill samgangur var á milli fjölskyldnanna og djúp vinátta myndaðist sem endast mun um aldur og ævi.

Starf Ásgeirs var í okkar augum sveipað ævintýraljóma. Hann flaug á risaþotum til landa sem við vissum ekki að væru til og gaf sér alltaf tíma til að segja okkur skemmtilegar sögur af ferðum sínum. Lúxemborgarferðin 1992 var okkar fyrsta utanlandsferð og var hvergi til sparað. Þar áttum við ljúfar vikur með fólkinu okkar úr Mosó. Ásgeir fór með okkur eins og þjóðhöfðingja um allt. Við heimsóttum risaþoturnar sem hann stýrði, þýska kastala, París og Disneygarðinn svo fátt eitt sé nefnt. Ferðin er okkur enn í fersku minni og höfum við frændsystkinin ósjaldan hlegið að ýmsum uppákomum tengdum henni.

Ásgeir var traustur vinur og áhugasamur um okkar mál. Hann var hjartahlýr, hjálpsamur og yfirvegaður. Hann var einnig heimsborgari, sælkeri, húmoristi, herramaður og ávallt vel tilhafður. Ásgeir var mikið glæsimenni alla tíð og þrátt fyrir erfið veikindi síðustu ár bar hann sig alltaf vel. Góðmennskan skein af honum hvert sem hann fór.

Við vitum að Ásgeir er nú kominn á betri stað hjá Guði þar sem þjáningar og þrautir er ekki að finna. Hugur okkar systkinanna er hjá fólkinu okkar í Mosó sem kveður nú yndislegan eiginmann og föður. Minningin um góðan vin lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

María Björg,

Kristinn Jóhannes,

Sigurður Pétur og

Björn Jakob.

Boðberar kærleikans

eru jarðneskir englar

sem leiddir eru í veg fyrir fólk

til að veita umhyggju,

miðla ást,

fylla nútíðina innihaldi

og tilgangi,

veita framtíðarsýn

vegna tilveru sinnar

og kærleiksríkrar nærveru.

Þeir eru jákvæðir,

styðja,

uppörva og hvetja.

Þeir sýna hluttekningu,

umvefja og faðma,

sýna nærgætni

og raunverulega umhyggju,

í hvaða kringumstæðum sem er

án þess að spyrja um endurgjald.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Ljóð þetta finnst mér lýsa Ásgeiri Markúsi vini mínum vel. Hann var glæsimenni, einstaklega svipfallegur, með ljúfa lund, ómþýða rödd og notalega nærveru. Það var ekki að ástæðulausu að samstarfsfólk hans í gegnum tíðina talaði gjarnan um hann sem Geira góða.

Hann átti einlæga og fallega trú á frelsara sinn, Jesú Krist. Honum treysti hann fyrir sér og sínum öllum stundum. Hann hvíldi öruggur í trúnni og var mikill bænamaður. Sannari og fegurri vitnisburður um frelsarann er líklega vandfundinn.

Hann var trúfastur KFUM-drengur allt frá unga aldri og sinnti margvíslegum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi í áratugi. Þá var hann mikilvirkur liðsmaður Gídeonfélagsins í 49 ár. Sat þar í stjórnum, m.a. nú síðast sem kapellán stjórnar Gídeonfélagsins á Íslandi allt fram á síðasta vor. Nú síðast flutti hann hrífandi og eftirminnilega hugvekju á aðventufundi félagsins í síðasta mánuði.

Ásgeir átti einstaklega fallega fjölskyldu sem hann elskaði meira en nokkuð annað. Enda mikill fjölskyldumaður. Eftir því var tekið hve samhent og hamingjusöm þau voru hjónin, hans heittelskaða María Marta og hann. Sérlega gestrisin, umhyggjusöm og hjálpfús. Þá var Ásgeir handlaginn og margt til lista lagt og nutu kraftar hans og náðargjafir sín víða.

