Örnefni Það er vissara að bæjarnöfn séu á hreinu á landakortum.
Örnefni Það er vissara að bæjarnöfn séu á hreinu á landakortum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Örnefnanefnd afgreiddi á síðasta ári formlegar tilkynningar um 20 nöfn, þar af voru 18 nöfn samþykkt og send þinglýsingarstjórum. Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2014.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Örnefnanefnd afgreiddi á síðasta ári formlegar tilkynningar um 20 nöfn, þar af voru 18 nöfn samþykkt og send þinglýsingarstjórum.

Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu nefndarinnar fyrir árið 2014. Nefndin starfar á grundvelli laga nr. 35/1993 um bæjanöfn o.fl. Helstu verkefni nefndarinnar eru að taka við tilkynningum um nafn nýbýlis eða þéttbýlis eða breytingar á bæjanöfnum. Einnig úrskurðar nefndin hvaða örnefni skuli sett á landakort á vegum Landmælinga Íslands. Þá getur nefndin úrskurðað um nýtt götunafn eða nafn á húsi, komi upp ágreiningur um nafngift.

Nefndin hafnaði einu nafni af „öryggisástæðum“ eins og það er orðað. Vísað er til ákvæðis í lögum um bæjarnöfn þar sem nafngiftir megi ekki leiða til samnefna á fasteignum í sama héraði né nafna sem eru svo lík öðrum nöfnum á fasteignum í héraðinu að hætt sé við nafnabrengli af þeim völdum. Þá var einu erindi hafnað þar sem það féll utan við verksvið örnefnanefndar.

Betanía varð Kot

Nefndin fékk fjórar beiðnir um nafnbreytingar og samþykkti þær allar. Þannig breyttist Betanía í Önundarfirði í Kot, Hof II í Fjarðabyggð varð að Svarthömrum og Kúludalsá 4b í Hvalfjarðarsveit varð Lambalækur.

Í ársskýrslunni kemur fram að örnefnanefnd fékk í fyrra erindi frá Landmælingum um staðsetningu örnefnisins Þverfell í Esju. Unnið er að skýrslu um málið á nafnfræðisviði Árnastofnunar. Þá fjallaði nefndin um heitið Ráðagerði á býli í Ásahreppi, samkvæmt beiðni frá Sæmundi B. Ágústssyni í Bjólu og hreppsnefnd Ásahrepps.

Beðið eftir goslokum

Þórunn Sigurðardóttir, formaður örnefndanefndar, segir að frá því að núverandi nefnd tók til starfa árið 2011 hafi hún fengið allt að 25 erindi á ári. Aðspurð segir Þórunn að ekki hafi komið beiðni um að fjalla um ný örnefni vegna eldgossins í Holuhrauni.

„Líklega er ótímabært að gera það að svo stöddu, meðan gosið er enn í gangi og óljóst hvernig þar verður umhorfs þegar gosi lýkur. Nefndin fylgist þó með umræðunni og nafnfræðisvið Árnastofnunar hefur safnað gögnum um hana,“ segir Þórunn.

Varðandi erindið um Ráðagerði segir hún að nefndin hafi verið beðin að taka afstöðu til þess hvort væri eðlilegra að bæjarnafn fylgdi upprunalegu bæjarstæði þegar landi væri skipt upp, eða stærsta hluta viðkomandi jarðar. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að það væri ekki stærð landsins sem réði hvaða hluta gamla nafnið fylgdi.

Það er sterk hefð fyrir því að nafn jarða fylgi bæjarstæðum og bæjartúnum, alveg óháð stærð. Þannig getur nafn jarðar ekki fylgt úthögum eða beitilandi jarðar ef það er skilið frá upphaflegri jörð heldur hlýtur það nafn að fylgja þeirri landspildu sem bæjarstæði er á. Kjarni hverrar jarðar hlýtur þannig að vera svæðið kringum gamla bæinn, bæjarhólinn og bæjartúnið,“ segir Þórunn.

Langflest á Suðurlandi

Meirihluti þeirra bæjarnafna sem örnefnanefnd samþykkti á síðasta ári kom af Suðurlandi, eða í 10 tilvikum af 18. Fimm bæir eru á Norðurlandi, tveir á Vesturlandi og einn á Vestfjörðum.

Örnefnanefnd samþykkt eftirtalin bæjanöfn: Álftröð úr landi Álfsstaða í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ásborg úr landi Áss I í Ásahreppi. Bjartaland úr landi Hróarsholts II í Flóahreppi. Brekkulundur úr landi Syðri-Brekku í Húnavatnshreppi. Dalsholt úr landi Kjarnholta í Bláskógabyggð. Fagurhóll úr landi Snjallsteinshöfða-Grásteinss í Rangárþingi ytra. Fornustaðir úr landi Ragnheiðarstaða í Flóahreppi. Hafrafell II úr landi Hafrafells á Fljótsdalshéraði. Holt og Hvanngil úr landi Þverár í Reykjahverfi í Norðurþingi. Leirárskógur úr landi Leirár í Hvalfjarðarsveit. Mórudalur úr landi Langholts í Vesturbyggð. Sóltún úr landi Hallstúns í Rangárþingi ytra. Sturluholt úr landi Bjarnastaða í Grímsnes- og Grafningshreppi. Syðri-Hóll II og III úr landi Syðra-Hóls í Eyjafjarðarsveit. Urðarlaut úr landi Skálmholts í Flóahreppi. Volatún úr landi Langsstaða í Flóa.