Framkvæmdir Dregið hefur úr opinberum fjárfestingum eftir hrun.
Framkvæmdir Dregið hefur úr opinberum fjárfestingum eftir hrun. — Morgunblaðið/Golli
Opinber fjárfesting hefur dregist saman um 47% á föstu verðlagi frá árinu 2008.

Opinber fjárfesting hefur dregist saman um 47% á föstu verðlagi frá árinu 2008. Afleiðing lítillar fjárfestingar yfir lengra tímabil er að fjármunaeign minnkar og rýrnar að gæðum, með þeim afleiðingum að nauðsynleg endurnýjun verður dýrari og erfiðari, að því er segir í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi síðstliðið sumar að komin væri upp þörf fyrir að auka opinberar fjárfestingar með því að skapa svigrúm til þess innan ramma fjárlaga. Sé hins vegar litið á langtímaáætlanir ríkissjóðs eins og þær birtast í frumvarpi til fjárlaga hvers árs telur Landsbankinn að ekki sé að sjá mikil áform í þá áttina.

Fór niður í 2,5% af VLF

Opinber fjárfesting hefur verið að meðaltali 4% af vergri landsframleiðslu frá árinu 1990, fór nokkuð umfram það árin 2006 til 2008, en féll svo niður í 2,5% árið 2012. Bættur rekstur ríkisins á þessum árum er því að hluta kominn til vegna verulegrar minnkunar á fjárfestingum og frestun framkvæmda.

Sé litið nánar á tölur um opinberar fjárfestingar má sjá að fjárfesting í vegum og brúm hefur dregist saman um 66% á föstu verðlagi frá árinu 2008 til 2013. Fjárfesting í götum og holræsum hefur minnkað um 60% og byggingum um 44%. Hagfræðideild Landsbankans bendir reyndar á að minnkun fjármunaeignar hafi átt við um næstum allt íslenska hagkerfið á síðustu árum.