Það var gott að vita af honum og eiga hann að vini. Við höfðum þrír þrautabræður fylgst að um nokkurn tíma, verið í reglulegu sambandi og fylgst hver með öðrum. Hef ég nú séð þá vini mína tvo hverfa inn í dýrð Drottins með mjög skömmu millibili. Það er ekki auðvelt, það tekur á. Um leið og ég þakka fyrir ómetanlega vináttu og samfylgd mun ég sakna samtala við þá báða.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast og ganga með Ásgeiri Markúsi. Fyrir vikið er ég ríkari maður. Hann var sannur boðberi kærleikans. Jarðneskur engill, í dýpstu og fallegustu merkingu.

Mæju vinkonu okkar og börnum Ásgeirs öllum biðjum við hjónin blessunar í lengd og bráð. Þið eruð rík að hafa átt Ásgeir Markús að eiginmanni og föður. Við þurfum fleiri fallegar fyrirmyndir í þessari veröld eins og Ásgeir Markús Jónsson. Guð blessi minningu hans.

Sigurbjörn Þorkelsson og Laufey Geirlaugsdóttir.

„Þau voru falleg, ungu hjónin sem fluttust aftur til Íslands frá Lúxemborg á áttunda áratug síðustu aldar. Gerður og Ásgeir auðguðu starfið í KFUM og KFUK með heilshugar þátttöku sinni, lifandi trú og brennandi áhuga.

Það var mikið reiðarslag þegar Gerður greindist með illvígan sjúkdóm og lést svo í blóma lífsins frá eiginmanni og tveimur börnum.

Ásgeir bugaðist ekki, heldur tókst á við missinn með styrk þeirrar vongóðu, kristnu trúar sem var kjölfesta hans og samofin öllu lífi hans.

Drottinn lagði líkn við þraut og gaf honum aðra yndislega eiginkonu, Maríu Mörtu. Þau hafa verið samhent og samstiga og blessað hvort annað á allan hátt í gagnkvæmri umhyggju og sameiginlegri lífssýn.

Um skeið starfaði Ásgeir í stjórn KFUM í Reykjavík. Hann tranaði sér ekki fram og var ekki orðmargur en á hann var hlustað þegar hann tjáði sig af eðlislægri einlægni og alltaf með hagsmuni Guðsríkis að leiðarljósi. Ábyrðartilfinning hans var rík og allt í öruggum höndum sem hann tók að sér.

Árum saman hélt hann utan um starfsstöð KFUM og KFUK við Holtaveg, fylgdist með viðhaldi og nauðsynlegum framkvæmdum í húsinu en bar þó enn frekar fyrir brjósti líðan og hag þeirra sjálfboðaliða sem sinntu starfsemi félaganna í húsinu.

Síðar tók hann á sama hátt að sér sumarbúðirnar í Kaldárseli. Þar var allt í jafn öruggum höndum meðan Ásgeir sinnti því.

Ásgeir gekk til liðs við endurreistan Karlakór KFUM. Enn munaði um hann – ekki eingöngu sem liðsmann í 2. tenór, heldur ekki síður sem þroskaðan trúbróður. Við kórfélagar fylgdumst álengdar með áralangri baráttu hans við krabbamein, hvernig hann reis á fætur eftir hverja aðgerðina á fætur annarri og lofaði Drottin fyrir lífið og þá heilsu sem hann hafði. Hann var okkur öllum góð fyrirmynd í þolgæði og trúartrausti.

Í haust hafði hann ekki þrek til að æfa með kórnum en þau hjónin glöddu kórinn með því að koma á eina æfingu ekki alls fyrir löngu. Ásgeir ávarpaði hópinn og enn sem fyrr flutti hann vitnisburð um þá lifandi trú sem var órjúfanlegur þáttur lífs hans allt frá æskuárum. Markaður af langri baráttu við krabbameinið var hann samt enn fallegur maður og yndislegt að hlýða á hann. Það er dýrmætt að eiga þessa minningu um kveðjustund hans með kórnum.

