Leit Viðbúnaður frönsku lögreglunnar hefur verið mikill að undanförnu.
Leit Viðbúnaður frönsku lögreglunnar hefur verið mikill að undanförnu. — AFP
Frakki, sem handtekinn var í Búlgaríu á nýársdag þar sem hann reyndi að komast yfir landamærin til Tyrklands, var í sambandi við annan Kouachi-bræðranna sem myrtu tólf í miðborg Parísar fyrir tæpri viku.

Frakki, sem handtekinn var í Búlgaríu á nýársdag þar sem hann reyndi að komast yfir landamærin til Tyrklands, var í sambandi við annan Kouachi-bræðranna sem myrtu tólf í miðborg Parísar fyrir tæpri viku. Að sögn ríkissaksóknara, Darinu Slavovu, var Fritz-Joly Joachin, tuttugu og níu ára franskur ríkisborgari ættaður frá Haítí, í samskiptum við Chérif Kouachi.

Eins og komið hafði fram hafði forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, sagt það hafið yfir allan vafa að árásarmennirnir þrír í París hefðu átt sér vitorðsmann og að leit stæði yfir að honum. Að sögn Slavovu áttu tvímenningarnir í samskiptum áður en Joachin fór frá Frakklandi 30. desember síðastliðinn en Joachin var á skrá Europol yfir eftirlýsta en eiginkona hans hafði sakað hann um að hafa rænt þriggja ára gömlum syni þeirra. Í gær barst búlgörskum yfirvöldum önnur handtökuskipun á hendur honum frá París. Samkvæmt henni er Joachin sakaður um aðild að skipulagðri glæpastarfsemi sem hafði það að markmiði að fremja hryðjuverk.

davidmar@mbl.is