Eggert og von Rauch „Naumhugult og fágað stefnumót þessara tveggja vönduðu listamanna reynist því fullt af frjóu lífi,“ segir rýnir um sýningu listamannanna á málverkum og ljósmyndaverkum í i8 galleríi.
Eggert og von Rauch „Naumhugult og fágað stefnumót þessara tveggja vönduðu listamanna reynist því fullt af frjóu lífi,“ segir rýnir um sýningu listamannanna á málverkum og ljósmyndaverkum í i8 galleríi. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 31. janúar 2015. Opið kl. 11-17 þriðjudaga til föstudaga, kl. 13-17 laugardaga og eftir samkomulagi. Aðgangur ókeypis.

Ein af athyglisverðustu og óvæntustu sýningum sem opnaðar voru á síðasta ári er samsýning Eggerts Péturssonar og Friederike von Rauch í i8 galleríi í Tryggvagötu, en þar sýna þau nýleg verk. Eggert er þekktur fyrir nosturslega unnin „blómamálverk“ en von Rauch fyrir ljósmyndir teknar í mannlausu húsnæði (einnig liggja eftir hana landslagsmyndir). Stefnumót verka þeirra – sem ber yfirskriftina „Snið“ – er því óneitanlega forvitnilegt enda mætast þar ýmsar andstæður: náttúran og hið manngerða, hið lífræna og hið geómetríska, hreyfing og kyrrstaða, litauðgi Eggerts og sú litræna naumhyggja sem einkennt hefur verk von Rauchs. Við komuna í galleríið er ljóst að sú síðarnefnda hefur gefið tóninn því Eggert hefur á vissan hátt lagað myndheim sinn að hennar með því að tóna sig niður í gráskalann. Við það rennur upp jafnframt fyrir áhorfandanum að verk þeirra eiga raunar furðumargt sameiginlegt.

Báðir listamenn beina sjónum „intensíft“ að viðfangsefni sínu; broti eða sneiðmynd úr veruleikanum svo sem þyrpingu kunnugra plantna eða að því hvernig birta fellur á óskilgreinda húsveggi og hluti innandyra. Um leið framkalla þau á næman hátt, ýmist með olíulitum eða litfilmu, fegurðina í umhverfinu og gæða hversdagslegustu fyrirbæri dulúðugu andrúmslofti. Samspil birtu, áferðar og efnisleika hlutanna er því mikilvægt inntak í verkum beggja.

Í fremur þéttum samleik verkanna í rými gallerísins sést einnig vel hvernig mýktin í málverkum Eggerts dregur fram hið maleríska og lífræna í verkum von Rauch: mjúka skugga, mismunandi áferð og fínleg blæbrigði lita – sem von Rauch ýtir raunar sjálf undir með vali á myndavél, lýsingu, filmu og pappír, til viðbótar við afmörkun myndefnisins. Órætt formspilið leikur á mörkum hins óhlutbundna og skapar sjónblekkingar. Áhorfandinn er stundum á báðum áttum: er ég að horfa á ljósmynd eða málverk? Pensill Eggerts er einnig á mörkum raunsæislegrar túlkunar á einstökum jurtum og hins maleríska spuna; sérstaklega virðist flóran á undanhaldi í einu verki á vesturvegg og verður áhorfandanum hugsað til iðandi jökulfljóta og veðrahams. Heildaryfirbragð málverkanna er gráleitt en þegar rýnt er í flötinn sést að áberandi litatónar eru blágrænir, fjólubláir, brúnbleikir, gráir og grágrænir tónar með hressandi ívafi gulra, rauðra og blárra pensilstroka. Hlýju litirnir magnast upp í samspili við brúna tóna í ljósmyndunum. Í dempaðri grámusku sinni eru blóm Eggerts fögur sem fyrr. Naumhugult og fágað stefnumót þessara tveggja vönduðu listamanna reynist því fullt af frjóu lífi og að heimsókn lokinni heldur sýningargesturinn aftur út í málmkennda vetrarskímuna með yl í brjósti.

Anna Jóa

Höf.: Anna Jóa