Guð styrki Maríu Mörtu, börnin og fjölskyldur þeirra. Blessuð sé minning Ásgeirs Markúsar Jónssonar og vitnisburður lífs hans.“

Ólafur Jóhannsson.

Í dag kveð ég vin minn, Ásgeir Markús Jónsson, í hinsta sinn. Kærar minningar um vináttu og samveru okkar koma upp í hugann. Síðustu árin höfðum við hist reglulegu til spjalla og ræða okkar mál, stöðu trúmála, þjóðmála, dægurmálin og eiga saman bænastund.

Ég minnist óteljandi samtala okkar um lífið og tilveruna, sem lyftu andanum og auðguðu ímyndunaraflið. Ásgeiri fylgdi ævinlega einstakur hlýhugur og góðvild. Það var eins og honum tækist alltaf að móta þægilegt andrúmloft í kringum sig. Trúin og boðun kristinnar trúar var ætíð megineinkenni og aðalþátturinn í lífi hans og starfi. Enginn vafi er á því, að trúin var það sterka afl í lífi og starfi Ágeirs. Mér er líka ljóst að hið nána og ástríka samband hans við eiginkonu sína, Maríu Mörtu, og börnin mótaði viðhorf hans og tilveru og gaf honum andlegan styrk, lífsþrótt, glaðværð og jákvætt viðhorf til lífsins.

Starfs- og æviferill hans sýnir glöggt hversu mikils trausts hann naut og hversu víða hann lét gott af sér leiða. Hann var listrænn, söng með karlakór KFUM og smíðavinna lék í höndum hans – sannkallaður handleiksmaður – eins og sagt er um suma menn.

Ásgeir var vinmargur og átti fjölmarga vini hérlendis og erlendis. Eitt merkilegasta starfið sem okkur er falið í lífinu er að boða orð Krists, sagði hann stundum. Ásgeir var lærður flugvélstjóri og starfaði sinn starfsferil m.a. hjá Loftleiðum, Cargolux í Luxemborg og Bláfugli. Í hálfa öld var hann virkur og traustur félagi í KFUM og K og Gideon-félaginu á Íslandi. Þar var honum treyst fyrir fjölmörgum fyrirhafnarmiklum verkefnum og trúnaðarstörfum. Hann starfaði sem þáttastjórnandi á Úvarpsstöðinni Lindinni og var þar með þætti í mörg ár. Traust og heiðarleiki var einkennandi í fari hans. Alls staðar lagði hann gott til. Hann sinnti öllum störfum af alúð og trúmennsku.

Ásgeir var einstaklega hreinskiptinn í allri sinni framkomu. Við fráfall hans er mér ofarlega í huga æðruleysi hans og hugrekki í þeim erfiðu veikindum, sem hann mátti þola. Aldrei kvartaði hann eða barmaði sér yfir þrautum og veikindum sínum. Í stuttu spjalli sem ég átti við hann daginn sem hann kvaddi sagðist hann vera tilbúinn og viðbúinn heimferðinni. Hann talaði fullkomlega sáttur við dagsverkið. Kveðjustundin er komin. Langri vináttu og samleið sem vörðuð er mörgum og góðum minningum er lokið í bili. Við vitum að við munum hittast fljótlega aftur.

Við Kolbrún sendum hans elskulegu eignkonu Maríu Mörtu, börnunum og aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur og biðjum kærleiksríkan Guð að umvefja þau, styrkja og blessa.

Með tryggð til máls og manna

á mátt hins góða og sanna

þú trúðir traust og fast.

Hér er nú starfsins endi

í æðri stjórnar hendi

er það sem heitt í hug þú barst.

(Einar Ben.)

Kolbrún og

Ómar Kristjánsson.

Vinátta felur í sér samfylgd fólks í gegnum lífið, í öllum aðstæðum þess, í gleði og sorg. Að eiga sanna vináttu er mikilvægt og vináttan er ein af forsendum hamingjunnar. Að hvíla í traustri vináttu er dýrmætt og það að geta setið með vini eða vinkonu í innihaldsríkri þögn, í einlægni og væntumþykju, að finna stuðning á erfiðum tímum í lífinu, hlýhug og elsku í hverju orði, í hverri athöfn er ómetanlegt.

Þannig var vináttan við Ásgeir. Hann var einstakt ljúfmenni, umhyggjusamur og hlýr. Mikið eigum við eftir að sakna hans og samverustundanna við hann. Hann var viðræðugóður og oft gleymdum við stund og stað í skemmtilegum og gefandi umræðum, samverum með Ásgeiri, Mæju og fjölskyldu.

Ásgeir var duglegur, laginn handverksmaður og fagurkeri mikill. Um það vitnar fallegi sumarbústaðurinn þeirra við Hafravatn. Hann vann af mikilli hugsjón og eljusemi fyrir kristilegt starf. Það var aðdáunarvert að fylgjast með hvernig hann hafði áhrif á fólk í kringum sig til góðra verka, hvatti fólk og hrósaði fyrir vel unnin störf og fólki fannst gaman að starfa þar sem Ásgeir var. Hann átti þá hugsjón að byggja upp gott og öflugt starf til að efla Guðs ríki. Þær voru margar stundirnar sem unnar voru í þágu kristilegs starfs, hvort sem það var innan KFUM og KFUK, Gídeonfélagsins, í stjórn Kaldársels, við skipulagningu funda, samkoma, bænastunda og fleira. Hann virkjaði alla fjölskylduna með sér til hinna ýmsu verkefna. Ásgeir var ætíð fús og tilbúinn til að leggja hönd á plóg. Hann var vinnusamur og jákvæður, bjartsýnn og hafði trú á þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur. Allt vildi hann gefa Guði, líf sitt og ráð.

Ásgeir tókst á við sjúkdóm sinn með miklu æðruleysi og treysti Guði fyrir lífi sínu. Mæja stóð eins og klettur við hlið hans í gegnum veikindin.

Við erum óumræðilega þakklát fyrir að hafa átt Ásgeir að í lífi okkar. Vinskapur við hann var okkur mikils virði og við erum ríkari að hafa átt slíka vináttu. Ásgeir var sannur vinur, hann veitti okkur stuðning með nærveru sinni þegar við þurftum á að halda og samgladdist okkur þegar vel gekk. Þannig vináttu er ekki hægt að meta til fjár.

Vinátta er eins og vorsins blær,

sem vanga þinn strýkur létt,

elsku veitir og eyra ljær,

faðm sinn þér býður þétt.

Hafðu þökk fyrir hlátur og gleði

hlustun, huggun og traust

samverustundir í sólskins geði

sem af vináttu okkar hlaust.

Guð þig nú geymi í eilífu ljósi

gefi þér frið sinn og ljúfan söng

ég minnist þín vinur, í hvatningu‘

og hrósi

í hverju skrefi um ævigöng.

(Ragnhildur Ásgeirsdóttir.)

Við biðjum Guð að styrkja Mæju, Davíð, Rakel og Einar, Samúel og Lovísu, Óla Jón og fjölskyldu, Gerði Rós og fjölskyldu í þeirra sorg. Guð blessi minningu um yndislegan vin okkar, Ásgeir Markús.

Guðlaug Helga og Lárus, Steinunn, Ragnhildur og Gunnar og fjölskyldur.

Ásgeir Markús Jónsson var gegnheill og góður maður. Leiðir okkar lágu fyrst saman fyrir margt löngu þegar við vorum báðir við störf á Sao Tome undan Afríkuströndum vegna hjálparflugs við sveltandi í Biafra. Hann stýrði þar flugvirkjum til að halda flugvélunum í rekstri og ég var fyrst radíómaður og síðar flugmaður.

Eftir dvölina þar lágu leiðir okkar aftur saman hjá Cargolux þar sem Ásgeir Markús starfaði sem flugvirki og síðar flugvélstjóri og þá flugum við stundum saman. Síðar störfuðum við saman hjá Arnarflugi um tíma. Við skiptum svo báðir um starfsvettvang en hittumst samt áfram reglulega og héldum vinskapnum alla tíð þótt lengra væri milli endurfunda síðustu árin.

Ásgeir Markús var frábær fagmaður. Það kom vel í ljós þegar hann var flugvirki á Sao Tome þar sem unnið var við erfiðar aðstæður. Fagmennska hans var einnig öllum ljós þegar hann starfaði hjá Cargolux og Arnarflugi og víðar og nú síðast þegar hann var yfirmaður tæknimála hjá Bláfugli þar til hann lét af störfum. Ásgeir var líka hjálpsamur og traustur vinur og taldi ekki eftir sér að styðja og styrkja þar sem hann gat lagt lið. Á þennan hátt kynntist ég Ásgeiri og þannig vil ég minnast hans. Blessuð sé minning þessa góða drengs.

Arngrímur B. Jóhannsson.

Hér koma örfá minningarorð um einn af mínum bestu vinum, Ásgeir Markús Jónsson, sem lést 4. janúar síðastliðinn eftir erfið veikindi. Leiðir okkar Ásgeirs lágu saman í KFUM og Kristilegum skólasamtökum á táningsárum okkar um 1960. Þá mynduðust tengsl á milli okkar, sterkur þráður, sem aldrei slitnaði þótt leiðir okkar lægju síðar í andstæðar áttir í námi og starfi. Þessi strengur sem tengdi okkur var trúin á Guð sem skapara og Krist sem frelsara okkar. Við játuðum opinberlega Krist sem frelsara og hugðumst í lífi okkar leggjast á sveif með Guði. Á þessari trú höfum við báðir byggt lífsferil okkar.

Við Ásgeir hittumst og kynntumst í húsi KFUM í miðbænum, en hann kom úr austurenda borgarinnar, frá Rafstöðinni við Elliðaár, en ég vestast úr Skjólunum. Þrátt fyrir vík milli vina skapaðist með okkur innileg vinátta. Má segja að allt okkar líf hafi veraldleg fjarlægð verið mikil, en andlega vorum við alla tíð samferða, bræður í Kristi, tengdir innilegri vináttu. Ásgeir Markús var afar vel gerður maður á alla lund, ljóshærður, laglegur svo eftir var tekið og einstaklega ljúfur og þægilegur í öllum samskiptum. Og strax á táningsárunum tók hann trúna mjög alvarlega, eins og vinir okkar í skólasamtökunum. Má segja að á þessum árum um 1960 hafi hús KFUM verið annað heimili okkar Ásgeirs. Þar störfuðum við í frístundum og urðum fyrir jákvæðum áhrifum sem varað hafa ævilangt. Þar mótuðumst við og lærðum að koma opinberlega fram. Við Ásgeir unnum saman í stjórn Kristilegra skólasamtaka, sem á þeim árum gaf út Kristilegt skólablað. Þar eru greinar eftir marga úr þessum hópi. Í Kristilegu skólablaði frá 1959 er grein eftir Ásgeir Markús með mynd af honum ungum og fríðum. Boðskapur greinarinnar og yfirskrift var „Kristur kallar“. Niðurlag greinarinnar eru orð Guðs: „Son minn, gef mér hjarta þitt.“ Þessu kalli fylgdi Ásgeir Markús Jónsson og hér með kem ég þessum boðskap hans til skila til þeirra sem lesa þessi fátæklegu orð mín.

Ásgeir hélt sig vel að trúnni alla tíð, enda þótt stundum syrti í álinn, til dæmis þegar fyrri kona hans lést langt um aldur fram. Hann eignaðist fimm mannvænleg börn sem áreiðanlega feta í andleg fótspor hans. Við hjónin sendum Maríu Mörtu og öllum börnunum fimm innilegar samúðarkveðjur. Þráðurinn á milli okkar Ásgeirs er enn óslitinn og nær nú upp til himins þar sem hann dvelur með Drottni.

Bjarni E. Guðleifsson.

Brosandi, glaður og gefandi kom heiðursmaðurinn einstaki, Ásgeir Markús, inn í líf mitt og minnar fjölskyldu. Gæfan að fá að tengjast honum og hans yndislegu fjölskyldu, traustum og eilífum vinaböndum hefur haft mótandi áhrif til góðs, á líf okkar allra.

Áður en við kynntumst Ásgeiri hafði hið góða orðspor hans ferðast á undan honum. Það var með eftirvæntingu og tilhlökkun sem við tókum á móti honum á heimili okkar í Lúxemborg fyrir um 20 árum. Ávallt munum við verða þakklát sameiginlegum vini, sr. Jóni Dalbú fyrir að tengja okkur, með þeim orðum að hann væri viss um að við yrðum góðir vinir. Sannara hefði ekki verið hægt að orða það, því frá fyrstu stundu var það ljóst að Ásgeir hafði alla þá mannkosti sem lífsins bestu vinir hafa.

Síðan þá hefur fjársjóðurinn með verðmætu vináttunni, minningunum, lærdómnum og fyrirmyndinni vaxið og dafnað með hverju árinu. Með sinni hlýju, hógværu framkomu, einlægni, heiðarleika og öðrum mannkostum kenndi Ásgeir mér og mörgum öðrum svo margt sem gott líf grundvallast á.

Það er af svo mörgu að taka þegar litið er til baka. Góðviljinn, hjálpsemin, ræktarsemin, húmorinn og svo margir, margir, aðrir kostir voru ávallt til staðar. Þá einstöku hæfni hafði hann Ásgeir að í hvert og eitt einasta sinn sem hann birtist fylltist allt af hlýju og kærleik. Það var eins og sálin í manni fengi kærleiksáfyllingu. Kærleik sem hann kenndi okkur að deila með öðrum.

Í lífinu krossast leiðir okkar við margar virkilega góðar persónur, Ásgeir var ein þeirra. Í mínum huga var Ásgeir jarðengill, sem almættið sendi okkur til leiðsagnar, halds og trausts.

Þegar hugsað er um allt það frábæra, óeigingjarna starf og þrekvirki sem Ásgeir vann fyrir Kaldársel kemur hin skemmtilega – gröfusaga Ásgeirs og Davíðs – upp í hugann. Skínandi dæmi um öll þau góðverk sem Ásgeir gerði fyrir svo marga og áhrifamátt bjúgfleygs-blessana (Boomerang Blessings).

Ásgeir var mikil fyrirmynd dugnaðar, ósérhlífni og þolinmæði. Allt frá því að veikindi hans komu fyrst í ljós, fyrir nær sjö árum, var það alveg einstakt að sama hverjar aðstæður voru var það ávallt hann sem færði okkur öllum jákvæðni, styrk og orku.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Elsku María, Davíð, Rakel, Einar, Samúel, Lovísa, Gerður Rós, Sigurður og Óli Jón, með tár í augum og sorg í hjarta sendum við ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi algóður Guð gefa ykkur styrk og huggun.

Blessuð sé minning kærleiksgjafans og jarðengilsins Ásgeirs Markúsar Jónssonar. Ykkar vinir,

Diðrik, Viktoría og fjölskylda.

Kveðja úr Vatnaskógi

Sem ungur drengur dvaldi Ásgeir Markús langdvölum í Skóginum. Þar naut hann samvista við sr. Friðrik, sr. Magnús, Stínu og fleiri sem létu sér annt um hann. Þegar Ásgeir var orðinn fulltíða maður þakkaði hann á margan hátt fyrir sig. Hann reyndist starfinu í Vatnaskógi einstaklega vel og greiddi götu þess á margan hátt, kom oft í karlaflokka og vann staðnum gott.

Á sameiginlegum vettvangi sumarbúða KFUM og KFUK áttu undirritaðir gefandi samstarf við Ásgeir þegar hann var formaður Kaldársels. Alltaf jákvæður, lausnamiðaður og uppbyggilegur.

Fyrir þetta allt og meira til þakka Skógarmenn KFUM Ásgeiri Markúsi og senda fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Skógarmanna KFUM,

Ólafur Sverrisson og

Ársæll Aðalbergsson.

Mig langar að minnast vinar míns Ásgeirs Markúsar Jónssonar, flugvirkja og flugvélstjóra, með nokkrum orðum. Þótt mikill aldursmunur væri á okkur Ásgeiri höfðum við þekkst frá því að ég var unglingur. Ásgeir og faðir minn og nafni hans unnu saman hér fyrr á árum er þeir flugu saman hjá Loftleiðum, faðir minn sem flugstjóri en Ásgeir Markús sem flugvélstjóri.

Faðir minn dó þegar ég var 18 ára, þá minnist ég þess að Ásgeir Markús kom að máli við mig og sagði eitthvað á þessa leið: „Pétur, ef ég get eitthvað hjálpað þér eða ykkur fjölskyldunni láttu mig þá vita.“ Ekki leið langur tími þar til ég leitaði til Ásgeirs Markúsar og er skemmst frá því að segja að hann leysti úr því máli með prýði eins og hans var von og vísa. Einu sinni gaf Ásgeir mér ráð sem ég fór ekki eftir, en auðvitað voru ráð Ásgeirs rétt, svona eftir á að hyggja.

Við Ásgeir sungum báðir í karlakór KFUM og þar hittumst við reglulega, en mikið söknuðum við Ásgeirs þegar sjúkdómur hans varð þess valdandi að hann varð að draga sig í hlé frá söngnum. Ég trúi því að Ásgeir syngi nú hjá Guði á himnum. Ásgeir Markús trúði heitt á Jesú Krist og treysti honum fyrir öllu, hverju nafni sem það nefndist. Það var uppörvandi að heyra Ásgeir segja frá trú sinni á Jesú á aðventufundi Gídeonfélagsins nú skömmu fyrir síðustu jól, það var greinilegt að hann treysti Jesú Kristi frelsara sínum fyrir öllu sínu lífi. Þessi vísa birtist í huga mér þegar ég nú kveð kæran vin minn Ásgeir Markús:

Til dýrðar Drottins kominn er

dugmikill og glaður

til himins er nú horfinn hér

mikill heiðurs maður.

(P.Á.)

Kæra María Marta og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.

Pétur Ásgeirsson,

gjaldkeri karlakórs KFUM.

Það voru sannkalllaðar gæðastundir sem við félagarnir í útskurðarhópnum í Hraunbænum áttum með Ásgeiri Markúsi Jónssyni þá morgna sem við vorum með honum. Maðurinn var öðlingur sem varð vinur okkar allra og vildi allt fyrir okkur gera. Ef einhvers staðar kom upp „vandamál“ að einhver hélt, þá leysti hann þau á staðnum eða tók verkin bara heim með sér og leysti þau. Þetta voru skemmtilegar stundir þar sem ýmislegt var rætt en ef honum fannst við fara fullhratt í að redda heimsmálunum beindi hann okkur á sinn hógværa hátt á önnur mál. Hann var gegnheill heiðursmaður hvort sem var á þessum samverustundum eða að maður hitti hann þar fyrir utan. Alltaf sýndi hann sömu hlýjuna og innileikann.

Sagt er að maður komi í manns stað en það kemur enginn Ásgeir aftur og við söknum þessa góða manns.

Með virðingu og hlýju kveðjum við Ásgeir M. Jónsson.

Eiginkonu, börnum og öllum aðstandendum hans sendum við samúðarkveðjur. Megi mætur maður hvíla í friði.

Útskurðarhópurinn í Hraunbæ 105,

Jón, Sturla, Pálmi, Stefán, Björn, Sigurður, Þórður, Birgir, Heimir og Gunnar.

Þau sorglegu tíðindi bárust í hádeginu 4. janúar 2015 að Ásgeir Markús Jónsson Gídeon-bróðir hefði verið kallaður heim til Drottins.

Nokkrum dögum áður höfðum við Sveinbjörn Gizurarson kapelán Gídeonfélagsins heimsótt hann á Landspítalann og átt með honum góða og uppbyggilega stund þar sem hann nýtti hvert tækifæri til að uppörva og hvetja okkur áfram.

Ásgeir Markús var lengi búinn að berjast við krabbamein, fara í ótal aðgerðir og fjölda lyfjameðferða. Alltaf reis hann upp aftur og lofaði Drottin. Í þessari heimsókn okkar kom svo vel fram hversu mikill vitnisburður hann var um kærleika Krists og fullvissa hans um að Drottinn hefur allt í sinni hendi.

Ég hef þekkt Ágeir Markús í mörg ár, fyrst í starfi KFUM og K og síðan í starfi Gídeonfélagsins en þar hafði hann verið félagi síðan 1966. Hann gegndi allmörgum ábyrgðarstörfum fyrir félagið, sat m.a. í stjórnum sinna deilda og nú síðast var hann kapelán Gídeonfélagsins 2011-2014. Það var afar gott að vinna með Ásgeiri Markúsi þar sem hann lagði hugmyndir ávallt fram af yfirvegun og vandvirkni.

Ásgeir var traustur vinur vina sinna og ef hann vissi af einhverjum sem veiktist eða gekk í gegnum erfiða tíma lagði hann þessa einstaklinga trúfastlega fram fyrir Drottin í bæn. Þar fengum við að sjá og upplifa kraft bænarinnar og kærleika Guðs. Oft heimsótti hann þá sem áttu erfitt, til þess að uppörva þá og hvetja. Þannig var Ásgeir Markús fyrirmynd mín og margra annarra um hvernig umgangast átti samferðamenn sína. Hann var ávallt jákvæður, glaðlyndur og nýtti hvert tækifæri til að vera lifandi vitnisburður um gæsku Guðs. Síðasta verk Ásgeirs Markúsar fyrir Gídeonfélagið var á aðventufundi félaganna á höfuðborgarsvæðinu í lok nóvember, þegar hann snerti við mörgum félagsmanninum með vitnisburði sínum.

Við erum einstaklega þakklát fyrir trúfesti hans og þjónustu fyrir félagið og erum Guði þakklát fyrir þá blessun sem hann hefur verið í lífi okkar og starfi. Eiginkonu hans, börnum og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Gídeonfélagsins á Íslandi,

Guðmundur Örn Guðjónsson, forseti.

Nýja árið hóf innreið sína á dapurlegan hátt hjá okkur í félagsmiðstöðinni á Aflagranda 40. Félagi okkar og vinur, Ásgeir M. Jónsson, laut í lægra haldi fyrir ólæknandi sjúkdómi sem hann hafði barist hetjulega við um tíma.

Ásgeiri fylgdi hógværð og fágun einkenndi hann umfram annað. Allt hans fas bar með sér hlýju og velvild til allra sem nálægt honum voru. Fyrir utan fagmennsku og vandaða vinnu, sem við öll dáðumst að, gaf hann nemendum sínum svo miklu meira en bara kennslu í handverki. Hann fylgdist með þeim sem á einhvern hátt áttu í erfiðleikum og stappaði í þá stálinu á sinn hógværa máta. Væntumþykja hans var nánast áþreifanleg og áhugi hans á velferð okkar allra var fölskvalaus.

Hér í Vesturbænum er því hnípinn hópur nemenda og samstarfsfólks Ásgeirs sem saknar vinar í stað. Við vissum að hann var tekinn að lýjast í baráttunni og hann fékk að sofna inn í fegurð jólanna. Yfir minningu hans hvílir virðing og þakklæti. Þakklæti til góðs vinar sem gæddur var persónutöfrum og góðmennsku í ríkum mæli.

Ástvinum hans öllum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Fyrir hönd vinnufélaganna á Aflagranda,

Stefanía Snævar.